Á sjötta áratugnum ferðaðist David Attenborough ásamt tökuliði sínu til eyjunnar Pentecost í Suðurhöfum. Markmiðið var að ná á filmu í fyrsta sinn athöfn sem eyjarskeggjar kalla Gol. Þessar myndir urðu rúmlega tuttugu árum síðar kveikjan að fyrsta nútíma teygjustökkinu.

 

Á hverju ári taka karlmenn á Pentecost-eyju þátt í athöfn sem tengist uppskeruhátíð eyjarskeggja. Athöfnin felst í því að reistur er 20 til 30 metrar hár turn. Klifrað er upp í topp turnsins þar sem greinar vafningsjurtarinnar eru bundnar utan um ökklana. Síðan er stokkið úr turninum og er markmiðið að láta herðarnar snerta jörðina.

 

Uppruni athafnarinnar er rakin til konu sem var ósátt við ágengni eiginmanns síns. Brá hún því á það ráð að klifra upp í næsta tré og binda vafningsjurtir utan um fætur sínar. Þegar eiginmaður hennar, sem hét Tamalie, klifraði upp á eftir henni stökk hún úr trénu og varð viðurinn lífsbjörg hennar. Tamalie var aftur á móti ekki eins gæfusamur og hrapaði til dauða síns.

 

Til að fyrirbyggja að þetta endurtæki sig, ákváðu karlmenn eyjunnar að stökkva úr áðurnefndum turnum. Konur mega aftur á móti ekki koma nálægt þeim því annars ónáða þær anda Tamalies sem býr í turninum. Þeirra hlutverk er því að hvetja karlmennina áfram með söng og dansi.

 

Pentecost eyja tilheyrir Vanuatu-eyjaklasanum sem er um 1.750 km norðaustur af Ástralíu.

Pentecost eyja tilheyrir Vanuatu-eyjaklasanum sem er um 1.750 km norðaustur af Ástralíu.

 

Eins og nærri má geta er athöfnin ekki hættulaus. Þeir sem stökkva geta lent í að hálsbrjóta sig eða fá heilahristing. Skal það engan furða þar sem hraði stökkvarans getur náð allt að 75 km á klukkustund og er þyngdarkrafturinn sá mesti sem hægt er að upplifa af mannavöldum utan hins iðnvædda heims samkvæmt heimsmetabók Guinness.

 

Þar sem athöfnin var bönnuð af trúboðum á 19. öld vissu fáir Vesturlandabúar af henni. Það var því ekki fyrr en árið 1960, þegar sýndar voru myndir David Attenborough af athöfninni í bresku sjónvarpi, að fólk fór að veita henni athygli.

 

Vídjó

Brot úr þætti Davids Attenborough um Suðurhöfin.

 

Elísabet II Bretadrottning varð vitni að athöfninni á ferð sinni um Suðurhöfin árið 1974. Sú ferð átti þó eftir að verða afdrifarík því koma drottningar var á þeim tíma þegar teygjanleiki vafningsjurtarinnar er sem minnstur. Fór það svo að einn stökkvaranna lést eftir að viðurinn slitnaði í stökkinu. Er þetta einungis annað af tveimur dauðaslysum í tengslum við athöfnina síðan hún var endurvakin.

 

Vídjó

Úr nýlegri heimildarmynd um Gol athöfnina.