Spjaldakerfi knattspyrnunnar virkar mjög einfalt og rökrétt kerfi, gult spjald þýðir að leikmaður er á hálum ís og rautt spjald þýðir brottvikningu. Hinsvegar kom þetta kerfi ekki til sögunnar fyrr en á heimsmeistaramótinu 1970. Innblásturinn að því má rekja til leiks milli Englands og Argentínu í átta liða úrslitum keppninnar fjórum árum fyrr á Wembley.

 

Leikurinn var grófur og vægðarlaus og hefur hann verið sagður meira í ætt við milliríkjadeilu en knattspyrnuleik. Argentína hafði fengið á sig slæmt orð fyrir tuddaskap á mótinu og í enska þjóðarminninu voru Argentínumenn mjög grófir í leiknum þrátt fyrir að þeir hafi verið með færri brot en England. Hinsvegar sökuðu ensku leikmennirnir andstæðinga sína um hártoganir, eyrnaklípur og að hrækja framan í sig.

 

Antonio Rattín, fyrirliði Argentínumanna sem hafði viðurnefnið „rottan“, var rekinn út af á 35 mínútu leiksins. Það sem gerðist næst var ótrúlegt því það tók hinn steinhissa Rattín átta mínútur að yfirgefa völlinn. Hann virtist ekki trúa sínum eigin augum og nánast grátbað Rudolf Kreitlein, dómara leiksins, um að skipta um skoðun.

 

Aðrir leikmenn Argentínu voru óhræddir við að sýna reiði sína og einn þeirra greip í dómarann. Rétt áður en hann yfirgaf völlinn settist Rattín í skamma stund á rauða teppið sem var ætlað Elísabetu Englandsdrottningu, vilja sumir meina að það hafi verið í mótmælaskyni við ákvörðunina.

 

En hvað hafði Rattín gert af sér? Sumir vildu meina að hann hefði verið rekinn út af fyrir leiktafir og að rífast við dómarann eftir gróft brot hans á Bobby Charlton. Hann tæklaði einnig Geoff Hurst klaufalega. Hefði Rattín verið rekinn út af þá eftir sína aðra áminningu hefði hann varla getað kvartað, en Kreitlein gaf honum það sem hann sjálfur taldi vera lokaaðvörun og var orðinn hundleiður á kvörtunum hans og tilraunum til að tefja leikinn.

 

Þegar Rattín viðhafði svo það sem dómarinn taldi vera ljótt orðbragð í sinn garð var hann sendur í sturtu. Kreitlein útskýrði síðar ákvörðun sína þannig að þótt hann skildi ekki spænsku hefði augnlit hins hávaxna miðjumanns Argentínu verið nóg til að skilja sneiðina. Meint kjaftbrúk Rattín varð honum þannig að falli.

 

Helstu atvik leiksins:

Vídjó

 

Hér má sjá Rattín ganga út af velli og grípa um hornfánann:

Vídjó

 

Geoff Hurst skoraði síðan eina mark leiksins með skalla þegar tólf mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Þetta var mögulega markið sem vann mótið fyrir Englendinga. Ekki aðeins var það sigurmarkið gegn erfiðasta andstæðingi þeirra á mótinu, heldur einnig sannaði það fyrir enska landsliðsþjálfaranum Alf Ramsey gildi sóknarmannsins unga. Hurst átti svo eftir að skora þrennu gegn Vestur-Þjóðverjum í úrslitaleiknum, þar af eitt umdeildasta mark knattspyrnusögunnar.

 

Annað umdeilt atvik átti sér stað að leik loknum, þegar Ramsey bannaði leikmönnum sínum að skiptast á treyjum við andstæðinginn og kallaði síðan Argentínumenn skepnur fyrir hegðun sína í leiknum. Skepnur eður ei, leikmönnum Argentínu var fagnað sem hetjum við heimkomuna til Buenos Aires. Rattín var vafinn í argentínska fánann og Juan Carlos Onganía, nýr einræðisherra landsins, tók á móti leikmannahópnum og hrósaði þeim fyrir frammistöðu sína og kjark.

 

article-2572808-001AC58400000190-190_634x416

Alf Ramsey hindrar treyjuskiptin.

 

Enskir fjölmiðlar gagnrýndu Argentínumenn fyrir ódrengilegan og grófan leik. Viðbrögð argentínskra fjölmiðla voru einnig harkaleg en dagblaðið Clarín hafði mynd af Kreitlein á forsíðunni undir fyrirsögninni „Sökudólgurinn“ og talað var um meinta spillingu og mafíu evrópskra dómara.

 

Það voru ekki bara argentínsku blöðin sem gagnrýndu ákvörðunina því ítalska blaðið Il Messagero kallaði brottvísunina gróft óréttlæti og spurði hvernig væri hægt að reka leikmann út af fyrir móðganir þegar viðtakandinn skildi ekki einu sinni tungumálið.

 

Enski íþróttablaðamaðurinn Jonathan Wilson telur að dómarinn hafi staðið sig illa í leiknum og að ákvörðun hans að reka Rattín út af hefði verið furðuleg þó ekkert hefði bent til spillingar í þágu heimaþjóðarinnar, Englendingar hafi t.a.m. átt að fá augljósa vítaspyrnu fyrr í leiknum sem ekki var dæmd.

 

Knattspyrnudómarinn Ken Aston hafði sjálfur reynslu af dómgæslu erfiðra leikja því að á HM 1962 hafði hann dæmt hina svokölluðu „orrustu um Santiago“ á milli Chile og Ítalíu, einhvern grófasta leik knattspyrnusögunnar.

 

Fjórum árum síðar var hann formaður dómaranefndar HM og hafði komið niður að hliðarlínunni til þess að styðja við bakið á Kreitlein í leik Englands og Argentínu. Á leiðinni heim til sín um kvöldið velti hann fyrir sér þeim tungumála- og menningarmun sem leikmenn og dómarar þyrftu að að takast á við.

 

Ekki einungis hafði atvikið með Rattin átt sér stað heldur höfðu báðir Charlton-bræðurnir í enska liðinu, Bobby og Jack, fengið aðvörun frá dómaranum sem hvorugur vissi af!

 

Aston velti fyrir sér hvernig væri hægt að bæta samskiptaleiðir milli dómara og leikmanna. Þegar hann stoppaði á umferðarljósum fékk hann hugmynd.

 

Líkt og gult ljós segir ökumanninum að hægja á sér og rautt segir honum að stoppa þá mætti nota gul og rauð spjöld fyrir aðvaranir og brottvísanir í knattspyrnu. Eins snjöll og einföld þessi lausn Aston var er þó ólíklegt að hún hefði breytt einhverju varðandi brottvísun Rattín. Allir á vellinum gerðu sér grein fyrir að búið væri að reka Rattín út af, hann tók brottvísunina einfaldlega ekki í mál og vildi fá túlk til að skýra sína hlið mála. En það þýðir víst ekki að deila við dómarinn.

 

Ken_Aston_MBE_Portrait

Ken Aston, upphafsmaður gulu og rauðu spjaldanna. (Wikimedia Commons)

 

Þegar hann gekk af vellinum greip Rattin um einn hornfánann sem var í mynd breska þjóðfánans, Union Jack. Þetta athæfi hefur verið túlkað á mismunandi vegu, sumir vilja meina að hann hafi viljað ata út þetta breska tákn, aðrir að hann hafi viljað benda á að þetta hafi verið breskt heimsmeistaramót því mætti vænta þess að gestgjafarnir ættu að sigra.

 

Bobby Charlton var með einfaldari skýringu, að Rattín hafi áttað sig á því augnabliki að mesta ævintýri ferilsins væri lokið og að hann gæti sjálfum um sér kennt. Hver sem ástæðan var þá var þetta táknrænt augnablik leiks sem markaði upphafið að sögulegum fótboltaríg milli Englands og Argentínu. Það liðu 20 ár þangað til Argentína náði loks fram hefndum.

 

Lesa má frekar um leikinn í bókinni Anatomy of England: A History in Ten Matches eftir Jonathan Wilson.