Íslendingar gerðu misheppnaða tilraun til sauðnautaeldis um 1930. Íslenskir veiðimenn murkuðu lífið úr heilli hjörð sauðnauta á norðurhluta Grænlands til að klófesta kálfa hennar. Kálfarnir drápust skömmu síðar úr vosbúð.

 

Austurvöllur. Gapandi Íslendinga drífur að úr öllum áttum. Í kring safnast menn saman, stórir sem smáir. Sumir hrópa, aðrir hlæja. Allir eru hissa á svipinn. Þeir hafa aldrei séð þessi dýr. Í augum þeirra eru þau jafn framandi og risaeðlur eða kannski geimverur.

 

Dýrin eru stór og þung, þetta eru kafloðnir ferhyrningar með smágerð horn. En þetta eru ekki fullvaxin dýr. Hér er eintómt ungviði. Kálfarnir eru skelkaðir, en ánægðir með að vera komnir á fast land aftur eftir langdregna siglingu. Hér er gras að bíta. En allt þetta fólk. Úff.

 

Kálfarnir gera eins og foreldrar þeirra gerðu alltaf, fylkja sér saman í varnarstöðu. Reyna að mynda vegg. Þeir minnstu standa í miðjunni. En þetta er veimiltítuleg varnarlína. Það vantar öll fullvöxnu dýrin. Foreldrana sem hafa verið felldir. Kálfarnir ná ekki að hræða þetta fólk, heldur hræðir fólkið þá.

 

Árið er 1929. Íslenskir ævintýramenn eru nýkomnir úr siglingu frá fjarlægustu annesjum Grænlands og hafa klófest þar nokkur sauðnaut. Allt kálfa. Því hugmyndin er að koma á fót sauðnautaeldi á Íslandi og skapa þar með nýja atvinnugrein og kynna nýjan meðlim til leiks í hinu berangurslega vistkerfi Íslands.

 

Og eftir að komið er í land í Reykjavík eru sauðnautin geymd á Austurvelli fyrst um sinn þar sem þau eru nokkurs konar sýningargripir. Það var við hæfi að sauðnautin stæðu á beit fyrir framan Alþingi Íslendinga, enda voru dýrin eign íslenska ríkisins.

 

saudnaut3

Kálfarnir á Austurvelli. Þeir reyna að mynda varnarlínu en fullvöxnu dýrin vantaði, enda höfðu íslenskir veiðimenn stráfellt þau.

 

Lemúrinn ákvað að skyggnast á bakvið tjöldin í þessari furðulegu sögu sem því miður endaði ekki vel. Stuðst er við greinina Íslensk sauðnautasaga eftir Kristján Sveinsson sem birtist í sagnfræðitímaritinu Ný saga árið 1998.

 

Sauðnaut, sem á latínu nefnast ovibos moschatus hafa reikað um jörðina í milljónir ára.

 

Á ísöld lifðu þau á stórum svæðum bæði í Evrasíu og Ameríku. Ýmis önnur stór spendýr voru þá uppi, til dæmis ullarhærðir nashyrningar og loðfílar.

 

En þegar síðustu ísöld lauk og loftslag hlýnaði urðu miklar breytingar á dýralífi jarðar. Mörg dýr hurfu, eins og loðfíllinn er frægt dæmi um.

 

En sauðnautin lifðu af og fundu sinn sess á slóðum þar sem nánast enginn annar hafði áhuga á að búa. Nefnilega á nyrstu svæðum Kanada og norðurausturströnd Grænlands.

 

Þar áttu dýrin nánast enga óvini. Úlfar og önnur rándýr leggja ekki í dýrin því þau ferðast í 30 til 40 dýra hjörðum og mynda sterkan varnarvegg eins og áður segir, með því að fullorðnu dýrin standa vígaleg yst og kálfarnir innst. Þess aðferð virkaði vel í mörg þúsund ár.

 

En þegar veiðimenn með skotvopn fóru allt í einu að birtast á þessum norðlægustu slóðum breyttist allt.

 

Skyndilega urðu sauðnautin auðveld bráð. Veiðimennirnir höfðu yfirleitt þann hátt á að fella öll fullorðnu dýrin en nema kálfana á brott.

 

Strax á 19. öld var þessi aðferð harðlega gagnrýnd af dýraverndarsamtökum. Margir bentu á að farsælt yrði, bæði fyrir menn og sauðnaut, að fanga þau og nota sem húsdýr. Sauðnaut hafa verið flutt á ýmsa staði á norðurslóðum, til dæmis til Noregs, Svíþjóðar og Rússlands.

 

Sauðnaut á Austurvelli. Mynd: Ingimundur Guðmundsson.

Sauðnaut á Austurvelli. Mynd: Ingimundur Guðmundsson.

 

Og uppúr aldamótum 1900 fóru að heyrast hugmyndir um að sauðnaut yrðu flutt til Íslands. Árið 1905 benti til dæmis danski landbúnaðarráðunauturinn Friis á Ísland sem framtíðarland fyrir þessi dýr.

 

Þorvaldur Thoroddsen, sem var þekktasti íslenski náttúrufræðingurinn í þá daga, tók undir það og taldi sauðnaut tvímælalaust geta átt sér framtíð á Íslandi, einkum á Vestfjörðum og á hálendinu á Norðurlandi eystra.

 

Eftir miklar bollaleggingar varð þó ekki neitt af þeim áformum í upphafi aldarinnar. Og blessuð sauðnautin voru í raun gleymd þar í febrúar árið 1929 þegar Kaupmannahafnarblaðið Berlingske Tidende birti frétt um að Íslendingurinn Vigfús Sigurðsson Grænlandsfari hefði sótt um fjárstyrk á Alþingi til að halda til Grænlands eftir sauðnautum í því skyni að flytja þau til Íslands.

 

Vigfús skrifaði Alþingi bréf og bað þingheim um að aðstoða sig við innflutning á moskus-nautum, en það er alþjóðlegt orð yfir sauðnaut.

 

Síðan jeg fór um Grænlands-óbygðir með höfuðsmanni J.P. Koch árið 1912-13 og kyntist dýraríki þess og staðháttum, hefi jeg þrásinnis hugsað um það, að æskilegt væri, að Íslendingar gerðu út skip til veiðifanga norður á austurströnd Grænlands, og þá einkum í þeim tilgangi að ná lifandi Moskus-nauta-kálfum og flytja þá hingað til lands. Mundi þetta harðfenga dýr þrífast hér á landi sjálfala og geta orðið til góðra nytja.

 

vigfus

Vigfús Sigurðsson, „sauðnautafrömuður“.

Þingmenn voru ekki á einu máli um þessi sauðnautaáform og hafði Tryggvi Þórhallsson forsætisráðherra til dæmis enga trú á sauðnautaeldi á Íslandi. En tillaga Vigfúsar velkist á milli nefnda í nokkurn tíma og fylgdust Danir vel með málinu.

 

Danir höfðu nefnilega slegist við Norðmenn um yfirráð á Norðaustur-Grænlandi og voru þeir síðarnefndu iðnir við kolann þegar kom að sauðnautaveiðum. Málefni sauðnauta voru því viðkvæm og tengdust flóknum milliríkjadeilum.

 

Vestur-Íslendingar hvöttu kanadísk yfirvöld til að færa gamla landinu sauðnaut að gjöf í tilefni Alþingishátíðarinnar 1930.

 

Og sauðnautamennirnir íslensku hertust enn meira eftir hvatningarorð Vilhjálms Stefánssonar, hins heimskunna landkönnuðar. Hann sagðist þekkja vel til sauðnauta og taldi þau heillavænlegan kost á Íslandi.

 

Eftir japl, jaml og fuður fór svo að Vigfús Sigurðsson og félagar hans í Veiðifélaginu Eiríki rauða lögðu af stað til Grænlands á vélskipinu Gotta. Leiðangursmenn voru 11 talsins. Veiðifélagið hafði verið stofnað í kringum sauðnautaáformin.

 

Benedikt Sveinsson alþingismaður var í félaginu og hann reyndi að ýta málinu áfram á þingi.

 

Vorið 1929 veitti Alþingi sauðnautaleiðangrinum 20.000 krónur, að því tilskildu að ríkissjóður eignaðist þau sauðnaut sem tækist að flytja til Íslands.

 

Stuðningur stjórnvalda fór saman við upphaf loðdýraræktar á Íslandi. Menn vildu auka fjölbreytni í íslenskum landbúnaði.

 

Gotta kom til Franz-Jósefsfjarðar á Norðaustur-Grænlandi í ágúst 1929. Þar réðust Íslendingar á sauðnautahjarðir, felldu fullorðin dýr eins og venjan var og náðu 7 kálfum lifandi í skip sitt.

 

Fullorðnu dýrin sem þeir felldu voru 34 talsins.

 

Í lok ágúst komu leiðangursmenn Gottu loks til hafnar í Reykjavík og slepptu sauðnautakálfunum sjö á Austurvöll. Múgur og margmenni lagði leið sína í miðbæinn til að virða fyrir sér hinar framandlegu skepnur. Fólkið hrópaði ferfalt húrra fyrir Grænlandsförunum.

 

Veiðifélagið Eiríkur rauði fékk sínar 20 þúsund krónur og sauðnautin voru orðin að ríkiseign og fengin Búnaðarfélagi Íslands til umsjár.

 

Kálfarnir dvöldu í nokkra sólarhringa á Austurvelli en fengu loks varanlegt heimili á uxabúi Búnaðarfélagsins í Gunnarsholti á Rangárvöllum.

 

En nokkrum vikum síðar höfðu allir kálfarnir nema einn drepist! Töldu menn að bráðaafbriðgi af landlægum sauðfjársjúkdómi hefði verið þar að verki.

 

Kálfurinn sem eftir lifði – og var nú eina sauðnautið á öllu Íslandi – var kvíga sem fékk nafnið Sigga. Hún tórði fram í janúar 1931 og drapst þá úr sullaveiki.

 

„Vélskipið Gotta var búið út í leiðangur til Grænlands í þeim tilgangi að ná lifandi sauðnautum og flytja þau hingað til lands. Á myndinni, sem tekin var í Reykjavíkurhöfn, er verið að skipa út heyi sem ætlað var sauðnautunum á heimsiglingunni.“ (Kristján Sveinsson, Ný saga)

„Vélskipið Gotta var búið út í leiðangur til Grænlands í þeim tilgangi að ná lifandi sauðnautum og flytja þau hingað til lands. Á myndinni, sem tekin var í Reykjavíkurhöfn, er verið að skipa út heyi sem ætlað var sauðnautunum á heimsiglingunni.“ (Kristján Sveinsson, Ný saga)

Screen Shot 2013-12-11 at 2.50.43 PM

Íslensku veiðimennirnir.

 

En íslenskir sauðnautafrömuðir voru ekki af baki dottnir þrátt fyrir þessi hörmulegu málalok. Haustið 1930 (þegar Sigga átti nokkra mánuði ólifaða og heimskreppa hafði skollið á) voru sjö ný sauðnaut keypt af norskum veiðimönnum.

 

Allt voru þetta kálfar. Fimm fóru í Gunnarsholt til Siggu, sem átti stutt eftir. Ársæll Árnason bóksali og sauðnautaáhugamaður keypti tvo þeirra og kom fyrir á bænum Litlu-Drageyri í Skorradal.

 

Örlög kálfanna fimm í Gunnarsholti voru fyrirsjáanleg. Þeir vesluðust upp og gáfu upp öndina sumarið 1931.

 

Kristján Sveinsson gerir svofellda grein fyrir örlögum síðustu sauðnauta Íslandssögunnar, þeirra Skorra og Flóku í Skorradal:

 

Sauðnautaparið í Skorradalnum, þau Skorri og Flóka, eins og þau voru nefnd, áttu heldur ekki langa lífdaga fyrir höndum. Þau voru hýst veturinn eftir komuna til Íslands, þrifust vel á töðu og haframjöli, og voru hin bragglegustu um vorið. Þá var þeim að sjálfsögðu sleppt á fjall eins og öðrum peningi og þau héldu á vit Skarðsheiðarinnar. Eitthvert óhapp henti Skorra um sumarið, líklega hrapaði hann niður í gegn um holfönn á lækjargili og lenti í svelti því hann var hrakmagur þegar hann fannst í ágústlok, náði sér ekki, og drapst í september. Flóka var þá flutt í Gunnarsholt þar sem hennar biðu sömu örlög og annarra sauðnauta þar.

 

„Sauðnautavinunum“, í Veiðifélaginu Eiríki Rauða, hugnaðist að fara í fleiri Grænlandsferðir og veiða þar ýmis dýr og safna skinnum, ekki einungis af sauðnautum. Þeir reyndu að afla hlutafjár á meðal íslensks almennings en hverfandi áhugi var nú fyrir slíkri starfsemi. Og sauðnautaeldi hefur ekki verið á Íslandi síðan.

 

Vídjó

 

Það er nokkuð einkennileg staðreynd að Sigga, hin unga kvíga sem um hríð var eina sauðnautið á Íslandi, hafi verið nafna frægs íslensks dýrs sem vegna ýmissa furðulegra kennda mannsins var fluttur fram og aftur á milli Íslands. Hér er auðvitað átt við háhyrninginn Keikó, sem íslenskir veiðimenn og starfsfólk í Sædýrasafninu í Hafnarfirði þekkti undir nafninu Siggi.

 

Og í myndbandinu fyrir ofan heyrum við eymdarlegan grát Sigga í kvikmyndinni Free Willy frá 1993. Háhyrningurinn varð heimsfrægur eftir sýningu Hollywood-myndarinnar og var síðar fluttur með Boeing C-17 birgðaflutningaþotu til Vestmannaeyja.

 

Engar hljóðupptökur eru til með angistarópum Siggu sauðnauts í Gunnarsholti. En ætli þau hafi ekki verið nokkuð svipað?

 

Skorri

„Skorri hvessir augun framan í ljósmyndarann“.

Ungur addaandi

„Flóka og Skorri ásamt ungum aðdáanda“.

saudnaut2

Skorri og Flóka.