Um 30 kílómetra suðaustan við Leicester í Englandi stóð stórt og reisulegt fjölskylduóðal, Papillon Hall, í yfir þrjár aldir, þangað til það var rifið um miðja síðustu öld. Papillon-fjölskyldan, sem húsið er kennt við, setti nokkurt mark á sögu Bretlands. En hennar er helst minnst í sveitinni í Leicesterskíri fyrir voveiflega atburði sem tengjast dularfullum inniskóm.

 

Papillon Hall var byggt af franska hernaðarverkfræðingum David Papillon (1581–1659), húgenotta sem hafði flúið trúarlegar ofsóknir í Frakklandi (Papillon þýðir fiðrildi á frönsku og er einnig spanielhundategund). Hann byggði húsið á árunum 1622-24 úr steini, með aðeins einn inngang. Það var í laginu eins átthyrningur sem átti að auðvelda varnir þess. Þakið var krosslaga séð ofan frá og ofan á því voru blýhellur til þess að hægt væri að færa fallbyssur til og frá á því með góðu móti.

 

Málverk af David Papillon (1691-1762), eftir John Closterman (1660-1711), þar sem hann heldur á boga og er með veiðihund sér við hlið.

Árið 1629 var David Papillon fenginn til þess að tryggja endurgreiðslu á lánum sem tekin höfðu verið í Hollandi með veð í krúnudjásnunum af Karli 1. Englandskonungi (1600-1649). Sonur Davids, Thomas Papillon (1623-1702) var áhrifamikill stjórnmála- og viðskiptamaður í Bretlandi. Hann var þingmaður og stjórnarmaður í Austur-Indíafélaginu. En það er barnabarn Thomasar, David Papillon (1691-1762), sem sagan hefst í raun á.

 

Sagan segir að fólki í nærliggjandi bæjum hafi staðið stuggur af David Papillon þeim yngri því það hafi trúað því að hann kynni að galdra eða hefði einhvers konar skyggnigáfu. Hann var nefndur Pamp. Ýmis hjátrú tók að gera vart við sig hjá íbúum Lubenhams, nærliggjandi þorps, sem signdu deigið áður en það var bakað og meskið áður en bjór var bruggaður úr því.

 

Pamp á að hafa haldið spænskri hjákonu fanginni á óðalinu sem fékk aðeins að hreyfa sig á þaki óðalsins á morgnana. Talið er að hún hafi dáið 1715 en ekki er vitað undir hvernig kringumstæðum því engar heimildir eru til um dauða hennar. Sagt er að hún hafi verið myrt af Pamp sem trúði því að hún væri norn.

 

Póstkort með mynd af Papillon Hall frá árinu 1918.

Hennar síðasta verk var að leggja bölvun á hvern þann sem myndi fjarlægja inniskó hennar af óðalinu. Tveimur árum seinna giftist Pamp konu að nafni Mary Keyser og fluttist burt frá Papillon Hall, til Kent.

 

En sögunni lýkur ekki þar. Hann skildi inniskó hennar eftir með þeim leiðbeiningum að þeir ættu hvergi að fara.

 

Af þessum sökum fylgdi ávallt með yfirlýsing um inniskóna þegar húsið gekk kaupum og sölum. Árið 1866 lét John Alexander Hope, sjötti jarlinn af Hopetoun, sem bjó þar þá, fjarlægja inniskóna.

 

Eftir það var fjölskylda hans sífellt vakin á næturnar við óútskýrðan skarkala og var skónum þá skilað aftur. Charles William Walker, sem keypti óðalið árið 1882 eða 1884, var ákveðinn í að forðast að raska ró hjákonunnar spænsku. Hann lét útbúa læst skrín fyrir inniskóna sem var tryggilega komið fyrir fyrir ofan arininn.

 

Næsti eigandi, kapteinn Frank Bellville, sem keypti óðalið árið 1903, var ekki jafn varkár. Hann lét fjarlægja inniskóna og hefja endurbætur á húsnæðinu samkvæmt teikningum arkitektsins Edwin Lutyens, sem var mjög vinsæll.

 

Verkamennirnir voru stutt á veg komnir þegar þeir fundu beinagrind af konu inní vegg á austurhlið hússins.

 

Var hér komið lík spænsku hjákonunnar sem Pamp hafði myrt og falið? Fljótlega tóku voveiflegir atburðir að gerast á ný.

 

Einn vinnumannana lét lífið þegar hluti af vegg hrundi á hann og aðrir verkamenn lögðu þá niður vinnu sína. Belville sjálfur féll af hesti sínum og hlaut höfuðkúpubrot.

 

Hann jafnaði sig af brotinu en lærði ekki af reynslunni og lét fjarlægja inniskóna á ný árið 1909, þá til safns í Leicester. Á meðan inniskórnir voru í burtu datt hann á ný af hestbaki, þó án þess að hljóta varanlega skaða og í ofsalegu óveðri kviknaði í óðalinu.

 

Segja sumir að þrír hestar hafi drepist og aðrir að tveir menn hafi látið lífið. Í þetta skiptið lét Bellville skila inniskónum á sinn réttmæta stað, í skrínið fyrir ofan arininn og henti lyklunum í tjörnina í garðinum.

 

Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar var óðalið notað sem bækistöð 82. deildar bandaríska flughersins. Segir sagan að tveir hermenn sem fjarlægðu inniskóna hafi báðir látið lífið í bardaga. Ávallt skiluðu inniskórnir sér aftur á sinn stað.

 

Eftir að bandarísku hermennirnir yfirgáfu Papillon Hall árið 1945 fannst annar inniskórinn ekki. Hann kom síðar í ljós árið 1951 þegar húsið var rifið, falinn undir gólffjölum.

 

Hægt er að sjá ljósmyndir af Papillon Hall teknar af Edwin Lutyens fyrir tímaritið Country Life árið 1913 .

Vídjó

Og hér er tölvugert myndband sem sýnir Papillon Hall.