Írski leikarinn Peter O’Toole lést þann 14. desember síðastliðinn, 81 árs að aldri. O’Toole var dáður um allan heim fyrir leikhæfileika sína, jafnt á sviði sem og í kvikmyndum. Hans verður ef til vill helst minnst fyrir túlkun sína á ævintýramanninum T.E. Lawrence, í einni eftirminnilegustu frammstöðu kvikmyndasögunnar.

 

O’Toole er ekki aðeins minnst fyrir afrek sín í leiklistinni. Hann er einnig einn frægasti gleðipinni 20. aldarinnar. Hann tilheyrði hópi frægustu djammara Bretlandseyja, sem voru brautryðjendur í að fylla slúðurdálka dagblaðanna með misgáfulegum athæfum – sem öll voru framkvæmd undir mjög miklum áhrifum áfengis. Úr þessum hópi má nefna goðsagnir eins og Richard Burton, Michael Caine, Richard Harris og hinn óviðjafnanlega Oliver Reed.

 

Ein besta „djammsagan“ sem fer af O’Toole átti sér stað í heimalandi leikarans, í Galway-sýslu nálægt heimili hans. Árið 1960 var ástralski leikarinn Peter Finch staddur í Galway, til að taka upp kvikmyndina Kidnapped, sem var gerð eftir sögu Roberts Louis Stevensons. Finch og O’Toole urðu mestu mátar, enda báðir annálaðir drykkjumenn.

 

Þeir brugðu sér á krá í nágrenninu, heldur ölvaðir, og kröfðust þess að fá drykk. Þeir félagar voru því miður aðeins of seinir, því kráareigandinn var í þann mund að loka. Því var aðeins eitt í stöðunni. Kaupa kránna!

 

Finch og O’Toole skrifuðu ávísun upp á 20 þúsund pund og afhentu kráareiganda, sem brosti og afhenti þeim lyklana af staðnum. Þeir kumpánar skrúfuðu rækilega frá, drukku sem mest þeir máttu og skemmtu sér ærlega.

 

Daginn eftir var annað uppi á teningnum. Þeir Finch og O’Toole voru ekki alveg vissir hvar þeir voru, en fannst eitthvað kunnuglegt við þessa krá sem þeir voru staddir á. Sem betur fer áttuðu þeir sig í tæka tíð og náðu í fyrrverandi eiganda, sem hafði þá ekki innleyst ávísunina – og náðu að ógilda kaupin.

 

Kráareigandinn brosti að öllu saman og varð í kjölfarið góður vinur beggja leikara. O’Toole heimsótti kránna í hvert skipti sem hann sneri á heimaslóðir sínar í Galway.

 

Hér má finna fleiri óborganlegar drykkjusögur af hinum glæsilega leikara, sem nú er horfinn á braut.

 

Peter O'Toole, 1932-2013.

Peter O’Toole, 1932-2013.