Árið 1950 sló íslenskur fótboltamaður í gegn í Brasilíu. Þetta var auðvitað Albert Guðmundsson.

 

 

En eitt sinn fyrir langa löngu ferðaðist íslensk knattspyrnuhetja til Brasilíu. Hann heillaði Brassa upp úr skónum.

 

Hálfri öld áður en svarta perlan kom til Íslands hafði hvíta perlan farið til Brasilíu!

 

bilde1

Albert Guðmundsson.

 

Já, Albert Guðmundsson, sem var einn besti knattspyrnumaður Evrópu á sínum tíma, og kallaður var hvíta perlan, ferðaðist með enska liðinu Arsenal til Brasilíu árið 1950. Íslendingurinn, sem síðar átti eftir að láta að sér kveða á stjórnmálasviðinu, sýndi góða takta í Brasilíu. Og hann þótti svo góður að honum var boðinn samningur hjá liði í Brasilíu og fullyrt var að launin yrði mun hærri en hjá liðum í Evrópu.

 

Mjög fjörlega lýsingu á þessu er að finna í bók Jónasar frá Hriflu um knattspyrnuferil Alberts. Bókin sem heitir einfaldlega Albert Guðmundsson, kom út árið 1957, þegar ferli hans var um það bil að ljúka. Þetta er nokkurs konar viðtalsbók þar sem Albert segir Jónasi frá ótrúlega viðburðaríkum ferli sínum sem atvinnumaður með bestu félagsliðum Evrópu á fimmta og sjötta áratugnum. Jónas frá Hriflu var einn valdamesti maður Íslands á tuttugustu öld, formaður Framsóknarflokksins lengi og ráðherra um skeið. En hann var einnig höfundur allskonar bóka. Það er sérstakur stíll í kaflanum sem við lesum núna, en hann fjallar um ferðalag Alberts til Brasilíu.

 

img032

Rio de Janeiro um 1950.

 

Frásögnin er ævintýraleg. Höfundur er einkennilega dómharður í garð Brasilíumanna. Ferðalag Alberts var greinilega mjög áhættusamt því margsinnis er því lýst hvernig hann bjargast naumlega úr lífshættu, bæði á ströndinni og á ferðalagi sínu um hið stóra land Brasilíu. En við skulum lesa í þessari bók Jónasar frá Hriflu:

 

 

Því líkast að vera í gufubaði

Albert Guðmundsson og Jónas frá Hriflu

Veturinn 1950 lenti Albert í einkennilegu og óvanalegu knattspyrnuæfintýri. Hið gamla félag hans, Arsenal, hafði undirbúið för til Brazilíu á þeim árs sem kaldast er sunnan við miðjarðarlínuna. Brazilíumenn eru í fremstu röð um knattspyrnuafrek og harðfengnir mjög, en gæta oft lítt hófs í kappleik. Vildu forráðamenn Arsenal hafa úrvalslið til suðurgöngu. Mundu þeir vel atgerfi Alberts, meðan hann var á þeirra vegum, eða keppti á móti þeim með Frökkum, og tóku það ráð, sem var án fordæmis í sögu úrvalsknattspyrnumanna í Bretlandi, að þeir báðu útlendan mann að gerast félagsbróður þeirra í keppnisför til útlanda.

 

Fyrst leituðu þeir til Alberts. Hann varð við ósk þeirra, með þeim skilyrðum, að leika ekki í Brazilíu nema tvo leiki af átta, hinum fyrsta og síðasta. Hafði hann þá lengi staðið í ströngu í kappleikjum með Racing Club de Paris og vissi vel, að hiti er svo mikill í Brazilíu, að það er mikil raun norrænum mönnum, að leika þar knattspyrnu, þó að vetur sé.

 

Í öðru lagi þurfti að fá leyfi brezkra yfirvalda til að ráða erlendan mann til þessarar þjónustu og í þriðja lagi þurfti að fá leyfi hjá forráðamönnum Racing Club de Paris til að fá Albert. En þessi leyfi fengust.

 

 

Jónas frá Hriflu

Jónas frá Hriflu. Mynd Hollendingsins Willem van de Poll frá 1934.

 

Albert fór þá með frú sína og dóttur til Lundúna, þaðan flugu þær mæðgur til Reykjavíkur og dvöldu þar, meðan Albert var í Brazilíuferðinni. Stjórn Arsenal-félagsins hafði undirbúið förina með ágætum. Þar voru 25 leikmenn og fimm aðstoðarmenn, flugu þeir í tveimur brezkum flugvélum þessa löngu ferð.

 

Fyrsti áfanginn var í Dakar á vesturströnd Afríku, þar var fræg flugstöð á styrjaldartíma og er það enn, því þaðan er mest flogið yfir Atlantshaf til Brazilíu. Heldur var heitt í Dakar, hermenn, flugvallarverðir og þjónar flest allir blökkumenn, en Frakkar húsbændur um alla stjórn.

 

Frá Dakar var lagt á Atlantshafið og komið á tilsettum tíma til Rio, degi áður en keppa skyldi í fyrsta sinn. Flugferðin frá London til Rio tók tvo sólarhringa. Arsenalmenn notuðu þennan hvíldardag til að rétta úr sér eftir langt ferðalag og sjá fegurð borginnar. Þótti þeim ekki ofsögum sagt af því, hversu umhverfið var glæsilegt, innsiglingin einkar fögur, tignarlegur fjallgarður í kringum borgina, frumskógur vefur bý og borg tröllauknum örmum sínum.

 

Víða standa brattir hamrar út úr grænni gróðurvoðinni. Á hæsta fjalli við höfuðborgina er hin fræga, hvíta Kristsmynd. Frelsarinn breiðir út faðminn yfir byggðina og raunar heiminn allan. Sú mynd sést ágætlega hvarvetna í borginni og þegar dimma tekur að kveldi, er hún böðuð í ljósbylgjum.

 

Rio skiptist í marga borgarhluta, þar er fegurð í húsagerð og skraut eins og mest þekktist í stórborgum gamla heimsins, en víða í hlíðunum voru svertingjahverfi.

 

Þar eru kofar, lágir, og ófullkomnir svo sem mest má vera. Vantar þar nálega allt til þrifnaðar og þæginda á nútíma mælikvarða, en Brazilíumenn eru athafnasamir við byggingar og sögðu þessum langferðamönnum, að innan skamms myndu þeir hafa útrýmt þessum svertingjahreysum, með nútíma stórhýsum.

 

Þegar Bretarnir og Albert höfðu hvílzt einn dag í Rio, hófst kappleikurinn. Þótti leikmönnum undirbúningur fyrir kappleikinn ærið stórkostlegur. Leikvöllurinn er einn hinn stærsti í öllum heimi, getur tekið 220.000 áhorfendur. Mjög eru hækkandi sæti allt í kringum leiksvæðið og hraðvirkar lyftur til að flytja áhorfendur til efri sæta. Vegna hitans eru þök yfir öllu áhorfendasvæðinu. Auk þessara hyggilegu skipulagsframkvæmda, var við þennan völl ýmiss konar undarleg nýbreytni. Blóðið er heitt í Suðurlandafólki og þykir nokkur hætta á, að áhorfendur ryðjist úr sætum sínum inn á völlinn í því skyni að láta hendur skipta. Reynt er að fyrirbyggja þá kórvillu, með því að hafa öfluga gaddavírsgirðingu framan við áhorfendapallana. Ekki þykir það veita nóg öryggi, heldur er breiður skurður, fullur af vatni, kringum leikvanginn innan við gaddavírsstrenginn.

 

Með þessu er nokkurn veginn fyrirbyggt, að áhorfendur geti gert árás inn á sjálfan knattspyrnuvöllinn, þó að þeir kynnu að hafa á því fullan hug.

 

Grasvöllurinn var sléttur mjög og fullkominn svo eigi varð á betra kosið. Þegar leikurinn hófst voru áhorfendur um 160.000, veður gott en óþægilega heitt fyrir Norður-Evrópu-menn. Komst Albert svo að orði síðar, að þegar leið á leikinn, hefði verið líkast því að spila í gufubaði. Í búningsherbergjunum við völlinn voru súrefnistæki til þess að leikmennirnir gætu andað að sér hressandi lofti í leikhléinu.

 

Nú hófst knattspyrnan, Albert tókst tiltölulega fljótt að skora mark. Fáeini af hinum mörgu áhorfendu létu í ljós gleði sína, en það voru brezkir borgarar búsettir í Rio. Markið var full gilt, en dómarinn dæmdi markið ógilt. Síðan gerðu Bretar 3 önnur mörk, en dómarinn ógilti þau öll. Var nú illur kurr í Bretum, því þeir leggja manna mest stund á hlutleysi og réttdæmi í leik, en hér dugði ekki að deila við dómarann. Leiðtogi Breta vildi helzt kalla liðið burtu af vellinum, það var þó ekki gert, meðal annars af því, að vel mátti búast við því, að þá yrðu upphlaup eða mannvíg hjá áhorfendum. Þegar eftir voru nokkrar mínútur af síðari hálfleik, fengu Brazilíumenn vítaspyrnu og gerðu mark. Þá heyrðust úr fylkingu áhorfenda þau mestu fagnaðarlæti, sem Arsenalmenn höfðu nokkru sinni heyrt.

 

Var ekki eingöngu klappað, hrópað, öskrað, stappað, heldur kastað léttum sprengjum til að auka hávaðann, þó ekki væri stefnt að mannvígum.

 

Héldu nú leikirnir áfram með nokku millibili. Albert hafði ætlað að hlífa sér við að leika nema tveim sinnum, en þess var enginn kostur, Brazilíumenn vildu allra síst missa hann af leikvangi og lék hann alla leikina, en hafði aldrei komist í slíka raun og þó oft leikið í miklum Norðurálfuhitum.

 

Morumbi í völlur, São Paulo, Brasilíu, 1952.

Morumbi völlur, São Paulo, Brasilíu, 1952.

 

Milli orustudagana höfðu Arsenalmenn margt sér til skemmtunar. Sendimenn ýmissa breskra stofnana í Rio buðu þeim til margskonar mannfagnaðar. Knattspyrnufélag höfuðborgarinnar, hinn mikli andstæðingur, hét Vasco de Gama, eftir hinum fræga landkönnuði, hafði uppi mikið boð. Þá var þeim fagnað með veizlu að hálfu stjórnar höfuðborgarinnar. En sú skemmtun, sem þeim Arsenalmönnum þótti hvað kærkomnust í hitanum þessa daga, var þáttaka í baðlífinu á hinni miklu baðströnd Copacabana. Bylgjur Atlantshafsins flæddu inn á hvítan fjörusandinn, þar sem tugir þúsunda gengu dag út og inn í hafið móti bylgjunum og reyndu þar knáleik sinn. Það ferðalag var hressandi og svalandi, en ekki með öllu hættulaust, útsogið gat gripið mann svo eigi varð móti staðizt og var þá dauðinn vís.

 

Mikil bylgja hafði hrifið Albert, svo hann var kominn 100 metra undan landi og gat engri vörn við komið, þar til önnur bylgja skolaði honum þreyttum og máttlitlum upp á grunnsævi, þar sem varðmenn tóku á móti honum og studdu hann í land. Ungur Brazilíumaður lenti í sömu holskeflu og fannst hálfri stundu síðar drukknaður, inn með ströndinni. Ekki beita Brazilíumenn mikilli nærfærni þó mannslíf sé í veði. Blóðið streymir heitt í Suðurlandamönnum og dáinn maður hefur sinn dóm með sér. Einn dag voru Arsenalmenn á gangi í miðbænum við fjölfarna götu, keyrði þá bíll með voðahraða yfir konu. Fimm ára barn hennar bjargaðist upp á gangstéttina. Bílstjórinn ók á burtu og lét sem ekkert hefði í skorizt. Vegfarendur létu slysið ekki hefta för sína, Bretarnir voru óvanir slíku hirðuleysi, hjúkruðu konunni á götunni og biðu sjúkraliðsins. Að lokum komu lögreglumenn. Fyrsta verk þeirra var að taka Bretana fasta. Í Brazilíu er slysalöggjöfin með þeim hætti að sá maður sem staðinn er að nálægð við særðan mann er talinn bera ábyrgð á slysinu þar til annað er sannað.

 

Sao Paulo er önnur mesta borg Brasilíu, og þar skyldi Arsenal heyja baráttu við úrvalslið þeirrar borgar og voru í því liðið margir beztu knattspyrnumenn landsins. Leikvöllurinn var prýðilegur, áhorfendur um 80.000. Leikurinn var mjög harður. Voru bæði liðin ákveðin að verja með ítrustu orku heiður ættlandsins. Bretarnir gerðu tvö mörk en Brazilíumenn eitt. Þessi úrslit voru Brazilíumönnum mikil vonbrigði og lá við þjóðarsorg.

 

Nokkru áður en hér var komið sögu höfðu Brazilíumenn sent knattspyrnuflokk til Parísar til að keppa við Racing de Paris. Lauk þeirri keppni svo að Frakkar skoruðu ekkert mark en Brazilíumenn 7. Þótti þetta, sem vænta mátti, hin mestu gleðitíðindi í Brazilíu, því knattspyrna er þeirra þjóðaríþrótt. Leikflokkur Breta var í Sao Paulo, þegar sigurvegararnir komu þangað úr Frakklandsförinni. Þá var uppi fótur og fit í borginni, iðandi mannhaf með söng og fánum við allar aðalgötur borgarinnar. Brazilíuforseti var þar staddur um þessar mundir með valda menn úr lífverði sínum og forsetabílana, til að taka á móti knattspyrnuhetjum landsins á flugvellinum, flytja þær beint heim til forsetans til þess að hinar hátíðlegu móttöku gætu farið fram í viðhafnarsölum ríkisins.

 

albert_gudmundsson_jonas

 

Meðan Arsenal dvaldist í Sao Paolo, bauð úrvalsknattspyrnufélag borgarinnar Albert að gera samning til þriggja ára, óvanalega hagfelldan. Skyldi hann, fyrir utan venjulega samningsbundin laun, hljóta rífleg sérlaun fyrir öll árin. Þetta voru fýsilegri fjárhagskjör heldur en nokkur knattspyrnumaður gat fengið í Evrópu. Ekki tók Albert boðinu og lágu til þess tvær ástæður.

 

Forráðamenn Arsenal-félagsins sóttu fast á, að fá hann til að flytja til London og verða fastur starfsmaður í þjónustu þess og Albert fyrir sitt leyti vildi gjarnan þangað koma og starfa með Bretum. En á þessu voru meinbugir. Stjórn Arsenal varð að fá atvinnuleyfi hjá stjórn Breta til að ráða erlendan knattspyrnumann. Þetta leyfi var ekki fengið og fékkst raunar aldrei, en Albert hafði samt heitið stjórn Arsenal því, að gera enga starfssamninga við aðrar þjóðir, meðan þetta mál væri óútkljáð. Þó að ekki hefði verið þessi hrindrun á vegi Alberts að semja um þriggja ára vist í Brazilíu, þá myndi hitinn og loftslagið hafa orðið þröskuldur á þessari leið.

 

Þegar lokið var knattspyrnukeppni Breta og Brazilíumanna í Sao Paolo lentu Arsenalmenn í nokkrum lífshættum. Þeim stóð til boða að fljúga til Rio með þremur gömlum og óálitlegum brazilískum flugvélum eða fara með járnbraut. Þeir vildu fremur fljúga, en höfðu ótrú á flugvélunum og misstu af fyrstu flugvélinni, en hún fórst á leiðinni, rakst á fjall og fórust allir, bæði farþegar og áhöfn. Ekki vissu þeir um slys þetta, þegar þeir stigu upp í næstu vél, en hún komst heilu og höldnu til Rio. Þá vildi svo til, að sú lest, er stóð þeim þá til boða, og var þeim hentugust að öðru leyti, rakst á leiðinni á benzínvagna. Varð af þeim árekstri ógurlegt slys, eitt hið mesta, sem lengi hafði komið fyrir við járnbrautir í Brazilíu.

 

Að lokinni keppni var ekki annað eftir en að ljúka veizluhöldum, þó að forráðamenn knattspyrnunnar hefðu ekki að öðru leyti komið fram sem vera bar um réttdæmi knattspyrnudómara, þá voru öll óánægjuefni lögð til hliðar. Borgarstjórnir í Rio og Sao Paolo höfðu boð fyrir Arsenalmenn og voru þau hin veglegustu. Ekki skorti heldur rausn að hálfu forráðamanna knattspyrnufélaganna í Rio og Sao Paolo. Þá lét sendiherra Breta og brezkir fésýslumenn ekki sitt eftir liggja um góðar móttökur.

 

Bretar sendu aftur góðar flugvélar, til að sækja sína menn, sömu leið, yfir Dakar. Var Arsenal vel fagnað af sínum félögum og forráðamönnum enskrar knattspyrnu. Þóttu þeir hafa sýnt vaskleik og manndóm, svo sem við var búizt í þessari einkennilegu Bjarmalandsför, þar sem nokkuð var erfitt að etja bæði við hitann og hitabylgjur suðrænnar skapgerðar, þegar mikið lá við í metnaðarmálum manna og þjóða.

 

Þegar Albert og félagar hans kepptu og dvöldu í Brazilíu um sex vikna skeið var vetur á suðurhveli jarðar, samt þótti Albert oft því líkast, eins og fyrr segir að hann stæði í gufubaði. Ef norrænn maður hefði átt að dvelja þar árum saman og taka þátt í harðri knattspyrnukeppni, svo að segja á öllum tímum árs, þá myndi eina lífsvonin hafa verið við það bundin, að nota sumarleyfið til dvalar í norrænum löndum og styrkjast í kaldara loftslagi. Albert hafnaði þessu boði og Bretastjórn hafnaði beiðni Arsenal um undanþágu fyrir útlending til fastastarfs í félaginu.

 

Maracanã, í Rio. Stærsti völlur heims á sínum tíma.

Maracanã, í Rio. Stærsti völlur heims á sínum tíma.