Margir myndu eflaust telja að það hafi verið áherslan á vísindi og raunhyggju á tímum upplýsingaraldar sem hafi verið ástæðan fyrir stórum skrefum vestræns samfélags í átt til almennrar velmegunar. Þau áhrif má auðvitað ekki vanmeta. Gallinn var hins vegar sá að allt til loka 17. aldar var enginn í ástandi til að tileinka sér vísindaleg vinnubrögð… því það hugsaði enginn skýrt.

 

Lífsins elixír, kaffi, átti eftir að breyta því!

 

Dr. Matthew Green er breskur sagnfræðingur sem gaf nýverið út bókina The Lost World of the London Coffeehouse. Bókin hefur hlotið glimrandi góða dóma. Þar að auki býður Green hverjum sem er að panta hjá honum sögugöngu um götur Lundúna, þar sem hann leiðir fróðleiksþyrsta um kaffislóðir með tilheyrandi kaffismakki í lokin.

 

Green bendir á í bók sinni, að kaffi hafi átt stóran þátt í hinni áður óþekktu velmegun sem varð til á tímum upplýsingarinnar. Gefum honum orðið:

 

Hafið í huga – að þangað til um miðja 17. öld, voru flestir á Englandi annað hvort lítillega – eða mjög – ölvaðir hvern einasta dag. Grútskítugt fljótavatn Lundúna mátti drekka ef maður var tilbúinn til að taka áhættuna; flestir völdu af mikilli skynsemi að drekka þá heldur vatnsþynnt öl eða bjór („lítinn bjór“). Tilkoma kaffis leiddi því af sér upphaf bindindissemi og lagði grunninn að gífurlegum hagvexti næstu áratugi, enda var fólk að hugsa skýrt í allra fyrsta sinn.

 

Næst þegar þið, kæru lesendur, fáið ykkur fyrsta kaffibolla dagsins – þið vitið, þennan fyrsta bolla sem breytir ykkur úr uppvakningum í einbeitta einstaklinga með skýra hugsun – já, næst þegar þið fáið ykkur unaðslegan bolla af nýmöluðu kaffi, hugsið hvernig lífið væri ef drykkurinn væri ekki kaffi, heldur bjór. Það væri ekki gott fyrir neinn!

 

Hér má lesa meira um þessa áhugaverðu bók.

 

Dr. Matthew Green með kaffi, að sjálfsögðu. Myndarlegasti piltur.

Dr. Matthew Green með kaffi, að sjálfsögðu. Myndarlegasti piltur.