Hin fræga bandaríska bók The Great Gatsby, eftir F. Scott Fitzgerald, var fyrst kvikmynduð árið 1926, einungis ári eftir að hún kom út. En ólíkt skáldsögunni – sem er enn er lesin í massavís – horfir enginn lengur á þessa bíómynd. Því hún er týnd og tröllum gefin.

 

Paramount-stúdíóið framleiddi myndina með talsverðum tilkostnaði. Þetta var á þögla tímanum í kvikmyndasögunni og töluverð áhersla var lögð á að „létta“ efni bókarinnar og gera stöðug veisluhöldin í bókinni að skemmtiefni fyrir áhorfendur. Eða svo er sagt. Það hefur enginn horft á þessa bíómynd lengi því bæði upphaflega filman og allar endurprentanir eru glataðar.

 

Það eina sem hefur varðveist er auglýsing fyrir myndina. En þetta er aðeins ein mínúta. Upphaflega myndin var 80 mínútna löng.

 

Vídjó

 

Margir Íslendingar hafa lesið bókina en hún kom síðast út á íslensku fyrir nokkrum árum hjá bókaforlaginu Uglu í þýðingu Atla Magnússonar. En um hvað er þessi fræga bók, Hinn mikli Gatsby? Fyrir þá sem hafa ekki lesið hana er káputextinn á þeirri útgáfu nokkuð skýr:

 

Enginn vissi í rauninni hver Gatsby var. Sumir sögðu að hann hefði verið þýskur njósnari, aðrir að hann væri skyldur evrópsku kóngafólki. En allir nutu hans frábæru gestrisni. Í íburðarmiklum húsakynnum á Long Island hélt hann frægar veislur. Fæstir gestanna þekktu þó gestgjafann í sjón. Það var eins og hann væri án tíma og rúms. Áhrifamikil lýsing á miklum velmegunartíma, jassáratugnum – glysi og glaum, tálsýnum og dvínandi siðferðisþrótti.

 

tumblr_mb1b67mMRT1rx589io1_1280

 

Sagan hefur verið kvikmynduð fjórum sinnum. Árið 1949 kom út tiltölulega vinsæl kvikmynd byggð á bókinni. En til þessa er myndin frá 1974 langþekktust. Hún skartaði Robert Redford og Miu Farrow og margir lesendur Lemúrsins hafa eflaust séð hana.

 

Og núna árið 2013 kemur út glæný kvikmynd um Hinn mikla Gatsby. Á meðal leikenda eru Leonardo DiCaprio, Tobey Maguire og Carey Mulligan.

 

great-gatsby-poster-1