Hver kannast ekki við þessar „retro“ sjálfsmyndir sem allir virðast koma með heim eftir ferðalag eða dvöl í Berlín? Þessi höfuðstaður Þýskalands og alls sem er svalt hefur nefnilega að geyma hina upprunalegu ljósmyndaklefa, eða Photoautomat, en þeir eru nú farnir að gera allt vitlaust um víða veröld.

 

Photoautomat-ævintýrið byrjaði sem áhugamál tveggja Berlínarbúa, þeirra Asger Doenst og Ole Kretschmann. Ljósmyndaklefarnir sem Berlínarbúar taka sem sjálfsögðum hlut í dag voru nefnilega ekki alltaf til staðar – eða að minnsta kosti ekki síðan seint á 8. áratug síðustu aldar. Doenst og Kretschmann rákust á einn klefa fyrir tilviljun árið 2003 en sá klefi var þá gjörsamlega ónýtur. Þeir félagarnir voru hins vegar heillaðir, og eyddu hálfu ári í ferðalög til og frá Zurich í Sviss – bæði til að nálgast varahluti og til að safna kunnáttu til að lagfæra klefann.

 

Árið 2004 var fyrsti klefinn orðinn klár og var hann staðsettur steinsnar frá Rosenthaler Platz á mörkum hverfanna Mitte og Prenzlauer Berg. Í dag eru klefarnir í Berlín orðnir 17 talsins, svo ekki sé minnst á alla klefanna sem hafa sprottið upp í borgum eins og Hamborg, Leipzig, Köln, Flórens, London, Vín eða París.

 

Snillingarnir á bak við Photoautomat, Asger Doenst og Ole Kretschmann. Doenst starfar sem myndatökumaður og Kretschmann er trésmiður.

Snillingarnir á bak við Photoautomat, Asger Doenst og Ole Kretschmann. Doenst starfar sem myndatökumaður og Kretschmann er trésmiður.

 

Þótt ótrúlegt megi virðast þá hagnast þeir Doenst og Kretschmann ekki neitt á þessum klefum, hér er um algert hugsjónastarf að ræða. Verðið á hverri ljósmyndaræmu er ætíð aðeins tvær evrur, en hver ræma tekur fjórar myndir.

 

Hér er orðið „aðeins“ notað með góðri og gildri ástæðu, því hver einasta ræma rekur uppruna sinn til 8. áratugar síðustu aldar! Ljósmyndapappírinn er ekki framleiddur lengur, og má því segja að hver einasta ræma sé einstök.

 

Til vinstri má sjá fyrsta ljósmyndaklefann, en hann er nú við Veteranstrasse skammt frá Rosenthaler Platz. Til hægri er nýjasti meðlimur Photoautomat-fjölskyldunnar, fyrsti klefinn sem tekur myndir í lit! Hann er að finna við Warschauer Strasse á mörkum Friedrichshain og Kreuzberg.

Til vinstri má sjá fyrsta ljósmyndaklefann, en hann er nú við Veteranstrasse skammt frá Rosenthaler Platz. Til hægri er nýjasti meðlimur Photoautomat-fjölskyldunnar, fyrsti klefinn sem tekur myndir í lit! Hann er að finna við Warschauer Strasse á mörkum Friedrichshain og Kreuzberg.

 

 

Dæmi um flippskúnka í Photoautomat.

Dæmi um flippskúnka í Photoautomat.

 

Á síðunni má finna alls konar upplýsingar um þetta undur Berlínar.