„Hvern fj … eru gervikonur að gera í mínu rúmi?“ Nei, þessi orð komu ekki úr ranni Gylfa Ægissonar heldur lét sænska söngvaskáldið Cornelis Vreeswijk þessi orð falla við réttarhöld yfir honum sumarið 1975. Þar var hann dæmdur til fangelsisvistar fyrir að lumbrað á klæðskiptingum, og stungið annan þeirra í íbúð sinni í Stokkhólmi.

 

Cornelis Vreeswijk er einn af lítríkustu persónuleikum sænskrar tónlistarsögu. Hann fæddist árið 1937 í IJmuiden í Hollandi en fluttist til Svíþjóðar með fjölskyldu sinni tólf ára gamall árið 1959.

 

Þrátt fyrir að tala ekki stakt orð í sænsku þá spjaraði Cornelis sig vel í skólanum og var snöggur að tileinka sér nýtt tungumál, meðal annars með því að lesa eins mikið af hasarmyndaseríunni Skugga (The Phantom) sem hann komst yfir.

 

Cornelis keypti sér sinn fyrsta gítar árið 1953 og byrjaði að syngja og semja sín eigin lög, fyrst og fremst til að skemmta sjálfum sér og vinum sínum. Ferill sem trúbador var ekki efst á dagskránni hjá honum þar sem draumur hans var að verða blaðamaður, en einkunnir hans voru ekki nógu háar til þess að fá inngöngu í blaðamannskóla og í staðinn fór hann að læra félagsfræði.

 

Cornelis byrjaði feril sinn sem trúbador á samkundum Hjálpræðishersins í Stokkhólmi og jókst hróður hans hratt og leið ekki á löngu þar til hann var farinn að spila fyrir fjölda manns á stærri tónleikum.

 

Fyrsta platan Ballader och Oförskämdheter kom út árið 1964 og sló strax í gegn, og lögin „Ballad på en sopptipp“ og „Brev från kolonien“ nutu mikillar hylli. Íslendingar þekkja það síðarnefnda betur í búningi Ómars Ragnarssonar undir nafninu „Halló mamma“.

 

Cornelis Vreeswijk, „Brev från kolonien“:

 

Vídjó

 

Ómar Ragnarsson, „Halló Mamma“:

 

Vídjó

 

Auk sinna eigin laga fór Cornelis að gera sínar eigin útgáfur af verkum eftir Evert Taube og Carl Michael Bellman ásamt því að vera fyrirferðamikill í sænska leikhús- og kvikmyndaheiminum. Hann var með sanni fjölhæfur og skapandi listamaður á öllum þeim sviðum sem hann reyndi fyrir sér á.

 

Cornelis átti í útistöðum við sænska ríkisútvarpið þegar nokkur af lögum hans voru bönnuð eða ritskoðuð og fór sérstaklega fyrir brjóstið á honum að útvarpsmenn neituðu að spila lagið „Slusk blues“ auk þess að vara hlustendur við vafasömu innihaldi texta hans. Viðbrögð hans við því var að banna ríkisútvarpinu með öllu að spila lög eftir hann.

 

Með frægðinni og peningunum sem fylgdu henni komu þó upp aðrir hlutir, sem skyggðu oft og tíðum á hæfileika hans. Hann átti í langri og strangri baráttu við bakkus og misnotaði einnig amfetamín. Hann tók langar vinnutarnir og tókst honum þá að mestu að halda sér edrú en þegar verkefnum var lokið var kominn tími til þess að detta í það.

 

Eftir eina slíka törn lenti Cornelis í vandræðum sem áttu eftir að draga dilk á eftir sér. Eftir að hafa drukkið nokkra góða bjóra hélt hann niður á Regeringsgatan í Stokkhólmi þar sem hann hitti fyrir tvær stúlkur sem hann sannfærði um að koma heim með sér. Þegar heim var komið var spilað á gítar og fengið sér í aðra tána en þegar hann var svo tilbúinn til þess að koma sér að efninu og semja um greiðslu héldu stúlkurnar inn í svefnherbergi og Cornelis á eftir þeim, þar sem hann sá fram á giftusamlegan endi. Þegar liðið var á atlotin varð honum ljóst að þarna lágu ekki tveir föngulegir kvenmenn heldur tveir klæðskiptingar. Cornelis beið ekki boðanna heldur hófst handa við að koma þeim út með góðu eða illu. Fór svo að annar klæðskiptinganna hlaut stungusár og var Cornelis síðar meir dæmdur fyrir ofbeldisverknaðinn.

 

 

Cornelis_Vreeswijk_press_photo_1967

 

Viðskipti söngvaskáldsins áttu ekki einungis eftir að hafa áhrif á hann sjálfan (og fórnarlömb árásarinnar) því að ári síðar mætti hann ekki á uppselda tónleika í Kaupmannahöfn, aðdáendum hans til mikils ama. Þegar náðist í skottið á honum á Kastrup-flugvelli gaf hann þá skýringu að hann þyrfti að halda til Svíþjóðar til að afplána fangelsisdóm fyrir barsmíðarnar á klæðskiptingum.

 

Hægt og bítandi hvarf söngvarinn úr sviðsljósinu og einkenndist áttundi áratugurinn hjá honum af áfengisdrykkju, vandræðum í einkalífinu og stanslausu stappi við sænsk skattayfirvöld.

 

Um miðjan áttunda áratuginn virtist sem sólarglætu væri að sjá í lífi hans á ný, því með hjálp Ulf Lindell og Imperiet varð hann vinsæll hjá yngri kynslóðum og kom hann meðal annars fram á Hróarskelduhátíðinni. Líferni fyrri áratuga hafði þó tekið of stóran toll. Cornelis hafði verið greindur með sykursýki og lifrarkrabbamein. Þrátt fyrir að vera þjóðhetja í Svíþjóð og búið þar stærsta hluta ævi sinnar varð hann aldrei sænskur ríkisborgari. Hann lést 12. nóvember 1987 slyppur og snauður.

 

Cornelis Vreeswijk, „Slusk blues“:

Vídjó

Heimildarmynd:

Vídjó

Kvikmyndin Cornelis:

Vídjó