Bandaríska hljómsveitin Yo La Tengo er líklega ein besta starfandi hljómsveit í heimi. Á næstum 30 ára ferli hefur sveitin vart stigið feilspor og hefur auk þess haldið stöðugt áfram að ögra sér og aðdáendum sínum með ferskri og nýrri nálgun á tónlistarsköpun með hverri plötu.

 

Nú er svo komið að Íslendingar fá loksins að virða sveitina fyrir sér á tónleikum, eða í það minnsta þeir Íslendingar sem eru nógu heppnir að eiga miða á Iceland Airwaves árið 2013.

 

Nafn hljómsveitarinnar er ef til vill nokkuð sérkennilegt en um er að ræða spænsku setninguna „yo la tengo,“ sem þýðir einfaldlega „ég er með hana.“ Nafnið rekur uppruna sinn til skemmtisögu úr hafnabolta sem er alveg dagsönn.

 

Það vill svo til að meðlimir hljómsveitarinnar, þau Ira Kaplan og Georgia Hubley eru aðdáendur liðsins New York Mets. Árið 1962 hafði liðið á að skipa leikmanni frá Venesúela, Elio Chacón. Eitt sinn þegar Mets-liðið varðist, og þurfti þar með að grípa boltann, hljóp annar leikmaður liðsins, Richie Ashburn, undir boltann og gerði sig líklegan til að grípa. Kallaði hann „I’ve got it“ til að láta vita að hann ætlaði sér að grípa. Chacón skildi hins vegar ekki neitt og gerði sig einnig líklegan til að grípa, með þeim afleiðingum að þeir skullu saman og misstu báðir af boltanum.

 

Til að koma í veg fyrir að þetta gerðist aftur, var ákveðið að Ashburn myndi læra eina setningu í spænsku – setninguna; „yo la tengo.“ Setningin þýðir reyndar „ég er með hana“ enda er spænska orðið fyrir bolta í kvenkyni: „la pelota.“

 

Seinna á sama tímabili gerðist það síðan að sama staða kom upp, og Ashburn kallaði „yo la tengo!“ Hann gaut augum til Chacón, sem skildi ábendinguna og forðaðist árekstur. Það gerði hins vegar ekki annar leikmaður, Frank Thomas, sem hljóp af krafti undir boltann og rakst á greyið Ashburn og aftur gerðist það að enginn greip boltann. Thomas skildi heldur enga spænsku, og þegar þeir stóðu báðir upp, frekar pirraðir, öskraði Thomas: „What the hell is Yellow Tango??“

 

Fyndið.

 

Chacon-Ashburn-silverman-2

 

Hér má svo heyra nokkra tóna frá þessari yndislegu hljómsveit. Í þessu lagi má til að mynda heyra alla fegurð heimsins opinberast í einu besta og fallegasta gítarsólói mannkynssögunnar (3.05).

 

Vídjó