Um vorið 1959 hafði Andrew Warhol búið í New York í áratug. Hann var tiltölulega óþekktur sem myndlistarmaður og vann fyrir sér við að myndskreyta barnabækur fyrir bókaútgefandann Doubleday (já, hinn sama og Elaine Benes vann fyrir).

 

Warhol hélt þó stöku myndlistasýningar og oftar en ekki á sínum uppáhalds „veitingastað“ –  ísbúðinni Serendipity. Á einni slíkri sýningu kynntist hann innanhússhönnuðinum og fagurkeranum Suzie Frankfurt. Á sýningu Warhols voru vatnslitamyndir sem voru Frankfurt mjög að skapi. Urðu þau Warhol og Frankfurt perluvinir en leiðir þeirra lágu sérstaklega vel saman þegar kom að fagurfræði og kímnigáfu.

 

Um haustið höfðu þau ákveðið að hefja samstarf. Verkefnið var að búa til matreiðslubók. Bókin átti að vera einstök að öllu leyti, sem hún og varð, bæði hvað varðaði útlit og innihald. Í raun var bókin ákveðin skopstæling á fjöldaframleiddum frönskum matreiðsludoðröntum sem tröllriðu heldri manna heimilum á 6. áratugnum á austurströnd Bandaríkjanna.

 

warhol2

 

 

Verkaskiptingin var einföld. Frankfurt sá um að safna saman uppskriftum og Warhol sá síðan um að teikna réttina. Hann var svo iðinn við teikningarnar að hann réði aðstoðarmenn til að hjálpa til við að lita þær. Að lokum fóru myndirnar síðan til móður Warhol, Júliu, sem skrautskrifaði uppskriftirnar sem Frankfurt hafði safnað. Júlia Warhola bjó með syni sínum á þessum tíma.

 

Bókin fékk titilinn Wild Rasberries, sem var vísun í kvikmynd sænska leikstjórans Ingmars Bergmans, Wild Strawberries (Smultronstället ).

 

warhol3

 

Þremenningarnir létu binda saman 34 eintök af bókinni, sem voru því næst send til helstu bókaútgefenda í New York. Skemmst er frá því að segja að enginn þeirra sá sér fært að gefa út þetta snilldarverk. Warhol og Frankfurt söfnuðu saman eintökunum og gáfu flest þeirra sem jólagjafir um jólin 1959.

 

Nokkrum árum síðar, eða árið 1962, átti Andrew Warhol eftir að stofna The Factory og enduruppgvöta sig sem popplistamanninn Andy Warhol.

 

warhol4

 

Það var ekki fyrr en árið 1997, eða 38 árum eftir hina miklu höfnun, að Jamie Frankfurt, sonur Suzie, fann eintak af bókinni hjá móður sinni. Jamie var ekki lengi að átta sig á því að hér var um meistaraverk að ræða og gaf út bókina.

 

 

warhol6

 

Rétt er að minnast á, að uppskriftirnar eru fyrst og fremst dæmi um kímnigáfu þeirra Warhols og Frankfurts. Frá sjónarhorni sælkerans, er mjög ólíklegt að um bragðgóða rétti sé að ræða – þú hver hafi vissulega sinn smekk, eða eins og Frakkarnir segja „à chacun son goût!“

 

Hafi einhverjir áhuga á að kaupa bókina, sem væri auðvitað tilvalin jólagjöf, er hægt að gera það hér.

 

 

warhol8

 

warhol7

 

warhol9

 

warhol5

 

warhol12

 

 

warhol11

 

 

 

warhol10