Vídjó

Charly Garcia er einn þekktasti tónlistarmaðurinn í Argentínu. Hann er rúmlega sextugur og á áratugalangan feril að baki sem ein helsta stjarnan þar í landi. Hann var tiltölulega nýkominn á sjónarsviðið hinn 24. mars 1976 þegar herforingjastjórn rændi völdum í Argentínu.

 

Jorge Rafael Videla leiddi þessa ógnarstjórn sem átti eftir að koma um 30 þúsund manns, stjórnarandstæðingum, fyrir kattarnef á valdatíð sinni, sem lauk árið 1983. En hann lést í dag í fangelsi, 17. maí, 87 ára gamall. Hann hlaut lífstíðardóm fyrir ódæðisverkin á valdatímanum.

 

Árið 1983, þegar herforingjarnir höfðu hrökklast frá völdum, sendi Charly Garcia frá sér lagið Los Dinosaurios (Risaeðlurnar). Í laginu lýsir hann andrúmsloftinu á dögum herforingjarstjórnarinnar, þegar jafnvel blásaklaust fólk átti von á því að vera hrifsað upp af götum og sent í leynilegar fangabúðir stjórnarinnar.

 

Í laginu notar Charly orðið risaeðlur fyrir herforingjana. Viðlagið er svona í íslenskri þýðingu:

 

Vinirnir í hverfinu geta horfið

Útvarpsmennirnir geta horfið

Fólkið í dagblöðunum getur horfið

Sá sem þú elskar getur horfið

Þeir sem flögra um í loftinu

geta horfið í loftinu

Þeir sem eru úti á götu

geta horfið úti á götu

Vinirnir í hverfinu geta horfið

en risaeðlurnar þær munu hverfa

 

Jorge Rafael Videla.

Jorge Rafael Videla. Charly Garcia notaði orðið risaeðlu um hann og klíku hans.