Í maí 1983 lenti sérútbúin Boeing 747 þota á Keflavíkurflugvelli. Það hefði ekki verið í frásögur færandi hefði hún ekki flogið með geimferjuna Enterprise á bakinu!

 

Þotan og geimferjan flugu yfir Reykjavík og það hlýtur að hafa verið ótrúleg sjón! Þeir lesendur sem upplifðu það mega endilega deila því með okkur hvernig tilfinning það var. Furðuförin voru á leið á flugsýningu í París. Á þessum tíma var geimferjuáætlun NASA á fyrstu stigum. Enterprise var fyrsta geimferjan og var notuð í tilraunaflug. Hún var svo ekki notuð í geimferðirnar sjálfar. Geimferjurnar voru aðalgeimför NASA þar til fyrir nokkrum árum þegar ákveðið var að hætta að nota slíkar flaugar.

 

DV

 

DV lýsti hinu magnaða augnabliki svona:

 

Tugþúsundir manna sáu bandarísku geimferjuna Enterprise á baki Boeing 747-þotu í aðeins fimmtíu metra hæð yfir Reykjavíkurflugvellí klukkan 20.31 í gærkvöldi. Þessi sérkennilega samstæða, þetta risaferlíki, var það stærsta fljúgandi far sem flestir höfðu nokkru sinni séð; yfir 220 tonn að þyngd, 70 metra langt, 24 metra hátt og vænghafið 60 metrar. Geimskutlan var orðin hálftíma á eftir áætlun þegar hún sást frá Keflavíkurflugvelli koma fljúgandi úr vestri inn Faxaflóann með stefnu á Akranes. Við Skipaskaga kom hún inn á aðalfluggeisla norður-suður brautar Reykjavíkurflugvallar og fylgdi honum. Burðarþotan lækkaði sig eins og hver önnur flugvél í aðflugi og setti niður hjólin. Yfir miðjum flugvellinum var hún í svipaðri hæð og Öskjuhlíð. Skutlan stefndi síðan á Grindavík. Taka þurfti víða beygju til að komast inn á lokastefnu Keflavíkurflugvallar. Þar var lent klukkan 20.45.

 DVLoftur
Stjörnufræðivefurinn rifjaði atvikið upp fyrir nokkrum misserum:
 

Ímyndið ykkur hvernig það hefur verið að sjá Enterprise svífa yfir Reykjavík! Þegar Íslendingar höfðu varla komist í kynni við tölvu. Þegar skífusímar voru á hverju heimili. Hvítgljáandi Enterprise-geimferjan hefur litið út eins og eitthvað úr Star Wars myndunum (þriðja myndin, Return of the Jedi, kom í kvikmyndahús um svipað leyti). Þetta voru tímar sem fólk kunni að dreyma og hafði fulla ástæðu til að láta sig dreyma. Árið 1983 héldu margir að aðeins væru um 10-20 ár þangað til mannkynið væri komið til Mars.

 

Hér er á eftir eru ljósmyndir frá Keflavíkurflugvelli sem Lemúrinn gróf upp hjá skjalasafni Bandaríkjahers.

 

DN-SC-88-06682

 

DN-SC-88-06683

 

DN-SC-88-06686

 

DN-SC-88-06688

 

DN-SC-88-06681