Ævintýri Dr. Henry „Indiana“ Jones voru eftirminnileg fyrir kynslóðir barna og unglinga sem uxu úr grasi á 9. áratug síðustu aldar. Síðan þá bætist stöðugt í aðdáendahópinn, þótt síðasta kvikmynd um fornleifafræðinginn knáa hafi líklega fælt heilu kynslóðina frá sagnabálkinum mikla.

 

Dr. Jones þurfti að kljást við fjölda óvina og dusilmenna, nasistar voru þar líklega fremstir meðal jafningja. En óhugnalegastir dusilmennanna voru ef til vill þöggarnir (thugs) úr mynd númer tvö, Indiana Jones and the Temple of Doom.

 

Myndin er að mörgu leyti endurgerð klassísku ævintýramyndarinnar Gunga Din frá árinu 1939 sem skartaði þeim Cary Grant, Victor McLaglen og Douglas Fairbanks í aðalhlutverkum. Í myndinni berjast þrír breskir hermenn við hina indversku þögga, glæpagengi sem hafði hrellt indverska alþýðu allt frá miðöldum.

 

Gunga Din var gerð eftir ævintýri Rudyards Kiplings. Kvikmyndin var tímamótaverl í flokki ævintýramynda.

Gunga Din var gerð eftir ævintýri Rudyards Kiplings. Kvikmyndin var tímamótaverk í flokki ævintýramynda.

 

Í Temple of Doom rekst Dr. Jones á sömu miskunnarlausu ómennin, sem ætla sér að ná völdum undir forystu klerksins Mola Ram – sem reif einmitt sláandi hjarta úr grunlausum manni, á mjög eftirminnilegan hátt. Og hér eru orðin „miskunnarlaus ómenni“ ekki notuð af kaldhæðni eða í neinum hálfkæringi. Thuggee-reglan var nefnilega til, og þeir sem henni tilheyrðu voru sannarlega miskunnarlaus ómenni.

 

Hér má sjá Mola Ram rífa hjartað úr grunlausum manni á meðan hann tilbiður Kalí, æðsta guð Thuggee-reglunnar:

 

Vídjó

 

Þöggar tilheyrðu leynireglu glæpamanna, ekki ósvipaðri þeirri sem var stofnuð á 19. öld í Sikiley – sem við þekkjum í dag sem ítölsku mafíuna. Ekki er vitað hvenær Thuggee-reglan var stofnuð en hennar er fyrst getið í rituðum heimildum árið 1356. Stærst var Thuggee-reglan um miðja 18. öld en um 1830 hófust aðgerðir breskra landstjóra í Indlandi við að uppræta regluna. Á tímabilinu 1730 til 1830 skiptu fórnarlömb þöggana milljónum. Talið er að síðustu þöggarnir hafi verið handsamaðir og líflátnir í byrjun 20. aldar. Orðið thuggee er komið úr sanskrít, og þýðir upprunalega „þjófur.“

 

Thuggee-hópur. Mynd tekin seint á 19. öld.

Thuggee-hópur. Mynd tekin seint á 19. öld.

 

Þöggarnir unnu í stuttu máli þannig, að þeir leituðust eftir að komast í hóp hirðingja. Á Indlandi ferðuðust margar fjölskyldur saman í hópum í leit að atvinnu eða ræktarlandi. Oft bættust ferðalangar við hópinn sem gátu lagt sitt af mörkum. Þöggarnir töldu hópunum trú um að þeir væru duglegir starfsmenn sem gætu hjálpað til í lífsbaráttunni. Þannig eyddu þeir oft vikum, jafnvel mánuðum í að byggja upp traust flakkaranna. Stundum hittust fyrir tveir eða fleiri þöggar hjá tilvonandi fórnarlömbum, en þá mátti aldrei láta sjást að þeir þekktust, eða að þeir vissu að þeir tilheyrðu báðir reglunni alræmdu.

 

Vatnslitamynd frá 19. öld af þöggum, þar sem þeir myrða mann í svefni. Einn heldur um fætur, annar heldur um munn fórnarlambsins svo ekkert heyrist, á meðan sá þriðji murrkar lífið úr fórnarlambinu.

Vatnslitamynd frá 19. öld af þöggum, þar sem þeir myrða mann í svefni. Einn heldur um fætur, annar heldur um munn fórnarlambsins svo ekkert heyrist, á meðan sá þriðji murrkar lífið úr fórnarlambinu.

 

Þegar nægilegt traust hafði áunnist, létu þöggarnir til skarar skríða. Þeir biðu uns allir voru sofnaðir í hópi hirðingja hverju sinni, og myrtu því næst alla. Konur, börn… alla! Þá var öllum verðmætum stolið, og síðan haldið leiðar sinnar. Í örfá skipti var ungum drengjum þyrmt, en þá aðeins með það fyrir augum að ala þá upp sem nýja meðlimi Thuggee-reglunnar.

 

Tupac Shakur (1971-1996) var með orðin „Thug Life“ húðflúruð á kviðnum.

Tupac Shakur (1971-1996) var með orðin „Thug Life“ húðflúruð á kviðnum.

 

Enska orðið thug, sem hefur verið gert einkar vinsælt á undanförnum árum af rapptónlistarmönnum á við Tupac Shakur, er því augljóslega komið frá þessum þöggum. Metsölubókin Confessions of a Thug frá árinu 1839, eftir Philip Meadows Taylor, á heiðurinn af því að taka orðið í enska tungu, en í bókinni rifjar aðalpersónan upp glæpi sína sem meðlimur Thuggee-reglunnar. Aðalpersónan, Ameer Ali, er talin vera byggð á alvöru þögga, Syeed Amir Ali, sem Taylor kynntist í byrjun 19. aldar á Indlandi.

 

Fæstir gera sér grein fyrir uppruna orðsins í dag, þótt það hafi ætíð haft frekar neikvæða merkingu. Besta íslenska þýðingin væri væntanlega „fantur,“ þótt það orð nái ekki fullkomlega utan um grimmd og miskunnarleysi upprunalegu þöggana. Sé miðað við heimildir af þöggunum var nefnilega enga hjartahlýju að finna meðal þeirra. Ekki gramm. En það sama verður ekki sagt um Tupac heitinn, sem þótti í það minnsta afskaplega vænt um mömmu sína – og það þrátt fyrir að hún hafi verið háð krakki.

 

Vídjó