Þessi æsilega frásögn birtist í Morgunblaðinu í febrúar 1914:

 

Atburður sá, er nú skal greindur gerðist í Brasilíu fyrir mörgum árum. Þýzkur blaðamaður skrifar blaði sínu um atvik þetta, og er frásögn hans á þessa leið:

 

„Eg hafði oft heyrt, að til væru kettir, er væru svo áræðnir og fimir að þeir réðust að slöngum og bönuðu þeim, án þess að verða fyrir biti sjálfir.

 

Nýlega veittist mér sú ánægja að vera sjónarvottur að slíkum bardaga.

 

Kötturinn lá rólegur fyrir utan húsdyrnar þegar 3-4 feta löng slanga kom skríðandi þar fram hjá og ætlaði að komast ofan i skurð er þar var skamt frá. Þetta var rottuslanga. Þær eru óeitraðar, en nytsamar, einmitt á sama hátt og kötturinn.

 

Rat-snake-924x420

 

Brasilíubúum er ekki á móti skapi að hafa þessar slöngur við hýbýli sin, því auk þess, sem þær eru duglegar til rottuveiða, eyða þær ýmsum öðrum, engu kærkomnari dýrum.

 

Þess skal getið, að rottuslangan er miklu fljótari, fimari og örðugra að veiða hana og drepa en hina eitruðu Jararaco.

 

Undireins og kötturinn kom auga á slönguna, reis hann upp klóraði tvisvar eða þrisvar sinnum með klónum í jörðina, eins og til að brýna þær, og hentist síðan á eftir slöngunni.

 

Hin reis nú upp og reyndi að bíta köttinn, en það mishepnaðist. Kisa sló klónum í höfuð slöngunni og neyddi hana þannig til að beygja höfuðið til jarðar.

 

Þetta bragð endurtók hún 6-8 sinnum, og fylgdi hverri hreyfingu og beygingu slöngunnar með mestu athygli. Líktist hver hreyfing kattarins leik, þegar hann var að stökkva yfir slönguna, ýmist til hægri eða vinstri, og í hvert skifti sló hann klónum í höfuð henni.

 

Eitt þessara högga hafði þær afieiðingar, að kötturinn klóraði annað augað úr slöngunni og virtist þetta óhapp draga allan dug úr henni. Hún flúði skyndilega í skurðinn; en það var ekki að geðþótta kattarins, er rak hana strax upp á bakkann aftur og neyddi hana til að rísa upp fyrir framan sig, og nú tókst hinn rauna og þó hlægilegi bardagi að nýju.

 

Að lokum datt slangan niður, dauðuppgefin, og notaði kisa þetta ágæta tækifæri til að bíta hana tvisvar hvað eftir annað, í síðuna. Trylt af sársauka byrjaði slangan bardagann að nýju, en frá þessu augnabliki virtist kötturinn haga sér með hinni mestu lítilsvirðingu gagnvart óvini sínum og þegar hið aðþrengda dýr, með veikum burðum reyndi að ná sér aftur og gat ekkert hreyft nema halann, lék kötturinn sér af mikilli unun að halanum.

 

Bardaginn hafði nú þegar staðið í stundarfjórðung, máttur slöngunnar þvarr alt af meir og meir og kettinum fór að leiðast. Til að leiða þetta á einhvern hátt til lykta, klóraði kötturinn all-ómjúklega hala slöngunnar, sennilega í því augnamiði, að fá slönguna til að berjast enn á ný.

 

Þetta hepnaðist, en þá hljóp kisa eins og elding að henni; beit um haus slöngunnar og fylgdi fast eftir.

 

Slangan féll til jarðar — hún var dauð.

 

Kisa mjálmaði síðan dálítið, sneri höfði frá slöngunni með fyrirlitningu og lagðist aftur fyrir framan dyrnar, án þess að líta við bráð sinni.“

 

Morgunblaðið, 7. febrúar 1914.

 

Picture 5