Það kannast eflaust allir við marinière-peysurnar, röndóttu sjóliðapeysurnar sem eru fyrir löngu orðnar að tískutákni. Peysurnar eru jafnan kenndar við bæinn Saint James sem er staðsettur milli Bretagne og Normandí í Frakklandi, og eru því stundum kallaðar bretónapeysur.

 

Franskur sjóliði árið 1910.

Franskur sjóliði árið 1910.

 

Peysurnar rekja sögu sína aftur til ársins 1858 þegar franski sjóherinn gerði þær að opinberum skylduklæðnaði. Í reglugerð sem var gefin út þar um, og er enn í gildi, segir að hver peysa eigi að hafa 20-21 indigó-bláar rendur á hvítum grunni. Bláu rendurnar eiga að vera 10 millimetrar að breidd á meðan hvítu rendurnar eiga að vera 20 millimetrar.

 

 

Hugmyndin var sú að ef sjóliði skyldi falla fyrir borð, væri auðveldara að reka augun í hann í sjónum – væri hann í marinière-peysu.

 

 

 

 

„Upprunalegar“ marinière-peysur eru enn framleiddar í Frakklandi í dag og eru ennþá einkennisklæðnaður franskra sjóliða. Það eru tvö fyrirtæki sem sjá um að sauma og prjóna peysur á franska sjóherinn – og reyndar bara hverja þá sem vilja – en það eru Armor Lux og fyrirtækið Saint James, sem kennir sig við heimabæinn sinn.

 

Coco Chanel slappar af í bretónapeysu. Myndin er frá 3. áratug síðustu aldar.

Coco Chanel slappar af í bretónapeysu. Myndin er frá 3. áratug síðustu aldar.

 

Peysurnar komust þó aðallega í tísku þegar Gabrielle „Coco“ Chanel byrjaði að selja fatalínu sem hún nefndi „style marin“ eða sjóliðastíl. Línan samanstóð af bolum, peysum og kjólum sem líktust sjóliðapeysunum en hún var til sölu í búð Chanel í bænum Deauville, strandbæ í Normandí sem er vinsæll ferðamannastaður meðal Frakka og þá helst ríkra Parísarbúa. Línuna kynnti hún á meðan fyrri heimstyrjöldin stóð sem hæst og þvi hægt að segja að bretónapeysurnar nálgist 100 ára afmæli sitt sem tískuvara.

 

 

Vinsældir sjóliðatískunnar minnkuðu ekkert heldur eftir að kvikmyndastjarnan Jean Seberg klæddist íkónískum „sjóliðakjól“ í kvikmynd Jean-Luc Godard, À bout de souffle, einu helsta meistaraverki frönsku nýbylgjunnar.

 

Jean Seberg var glæsileg leikkona, ekki síst í röndóttu.

Jean Seberg var glæsileg leikkona, ekki síst í röndóttu.

 

James Dean gæðir sér á mjólkurglasi í sjóliðaskyrtu.

James Dean gæðir sér á mjólkurglasi í sjóliðaskyrtu.

 

 

Fleiri hafa lagt sitt af mörkum við að gera sjóliðatískuna að stöðugri breytu í tísku, klassík sem mun líklega aldrei hverfa. Pablo Picasso, Audrey Hepburn, Bob Dylan, Brigitte Bardot eða hinn óviðjafnanlegi Jonathan Richman eru aðeins nokkur nöfn þeirra sem hafa hjálpað til við að gera sjóliðatískuna ódauðlega.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það er reyndar fyndið, að það er ekki aðeins sjóliðatískan sem tengir þá Picasso og Richman saman. Sá síðarnefndi gerði nefnilega líka stórskemmtilegt lag um hinn fyrrnefnda – með hljómsveit sinni The Modern Lovers.

 

Vídjó