Herskipið Vasa; stolt sænska flotans sem sem ráða átti yfir Eystrasaltinu en sökk með manni og mús einungis nokkrum mínútum eftir að því var hleypt af stokkunum.
Í Vasa-safninu í Stokkhólmi má finna eitt frægasta skipið í sögu sænska hersins. Vasa-skipið. Bygging skipsins hófst árið 1625 að beiðni Gústafs II Adolfs Svíakonungs. Með byggingu skipsins og systurskipa þess ætlaði Gústaf að koma sænska flotanum á stall sem ógnvænlegasta flota Eystrasaltsins, en fram að fyrri hluta 17. aldar áttu Svíar einungis minni herskip.
Skipið var búið 64 fallbyssum og gátu í heildina um 450 manns verið um borð í skipinu. 300 hermenn og 150 sjómenn. Skipið var 69 metrar á lengd og möstrin náðu rúma 50 metra upp í loftið. Samanlagður sprengikraftur allra fallbyssa skipsins frá annarri hliðinni var tæplega 300 kíló.
Skipið var ekki einungis eitt það kraftmesta sem átti að sigla um höfin heldur var það einnig eitt af þeim mest skreyttu. Ufsagrýlur og gullskreyttar myndastyttur í hundruðatali prýddu skipið og áttu skreytingarnar bæði að sýna ríkidæmi Svíakonungs sem og að gefa skipinu ógnandi yfirbragð.
Skipinu var hleypt af stokkunum 10. ágúst árið 1628 en för þess stóð ekki lengi yfir því að það sökk í jómfrúarferð sinni eftir að hafa einungis siglt 1300 metra út úr skipasmíðastöðinni. Ónæg kjölfesta var í skipinu og lagðist það á hliðina þegar það fékk á sig hliðarvind og sökk með manni og mús.
333 ár liðu þangað til að skipið sá aftur dagsins ljós þegar könnuðurinn Anders Franzén fann skipið á nýjan leik og og eftir nokkura ára undirbúning var því lyft upp á yfirborðið. Með flakinu var yfir 14.000 trémunum og 700 höggmyndum bjargað og hefur þeim nú verið komið fyrir á ný í skipinu.
Þegar skipið sökk stöðvaðist tíminn innan í því og er það sem hefur fundist þar ómetanlegur menningararfur sem gefur sterkar vísbendingar, ekki einungis um sænska flotann heldur um líf og aðbúnað skipsverja.
Vasa-skipið er eina 17. aldar skipið sem til er í heiminum og um 95% af því hefur varðveist í heilu lagi.
Frú Vigdís Finnbogadóttir var ásamt sænsku konungshjónunum meðal fyrstu gesta sem fengu að ganga um borð í skipið eftir að því var komið á þurrt.