Vídjó

Argentínski rithöfundurinn Jorge Luis Borges var þekktur fyrir ferðalög sín um ímyndaða heima. Hann ferðaðist jafnt um tíma og rúm og kom meðal annars við á Íslandi í skáldskap sínum.

 

Hann var fæddur í Buenos Aires árið 1899 og lést árið 1986.

 

Hér fyrir ofan er heimildarmynd um líf hans, sem gerð var árið 1999.

 

 GUÐBERGUR UM BORGES

[S]á líkami, sem fékk nafnið Jorge Luis Borges, fæddist í Buenos Aires, Argentínu, þann 24. ágúst 1899, og er hann nú á sinni löngu för um tímann og rúmið orðinn eitt fremsta skáld okkar aldar, og færastur þeirra smiða hennar, sem fengizt hafa við að tálga tálmyndir hugans.

 

Líf Borges er fremur fátækt að því, samnefnt er ytri atburðir, en verk hans eru þeim mun auðugri að innra lifi, sprottnu af hugsun, lestri, einangrun og ástundun þeirra fræða, sem hægt væri að kalla stærðfræði sálarinnar.

Úr rannsóknum sínum og sýnum hefur Borges unnið efni — einslags hringlaga reikningsdæmi fyrir forvitna lesendur — í sögur, ljóð og ritgerðir um Sögu eilífðarinnar, Mannkynssögu vansæmdarinnar, Alephinn, Garð stíga sem kvíslast og Skáldskap svo aðeins einhver dæmi séu nefnd, og er vinna hans gædd þeirri náttúru, að varhugavert væri að flokka hana undir einhverja afmarkaða bókmenntagrein.

Úr greininni Kringum Borges eftir Guðberg Bergsson rithöfund. Morgunblaðið 1971.

 

MÍGUR Á BORGES

 

a462505b7f3480bd8592423c847c434c

 

Flestum finnst betra að kasta af sér þvagi í einrúmi. En chileskur rithöfundur ákvað hins vegar að prýða kápu bókar sinnar með mynd af sjálfum sér að míga. Sprænan lekur á gröf og legstein Borgesar.

 

Nýjasta bók chileska rithöfundarins Eduardos Labarca kom aðeins út í 700 eintökum. En samt rataði mynd af rithöfundinum á kápu bókarinnar í heimspressuna. Myndin vakti sérstaka athygli í nágrannalandinu Argentínu. Á kápunni sést Labarca nefnilega míga á gröf Borgesar.

 

Margir Argentínumenn reiddust Labarca þó að hann hafi viðurkennt að bunan sem lekur úr klofinu á honum sé ekki hland heldur aðeins hreint vatn úr flösku sem hann felur á milli lappanna. Jafnvel Jorge Coscia, menningarmálaráðherra Argentínu, fann sig knúinn til að gagnrýna gjörninginn: „Þetta er bæði smekklaust og brot á lögum. Það hefst ekkert upp úr því að míga á gröf.“

 

Studdi grimma herforingja

Í Suður-Ameríku er Borges talinn einn áhrifamesti og ótrúlegasti rithöfundur tuttugustu aldarinnar en stjórnmálaskoðanirnar sem hann viðraði seint á ævinni, þegar hann studdi grimmar herforingastjórnir í álfunni á áttunda áratugnum, fóru fyrir brjóstið á milljónum manna.

 

LABARCA

Labarca.

 

„Borges var frábær rithöfundur en ég fyrirlít hann sem borgara. Þegar var orðinn gamall og blindur heimsótti hann Pinochet [fyrrum einræðisherra Chile] á meðan sá skratti murkaði lífið úr saklausu fólki,“ segir Labarca.

 

Borges fannst mikið til Pinochet koma. „Hann er frábær maður. Hér og í landinu mínu og í Úrúgvæ hefur frelsi og röð og reglu verið komið á,“ sagði Borges á áttunda áratugnum þegar herforingjastjórnir ríktu yfir löndunum. Talið er að í Argentínu hafi herforingjastjórnin, sem fór frá árið 1983, tekið 30 þúsund borgara af lífi án dóms og laga.

 

Flýði Chile

Labarca hefur ekki viljað biðjast afsökunar á kápumyndinni á bók sinni „El enigma de los módulos“ og segir að menn muni skilja hvers vegna hún kom til ef þeir lesi bókina.

 

Eduardo Labarca er þýðandi, blaðamaður og rithöfundur. Hann flýði Chile eftir valdaráns hersins árið 1973 þegar sósialistanum Salvador Allende, lýðræðislega kjörnum forseta landsins, var steypt af stóli.

 

 

BORGES Á ÞINGVÖLLUM

Hugur Borges hneigðist snemma að íslenzkum fornsögum. Norræn menning hefur ávallt síðan verið honum hugstæð. Hann minnist oft á Snorra Sturluson í ritum sínum, og í ljóði, sem birtist í tímaritinu Harpers, desember 1970, sem á íslenzku mætti nefna: Lesandi, er Snorri Sturluson jafnsjálfsagt fyrirbrigði og andrúmsloftið í kringum okkur.

 

Þótt blindur sé, upplifði Borges Ísland sterkar og af jákvæðari innlifun en flestir sem ég hef hitt. […] Borges fannst allt gott á Íslandi. Þegar kalt var í veðri, sagði hann: „Það er munur eða mollan heima og í heitu löndunum.“ Þegar snjóaði var íslenzka krapið betra en rigning í öðrum löndum.

 

Ógleymanlegt var að horfa á hann, þegar hann fékk Heimskringlu í hendur í Bókaverzlun Lárusar Blöndals. Hann strauk hana eins og helgan dóm, sá hana með höndunum. Ég bauðst til að bera hana fyrir hann. „Nei, ég ætla að halda á henni sjálfur,“ sagði hann.

 

Þegar við fórum til Þingvalla, […] bentum við honum á, hvar Egill hefði búið í Mosfellsdal Þá sagði Borges: „Ég sé móta fyrir fjöllunum. Og nú kemur það sér vel fyrir mig að vera blindur. Ég sé ekki bæina. Ég sé ekki sveitina. En ég sé fjöllin eins og Egill sá þau, þegar hann var orðinn blindur.“

 

Úr grein Matthíasar Johannesen Þekktur um alla heimskringluna, um Borges á Íslandi. Morgunblaðið 1971.