Ungur maður frá Frakklandi bregður á það ráð að hindra skurð­gröfu með því að setjast niður með ungan son sinn í fang­inu. Hann reynir að stöðva nið­urrif lít­ils skrúðgarðs. 

 

Þann 31. maí 1978 vöknuðu íbúar Grjótaþorps upp við að stórri gröfu var ekið inn í hverfið til þess að rífa skúr í litlum skrúðgarði sem þeir höfðu útbúið.

 

Forsaga málsins var sú að nokkrir íbúar hverfisins höfðu fengið leyfi hjá fyrrum eiganda lóðarinnar, Valdimari Þórðarssyni, annars eiganda matvöruverslunnar Silla og Valda, til þess að búa til garð fyrir börn þeirra að leika sér í. Reykjavíkurborg sá svo um að útvega þeim torf og hleðslusteina en sjálfir útveguðu þeir sér málningu til að mála skúrinn og rekavið sem hafður var til skrauts í garðinum.

 

Nýr eigandi Fjalakattarins, Þorkell Valdimarsson (sonur Valda), hafði aftur á móti aðrar hugmyndir um hvernig nýta skyldi lóðanna. Hann vildi fylla hana með möl og búa til aðkeyrslu og bílastæði en til þess þurfti fyrst að rífa skúrinn. Réði hann því verktaka til verksins.

 

Deilan um skrúðgarðinn 1

 

Eins og nærri má geta var íbúunum brugðið þegar grafan hóf að rífa skúrinn og greip einn þeirra til þess ráðs að sitjast í vegi fyrir gröfuna með ungan son sinn í fanginu. Þetta var Gérard Lemarquis, ungur Frakki sem sest hafði að í hverfinu nokkrum árum áður en á þessum tíma voru allmargir Frakkar á þessum slóðum. Grjótaþorpið var þá í mjög slæmu ásigkomulagi og höfðust útigangsmenn við í sumum húsanna. Eina fólkið sem virtist sækjast eftir að að búa í hverfinu var ungt hugsjónafólk sem vildi varðveita húsin og laga þau.

 

Samkvæmt frásögn Þjóðviljans af atburðinum hótuðu íbúar hverfisins að „setjast undir malarsturtuna“ þegar ljóst var hvað stóð til. Sáu menn því ekkert annað í stöðunni en að hætta framkvæmdum þennan daginn. Ekki tókst þó íbúum Grótaþorps að bjarga skrúðgarðinum þar sem skurðgrafan hafði sundurtætt hann og ljóst var að eigandi lóðarinnar myndi ekki gefa leyfi fyrir nýjum skrúðgarð.

 

Deilan um skrúðgarðinn 3

 

Þessa dagana stendur yfir sýning í Árbæjarsafni sem ber yfirskriftina Framtíðarsýn og fortíðarhyggja. Þar má meðal annars finna viðtal við Gérard Lemarquis þar sem hann m.a. segir frá sögu Grjótaþorps eftir að hann flutti í hverfið.

 

Hér má sjá umfjöllun dagblaðanna um stöðvun niðurrifs skrúðgarðsins.

 

Morgunblaðið: Stöðvaði framsókn skurðgröfunnar með barn í fanginu

Dagblaðið: Menn eða bílastæði?

Þjóðviljinn: Niðurrif stöðvað

 

Þessi grein fjallar um við­fangs­efni sem er tekið fyrir á sýn­ingu nem­enda við HÍ, „Framtíðarsýn og for­tíð­ar­hyggja“. Þar er fjallað um upp­bygg­ingu og húsa­vernd í Reykjavík á seinni hluta 20. aldar. Sýn­ingin opnaði laug­ar­dag­inn 1. júní í Kornhúsinu á Árbæj­arsafni. Endilega kíkið í sumar! Og skoðið síðu sýn­ing­ar­innar: http://husvernd.wordpress.com/.