Margir muna vafalaust eftir risanum Fezzik í költ-kvikmyndinni The Princess Bride frá árinu 1987. Með hlutverk Fezzik fór alvöru risi, sem gekk iðulega undir nafninu André the Giant, eða risinn André.

 

André Roussimoff var fæddur í Grenoble í Frakklandi árið 1946. Líkamsburðir hans réðu miklu um val hans á starfsvettvangi, en hann byrjaði ungur að stunda glímu og ýmsar íþróttir sem kröfðust kunnáttu í fangbrögðum. Líkamsburðir André voru ekkert slor, hann var 2,24 m að hæð og um 260 til 290 kíló mestan part ævinnar.

 

Fezzik með prinsessuna Buttercup í fanginu í kvikmyndinni The Princess Bride.

 

Á áttunda áratug síðustu aldar flutti André til Bandaríkjanna þar sem hann varð stjarna í fjölbragðaglímuheiminum. Eins og flestir vita er sá heimur mikið sjónarspil og leikhústilburðir nauðsynlegir til að slá í gegn. André þótti einstaklega sjarmerandi og náði að spila rulluna um góða risann (gentle giant) fullkomlega, enda var hann líka mjög geðugur samkvæmt samferðamönnum hans.

 

André vann sér inn talsverðar peningaupphæðir á ferli sínum í fjölbragðaglímunni og fannst ekkert athugavert við að nota það fé til að njóta lífsins. Ekkert fannst honum skemmtilegra en að borða góðan mat, og skola þeim mat síðan niður með áfengum drykkjum. Mikið af áfengum drykkjum.

 

Hér má sjá bjórdós í hönd André. Þetta er ekki grín.

 

Að mati kunnugra hefur enginn maður, hvorki fyrr né síðar, getað drukkið áfengi í jafn miklu mæli og André. Stærð hans og þyngd hafa vafalaust mikið þar um að segja, en engu að síður verður magnið sem hann náði að svolgra í sig á einni kvöldstund að teljast með ólíkindum. Sögurnar eru reyndar fjölmargar. Einhverju sinni mun hann hafa borðað 16 nautasteikur, skolað því niður með kassa af bjór og 10 vínflöskum, drukkið heila flösku af viskí í forrétt og eina flösku af koníaki í eftirrétt.

 

En magnaðasta sagan, sem er staðfest af sjónvarvottum, hlýtur að teljast þegar hann drakk 156 stóra bjóra eina kvöldstund! Bjórarnir voru 470 ml að stærð og var þeim öllum slátrað, án þess að André missti meðvitund.

 

Reyndar er önnur saga af André, þegar hann drakk „einungis“ 127 litla bjóra og dó síðan áfengisdauða í anddyri hótels nokkurs í Pennsylvaníuríki. Starfsfólk hótelsins reyndi að koma André í herbergið sitt en án árangurs, og það skiljanlega. André var því látinn sofa á miðju gólfinu uns hann vaknaði, enginn annar en hann sjálfur gat hreyft við honum.

 

André Roussimof lést vegna hjartabilunar í París árið 1993, aðeins 46 ára að aldri. Hann var staddur í höfuðborg Frakklands til að vera viðstaddur útför föður síns, sem var þá nýlega látinn.

 

Hér má að lokum sjá myndskeið þar sem vinir André tala um þetta ótrúlega drykkjuþol.

 

Vídjó