Norðmenn glíma við sérstakan vanda. Gríðarlega mörg norsk lík af föllnum frændum okkar rotna ekki. Á sínum tíma þótti fínt að vefja hinum dauðu í plastpoka og það hefur þessi áhrif. Fyrrum kirkjugarðsstarfsmaður hefur fundið lausnina.

 

„Ég óttast ekki dauðann. Ég hafði verið dauður í milljarða ára áður en ég fæddist og hafði ekki minnsta ónæði af því.“

 

Þetta hafði bandaríski rithöfundurinn Mark Twain að segja um dauðann. Og við vonum að hann hafi ekki farið hræddur inn í nóttina löngu þegar hann lést árið 1910.

 

 Flestir sem deyja eru mjög fljótlega eftir dauðann settir í grafir þar sem beinin hvíla í friði í langan tíma. „Af jörðu ertu kominn, Að jörðu skaltu aftur verða.“ Þessi orð Gamla testamentisins ríma líklega við hugmyndir flestra um dauðann.

 

Norðmenn eru í nokkrum vanda vegna þess að margir þeirra dauðu breytast of hægt í mold. Líkin rotna ekki nógu hratt. Það er vegna þess að á áratugunum eftir síðari heimsstyrjöldina var til siðs í Noregi að vefja líkum í plast áður en þau voru lögð í líkkisturnar. Aðferðin var talin þrifalegri og góð fyrir umhverfið.

 

Førde (Arild Nybø - CC - Flickr)

Førde (Arild Nybø – CC – Flickr)

 

En þetta hefur þýtt að rotnun fer mun hægar fram. Og þá er minna pláss í kirkjugörðum en ella því reynt er að nýta garðana þannig að hægt sé að grafa marga á sama leiði í gegnum áratugina. Eftir 20 ár þarf að borga sérstakt gjald til þess að hinn látni hvíli áfram einn á bletti sínum.

 

Talið er að um 350 þúsund lík séu algerlega vafin í plast og þau liggja eins og kjötálegg í pakkningum í norskum kirkjugörðum. Kirkjugarðayfirvöld eru því í basli með plássið í garðinum. Mörgum ættingjum þeirra látnu finnst líka erfitt til þess að hugsa að bein ástvinarins hvíli ekki með eðlilegum hætti. Sumir ímynda sér jafnvel að sálin sitji föst innpökkuð.

 

Kjell Larsen Ostbye, fyrrum kirkjugarðsstarfsmaður fann lausnina. Og hefur nú lifibrauð af því að frelsa líkin úr plastinu. Hann borar gat í jörðina og stingur á plastið með spjótum og dælir svo efnablöndu inn í pakkann. Hún lætur rotnunina fara strax af stað. Fyrirtæki Ostbye nefndist Norsk Miljostabilisering og hefur meðhöndlað um 20 þúsund norskar plastgrafir. Wall Street Journal hefur fjallað um málið.

 

ku-xlarge (1)

Tæknin sem Kjell fann upp á. (Kjell Larsen Ostbye)

ku-xlarge

Unnið við gröf. (Kjell Larsen Ostbye)