Muna ekki allir eftir Johnny Lawrence, leiðtoga hinnar illræmdu Cobra Kai klíku sem lagði Daniel LaRusso í einelti?

 

Leikarinn sem lék Johnny Lawrence heitir William Zabka. Eftir að The Karate Kid sló í gegn árið 1984 átti Zabka nokkurri velgengni að fagna. Hann fékk hlutverk í eðalgrínmyndinni Back To School með Rodney Dangerfield og einnig kvikmyndinni European Vacation með Chevy Chase. Það má segja að hann hafi verið nokkurs konar „teen idol.“ Í það minnsta birtust myndir af honum berum að ofan í unglingatímaritum á við Bravo (þýskt).

 

Johnny Lawrence, leikinn af Zabka, ásamt félögum sínum og lærimeistara í Cobra Kai. Lærimeistarinn, John Kreese, var auðvitað helsta fúlmenni myndarinnar. Martin Kove fór með hlutverk hans, en upphaflega átti Chuck Norris að hljóta þann heiður.

 

En Zabka hvarf fljótlega af sjónarsviðinu. Á 10. áratug síðustu aldar heyrðist lítið sem ekkert frá honum og fáir vissu hvað hann var að gera í raun og veru. Zabka stritaði nefnilega nótt við dag, til að læra að verða handritshöfundur og kvikmyndagerðarmaður.

 

Og viti menn. Árið 2003 kom út tékkneska stuttmyndin Most, eða Brúin. Zabka, sem er af tékkneskum ættum, samdi handrit myndarinnar og framleiddi hana. Hann uppskar óskarsverðlaunatilnefningu fyrir vikið, auk þess sem myndin var sýnd á kvikmyndahátíðum um allan heim og vann til fjölda annarra verðlauna.

 

Myndin er mikil sorgarsaga um mannlegt eðli og hetjulegar ákvarðanir sem fæstir vilja lenda í að þurfa að taka. Þetta er mynd sem ristir djúpt.

 

Hér má sjá stuttmyndina Most, með enskum texta.

 

Vídjó