Þann 10. ágúst árið 1993 var Norðmaðurinn Øystein Aarseth stunginn 23 sinnum — tvisvar í höfuðið, fimm sinnum í hálsinn og sextán sinnum í bakið — fyrir utan íbúð sína í Osló. Øystein, 25 ára gamall, var betur þekktur undir nafninu „Euronymous“ og var gítarleikari í Mayhem, einni fremstu blakkmetal-hljómsveit Noregs.

 

Og morðinginn var bassaleikarinn, „Grishnackh greifi“, öðru nafni Varg Vikernes, sem nú hefur komist aftur í fréttir en hann hefur verið handtekinn í Frakklandi grunaður um að skipuleggja hryðjuverk.

 

Blakkmetal eða svartmálmur, undirgrein af þungarokki sem einkennist af hröðum takti, skrækum söng og djöfullegum efnistökum, spratt upp í Skandinavíu, sérstaklega Noregi, á tíunda áratugnum.

 

Fyrsta, áhrifamesta og jafnframt alræmdasta norska svartmálmssveitin var Mayhem, og blóði drifin saga hennar á engan sinn líka.

 

Euronymous.

Euronymous.

Sveitin var stofnuð árið 1984 af gítarleikaranum Øystein Aarseth, eða Euronymous. Meðfram hljómsveitarstarfinu rak Aarseth plötubúð sem sérhæfði sig í metaltónlist. Helvete í Osló varð fljótt miðpunktur hinnar nýju norsku svartmálmssenu — og ungu mennirnir sem þangað vöndu komur sínar „innsti hringurinn“.

 

Mayhem gekk í gegnum margar mannabreytingar fyrstu árin, sérstaklega þegar kom að söngvurum. Árið 1988 gekk hinn 19 ára Svíi Per Yngve Ohlin til liðs við Mayhem. Hann hafði áður starfað með lítt þekktri sænskri dauðametalsveit og var betur þekktur undir nafninu „Dead“.

 

Ohlin var skrítin skrúfa. Hellhammer, trommari Mayhem, lýsti honum svo: „Mjög undarlegur persónuleiki … þunglyndur, hugsjúkur og dimmur.“ Hann málaði sig hvítan í framan fyrir tónleika — ekki til þess að stæla Kiss eða Alice Cooper heldur vegna þess að hann vildi líkjast líki. Í sama tilgangi gróf hann fötin sín í jörðu, svo þau byrjuðu að rotna og hann „lyktaði sem gröfin“. Eitt sinn bað hann hljómsveitarfélaga sína um að grafa sig lifandi svo að hann gæti fullkomnað líkmúnderinguna. Á einu tónleikaferðalaginu með Mayhem gekk hann um með rotnandi krákulík í plastpoka. Áður en hann steig á svið þefaði hann af krákunni og söng svo „með fnyk dauðans í nösunum“.

 

Platan Deathcrush frá 1987.

Platan Deathcrush frá 1987.

 

Á sviði skar hann sig með hnífum og brotnum glerflöskum, eitt skipti svo illilega að hann þurfti að leggjast á spítala vegna blóðmissis.

 

Árið 1990 settust meðlimir Mayhem að í gömlu húsi í skóginum fyrir utan Osló. Söngvarinn varð æ fjarlægari og þunglyndari og rifrildi milli tónlistarmannanna voru tíð. Þann 8. apríl 1991 kom Øystein Aarseth að Ohlin liggjandi á gólfinu í húsi hljómsveitarinnar. Hann hafði skorið sig á púls og skotið sig síðan í hausinn með haglabyssu. Blóð- og heilaslettur voru upp um alla veggi og gólf.

 

Það fyrsta sem Aarseth gerði var að hlaupa út í næstu búð og kaupa einnota myndavél. Síðan stillti hann sjálfsmorðsvopnunum snyrtilega upp við hlið líksins og tók myndir af öllum herlegheitunum. Ein myndin rataði síðar á umslag tónleikaplötu Mayhem, Dawn of the Black Hearts. (VIÐ VÖRUM LESENDUR VIÐ AÐ SMELLA Á TENGILINN).

 

Aarseth tíndi líka til nokkur brot úr splundraðri hauskúpu Ohlins og bjó síðar til úr þeim hálsmen sem hann gaf kollegum sínum í svartmálmssveitum sem nokkurs konar heiðursmerki. Samkvæmt þjóðsögum á hann líka að hafa eldað kássu með bitum úr heila Ohlins.

 

Eftir sjálfsmorð Ohlins sagði bassaleikari Mayhem, Jørn „Necrobutcher“ Stubberud, skilið við sveitina. Tveir nýir meðlimir komu í staðinn árið 1993 þegar Mayhem tók upp sína fyrstu stúdíóplötu: ungverski söngvarinn Attila Csihar og hinn tvítugi bassaleikari Varg Vikernes. Varg, einnig þekktur sem „Grishnackh greifi“, var úr innsta hring Helvete og hafði gefið út svartmálms-sólóplötur undir nafninu Burzum.

 

Þeim Varg og Aarseth kom strax illa saman. Þeir höfðu báðir sterkar skoðanir á pólitík en voru á öndverðum meiði. Aarseth aðhylltist kommúnisma, en Varg var öfgahægrimaður sem hafði tilheyrt nýnasistahópum áður en hann gekk til liðs við Mayhem.

 

VikernesNY

Varg Vikernes.

 

Að eigin sögn varð Varg „meðvitaður“ um kynþáttamál þegar hann var aðeins sex ára gamall. Fjölskylda hans flutti til Íraks í eitt ár þar sem faðir hans vann að einhverskonar tölvuverkefni fyrir Saddam Hussein. Hann gekk í íraskan grunnskóla þar sem kennararnir beittu nemendur óspart líkamlegum refsingum, en voguðu sér ekki að snerta hár á höfði Vargs litla. Þetta tók hann til marks um sjálfsagða yfirburði hins hvíta kynstofns og setti stoltur hakakrossfána upp á vegg hjá sér þegar fjölskyldan kom heim til Noregs.

 

Svartmálmur er jafnan tengdur við satanisma og djöflatrú en Varg Vikernes hafði meiri áhuga á ásatrú. Og hann hataði sérstaklega kristna trú, sem hafði tekið stað heiðni í norsku samfélagi.

 

Nóttina 6. júní 1992 brann stafkirkjan í Fantoft til grunna. Stafkirkjan í Fantoft, byggð á 12. öld, var eitt helsta byggingarlistaverk Norðmanna. Næstu mánuði brunnu að minnsta kosti sjö aðrar fornar stafkirkjur til grunna. Á bak við íkveikjurnar stóð Varg Vikernes, sem vildi með þessu móti ná fram hefndum fyrir hönd heiðinna manna. „[Kristnir menn] saurguðu grafir okkar, kuml okkar, svo að þetta var hefnd,“ sagði hann síðar. Hann valdi dagsetningu fyrstu íkveikjunnar með það í huga að þá voru liðin 1199 ár frá upphafi víkingaaldar; þegar víkingar frá Hörðalandi fóru ránshendi um ensku eyjuna Lindisfarne.

 

Það er ekki vitað með vissu hvers vegna Euronymous, eða Aarseth, var myrtur. Sagt er að þeir Varg hafi rifist um plötusamning eða stúlku. Sjálfur hefur Varg skrifað ítarlega um morðið í fangelsi. Hann segir að hann hafi drepið Aarseth því Aarseth hafi ætlað að drepa hann. Hann hafi talað fjálglega við hvern sem hlýða vildi að hann ætlaði að ræna honum, keyra út í sveit, binda Varg við trjábol og pynta til dauða.

 

Varg hefur ætíð haldið því fram að morðið hafi eiginlega verið sjálfsvörn — hinn morðóði Aarseth hafi ráðist á hann þegar hann heimsótti hann til þess að fara yfir einhverja samninga. Aarseth hafi hlotið flest sárin við að detta á glerbrot í stympingum þeirra. Annars lýsir Varg síðustu andartökum Øysteins Aarseth svo:

 

„… hann reyndi aftur að sparka í mig, svo ég gekk frá honum með því að reka hnífinn í gegnum höfuðkúpuna á honum, í gegnum ennið, og hann dó samstundis. Augun snérust í höfðinu á honum og það heyrðist stuna þegar lungun tæmdust og hann dó. Hann féll niður í sitjandi stöðu, en hnífurinn var fastur í höfðinu á honum, svo ég togaði hann upp með hnífskaftinu. Þegar ég kippti hnífnum úr höfuðkúpunni féll hann fram og rúllaði niður stigann eins og kartöflupoki.“

 

Øystein Aarseth fannst látinn fyrir utan blokkina í Osló sem hann bjó í, með 23 stungusár. Lögreglan var ekki lengi að komast á slóð morðingjans. Gítarleikarinn Snorre, sem varð vitni að morðinu, sagði lögreglunni alla söguna.

 

Þegar Varg var handtekinn fundust í fórum hans meira en 100 kíló af sprengiefni. Hann sagðist hafa ætlað að sprengja upp miðstöð ungra antífasista í Osló, en meðal aðdáenda Mayhem fóru á kreik ótrúlegar sögur um að hann hefði í raun ætlað sér að sprengja helstu byggingarperlu Noregs, dómkirkjuna í Niðarósi, í loft upp sama dag og fyrsta stúdíóplata hljómsveitarinnar kæmi út.

 

Í maí 1994 var Varg Vikernes fundinn sekur um morðið á Øystein Aarseth og fjölda íkveikja. Hann var dæmdur til 21 árs fangelsis. Fimmtán árum síðar, þann 24. maí 2009, var hann látinn laus á skilorði og bjó þangað til nýlega á litlum bóndabæ í Telemark með fjölskyldu sinni. Hljómsveitin Mayhem starfar enn.

 

greven14_1222761338

Varg Vikernes er kominn aftur í fréttirnar.

 

Vídjó

Tónleikar með Mayhem árið 1990.