Á sumum vinnustöðum hanga uppi myndir af teiknimyndapersónum frá 9. áratugnum með áletrunum á borð við: Þú þarft ekki að vera klikkaður til að vinna hérna, en það hjálpar!” Hvergi áttu þessi sannindi betur við en á vígvöllum seinni heimsstyrjaldar, sem voru um tíma stærsti og streitufyllsti vinnustaður heims.

 

Churchill á heimsmeistaramótinu í bogfimi 1938.

Churchill á heimsmeistaramótinu í bogfimi í Osló 1938. Ári síðar fékk hann tækifæri til þess að beita bogfiminni gegn Þjóðverjum á vígvellinum.

Enski sérvitringurinn John Malcolm Thorpe Fleming Churchill, fæddur 1906, naut sín hvergi betur en í fremstu víglínu. Hann hlaut viðurnefnin „Fighting Jack Churchill” og seinna „Mad Jack Churchill” fyrir framgöngu sína á vígvellinum. Hann var meðal annars eini maðurinn sem felldi andstæðing með boga og örvum í seinni heimsstyrjöldinni, sennilega af því að enginn annar var að reyna það. Hann gekk líka alltaf með skoskt claymore langsverð og sekkjapípu; skotvopn voru fyrir honum aukaatriði og nánast óþarfi.

 

Árið 1940 tók Churchill þátt í orrustunni um Dunkirk þar sem hann réðst gegn þýskum vélbyssuhreiðrum á mótorhjóli með sverð eitt að vopni. Þýskur hermaður skaut hann í hálsinn með vélbyssu en Jack Churchill lét ekki slíkt á sig fá og hélt áfram að berjast og leiða menn sína þar til orrustan var unnin. Eftir bardagana sagði hann að enginn hermaður væri fullklæddur án sverðs. Hann var heiðraður fyrir hugrekki sitt og hækkaður í tign.

 

Jack Churchill við skrifborð sitt, einhvern tímann í seinni heimsstyrjöld.

Jack Churchill.

Yfirmenn hersins höfðu vissulega áhyggjur af ákveðnum þáttum í hegðun Churchills en töldu að með réttri þjálfun mætti gera hann að ofurhermanni. Hann var því sendur í gríðarlega erfiðar og alræmdar æfingabúðir þar sem margir reyndir hermenn hreinlega brotnuðu saman andlega og líkamlega á fyrstu vikunni. En ekki Churchill, hann skemmti sér að sögn konunglega allan tímann og var gerður einn af fyrstu sérsveitarmönnum breska hersins, „Commando” eins og það var kallað.

 

Jack Churchill ásamt mönnum sínum í Noregi.

Jack Churchill ásamt mönnum sínum í Noregi, 1941.

Churchill átti það til að spila á sekkjapípuna í tíma og ótíma, oft í miðri orrustu. Hann leiddi fyrstu sveitirnar sem gengu á land við herstöð Þjóðverja í Vågsøy í Noregi árið 1941 og var að sögn fyrstur frá borði með sekkjapípuna á lofti. Hann óð í land spilandi lagið „The March of the Cameron Men“ og öskrandi „Commandos!” eins hátt og hann gat.

 

Hann stoppaði  í flæðamálinu til að kasta handsprengjum í vélbyssuhreiður á ströndinni og hljóp síðan öskrandi á móti vélbyssukjöftum með langsverðið á lofti. Verkefni sérsveitarinnar var að eyðileggja stórskotalið Þjóðverja á eyjunni Måløy og það gekk hratt og örugglega fyrir sig, í skeytinu sem hann sendi til hershöfðingjanna stóð einfaldlega: „Eyjan og stórskotaliðið eru á okkar valdi. Erum að sprengja það í loft upp. Churchill.” Aftur fékk hann orðu fyrir hugrekki og var hækkaður í tign.

 

Jack Churchill í Salernó á Ítalíu

Jack Churchill ásamt mönnum sínum í Salernó á Ítalíu

Árið 1943 var ferðinni heitið til Ítalíu þar sem Churchill barðist við Salerno og á Sikiley. Enn hélt hann sig við langsverðið, bogann og sekkjapípuna en gekk einnig með handsprengjur og skammbyssu til öryggis. Hann vakti vægast sagt athygli á vígvellinum, sérstaklega eftir að hann skipaði 50 manna hersveit að ráðast á bæ þar sem Þjóðverjar voru með mikið herlið. Aftur var hann í fremstu víglínu, öskrandi með sverðið á lofti, og árásin var gerð um miðja nótt.

 

Skelfingu lostnir Þjóðverjarnir gáfust upp og 50 breskir hermenn voru nú með 136 þýska hermenn í haldi. Sagan segir að Churchill hafa síðar tekið meira en 40 fanga einn síns liðs að næturlagi með því að skríða um í myrkrinu með sverðið þannig að enginn heyrði til hans. Þegar hann var spurður hvernig einn maður gæti tekið fjörutíu þýska hermenn höndum án þess að vera með skotvopn sagði Churchill: „Ég held því fram að ef þú öskrar skipanir á Þjóðverja og segir honum hátt og skýrt hvað hann eigi að gera, og ef þú ert af hærri tign en hann, þá muni hann undantekningalaust hrópa ,Jawohl!’ og framkvæma verkið af dugnaði og innlifun, sama hverjar aðstæðurnar eru.”

 

Churchill í höndum Þjóðverja.

Churchill í höndum Þjóðverja í Júgóslavíu, 1944. Þýski herforinginn sem sést framan í á myndinni, Wilhelm Heinz, sendi Churchill þessa mynd 25 árum síðar og bauð honum í heimsókn til sín í Austurríki.

Það hlaut að koma að því að eitthvað færi úrskeiðis hjá Jack Churchill og það gerðist heldur betur í Júgóslavíu árið 1944. Hann var að berjast við hlið innfæddra skæruliða sem höfðu safnað saman 1500 manna herliði til að hrekja Þjóðverja frá eyjunni Brač. Sjálfur hafði Churchill bara lítinn hóp sérsveitarmanna undir sinni stjórn. Þegar júgóslavneski herforinginn frestaði árásinni til morguns ákvað Churchill að halda sínu striki og blés í sekkjapípurnar sem merki til sinna manna um að hefja áhlaupið.

 

Áhlaupið gekk vægast sagt illa og þegar þeir komust loks á áfangastað voru allir í sveitinni fallnir nema Churchill og sex aðrir Bretar. Þá féll sprengja í miðjan hópinn og allir dóu eða örkumluðust, nema auðvitað Churchill sem stóð einn eftir á vígvellinum, óvopnaður með sekkjapípuna á lofti og spilaði „Will Ye No Come Back Again?“ af öllum lífs og sálar kröftum á meðan sprengjum rigndi í kringum hann. Þjóðverjarnir þorðu ekki að nálgast svo óðan mann en ein sprengjan sprakk nálægt honum og rotaði hann. Hann rankaði við sér í útrýmingarbúðum nasista.

 

Jack Churchill á einum af þeim fáu myndum sem til eru af honum.

Jack Churchill á tímum seinni heimsstyrjaldar.

En það þarf eitthvað annað og meira en Sachsenhausen útrýmingarbúðirnar til að halda manni eins og Jack Churchill föngnum. Hann skreið undir girðinguna og lagði af stað fótgangandi til Eystrasaltsins þar sem hann vonaðist til að komast í fleiri bardaga. Hann var handsamaður af SS sveitum nasista á leiðinni og fluttur í fangabúðir í Austurríki.

 

Í Austurríki staldraði hann ekki lengi við. Ljósakerfi búðanna bilaði eitt kvöldið og hann nýtti tækifærið og lét sig hverfa út í myrkrið. Hann gekk síðan meira en 150 kílómetra leið, án allra vista, yfir Alpafjöllin til Ítalíu. Þar fékk hann verstu fréttir sem hann hafði fengið síðan að stríðið byrjaði: stríðinu var lokið. Churchill er sagður hafa bölvað því mikið að fá ekki tækifæri til að berjast við Japani og lét þessi orð falla: „Ef það væri ekki fyrir þessa fjárans Bandaríkjamenn þá hefðum við getað haldið þessu stríði gangandi í tíu ár í viðbót!”

 

Churchill leikur á sekkjapípu í minningarathöfn 1973.

Churchill leikur á sekkjapípu í minningarathöfn 1973.

En Churchill lét ekki staðar numið eftir stríðið. Hann tók þátt í gerð myndarinnar Ivanhoe (ísl. Ívar hlújárn) árið 1952 sem sérfræðingur í bogfimi og má sjá honum bregða fyrir í myndinni þar sem hann lætur örvum rigna frá Warwick kastala. Hann stundaði fallhlífastökk af miklum ákafa og skráði sig í skoska sérsveit. Churchill endaði síðan í Palestínu árið 1948 þegar Bretar voru að fara frá völdum þar og upplifði meðal annars Hadassah-umsátrið þar sem 78 gyðingar og einn breskur hermaður lét lífið.  Strax í kjölfarið stýrði Churchill aðgerðum sem urðu til þess að bjarga 700 gyðingum úr Hadassah spitalanum við Jerúsalem; læknum, læknanemum og sjúklingum.

 

Á seinni árum söðlaði hann um og flutti til Ástralíu þar sem hann kenndi í herskóla. Þar varð hann mikill áhugamaður um brimbretti, var mikill frumkvöðull á því sviði og hannaði sín eigin brimbretti. Hann hélt uppfengnum hætti eftir að hann sneri aftur til Bretlands og vakti athygli fyrir að stunda þessa nýstárlegu íþróttagrein.

 

Einkennileg og sérvitringsleg hegðun hans vakti ekki síður athygli. Hann tók oftast sömu lest og kastaði alltaf skjalatöskunni sinni út um gluggann nokkrum mínútum áður en hann var kominn á leiðarenda. Hann útskýrði seinna að hann hefði einfaldlega verið að kasta töskunni í sinn eigin bakgarð svo að hann þyrfti ekki að halda á henni heim frá lestarstöðinni.

 

Churchill settist í helgan stein árið 1959 og lést í Surrey árið 1996, níræður að aldri.