Bretinn Horace Dall (1901-1986) bjó á hæsta hólnum í borginni Luton í útjaðri London. Þar var hann með litla stjörnuathugunarstöð og beindi myndavélarlinsu að himingeiminum og tók undraverðar ljósmyndir af fjarlægum hnöttum sólkerfisins.

 

En hann hafði ekki síður áhuga á plánetunni okkar og ferðaðist um allar heimsálfur með myndavélina. Árið 1933 hjólaði hann einn síns liðs um Ísland og tók þær merkilegu ljósmyndir sem við sjáum hér.

 

Mynd af Satúrnusi sem Dall tók í janúar árið 1976.

Dall fór yfir hálendið í þessari ferð. Munum að vegir á Íslandi voru lélegir á þessum árum, og samgöngur erfiðar. Ferðin var því mikið afrek.

 

Eins og sjá má var Dall hæfileikaríkur ljósmyndari og skrifaði bráðskemmtilegar lýsingar í dagbókarstíl fyrir hverja mynd. Raunar var Dall mjög virtur fyrir ýmsar uppfinningar sínar á sviði kíkja og ljósmyndunar.

 

Ben Searlie er enskur blaðamaður og ljósmyndari sem skrifað hefur um þetta flandur Horace Dall um Ísland. Hér er tímaritsgrein eftir hann sem ber nafnið Over unknown Iceland on a Raleigh Roadster.

 

„Fyrsta kvöldið á Íslandi. Ég kom að landi í Reykjavík um tetímann, fór strax út úr bænum og var kominn fimmtíu kílómetra burt þegar þessi mynd var tekin. Einkennandi fallegur himinn yfir lyngheiði þar sem nokkrar kindur ráfa um.“

 

„Fellsmúli — síðasti bærinn fyrir óbyggðirnar. Ógnandi himinn og tíðir regnskúrar með augnablikum af sólskini.“

 

„Íslendingarnir tveir sem ég fékk til þess að koma mér yfir Tungnaá hvíla sig í augnablik á malarsléttu undir norðurhlið Heklu, eftir mikla erfiðleika við að fara yfir fjallárnar. Þessi dráttarbíll er eini bíllinn sem hefur komist að Tungnaá, þrjátíu kílómetra frá Fellsmúla.“

 

„Stóra stundin er runninn upp! Íslendingarnir eru að róa aftur að bílnum eftir að hafa komið mér á norðurbakka Tungnaár. Ég veifaði þeim bless með blöndnum tilfinningum þegar ég gerði mér grein fyrir hinum vegalausu óbyggðum sem voru framundan. Þetta voru síðustu manneskjurnar sem ég sá þar til ég kom að bænum Mýri í norðri, fimm dögum síðar.“

 

„Fyrsti dagurinn gaf forsmekk af erfiðinu. Steinar, gilskorningar, sandur og mýrar — og ég gerði mér fljótt grein fyrir því að von mín um að geta hjólað 30% af leiðinni myndi ekki rætast.“

„Nokkru eftir að ég fór yfir vatnaskilin sá ég gríðarstóran eldgíg Öskju í austri. Það kann að hljóma ótrúlega fyrir þá sem þekkja ekki kristaltært loftið á Íslandi að gígurinn var þá 65 kílómetra í burtu.“

 

„Ég eyddi nóttinni í óbyggðum á klettasyllu með útsýni yfir ána með nafnið sem er ekki hægt að bera fram (Skjálfandafljót) sem rennur í Norður-Íshafið. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sef á einhverju grænu, en þar sem það voru stífar runnaplöntur var jörðin mun þægilegri.“

 

„Ég tók þessa mynd á því eftirminnilega augnabliki þegar ég, á leiðinni niður hæð, kom auga á tvo hvíta depla — greinilega bóndabæir. Enn þrettán kílómetra í burtu, og fjöldi áa og skorninga að fara yfir, en ég var himinn lifandi og mjög spenntur að hafa tekist að komast yfir óbyggðirnar.“

 

„Bóndabærinn Mýri, og iðagrænar grundir. Siðmenningin! Símalína liggur frá þessum afskekkta bæ til Akureyrar og ég gat sent skeyti í gegnum breska ræðismanninn til bóndans á Fellsmúla og látið hann vita að ég hefði komist örugglega norður (ég lofaði honum því til þess að létta áhyggjur hans af mér.)“

 

„Kominn aftur á veginn! Vatnið, sólsetrið, og íslenski hesturinn með drengnum á baki, urðu að ómóstæðilegu myndefni. Á leið til Akureyrar.“

 

„Akureyri, gimsteinn norðursins. Íbúarnir, sem hafa sitt lifibrauð mestmegnis af sjávarútvegi, rækta garða sem eru það næsta sem maður kemst trjám á öllu landinu.“

„Bóndi og dóttir hans eru á leið á íslenskum hestum til Reykholts.“

„Fallegu hestarnir eru búnir að fara yfir gróið hraun, og eldgígurinn er aðeins hálfan kílómetra metra í burtu.“

„Hinn svokallaði ‘vegur’ til Reykholts fer í gegnum mikið af villtu og hrjóstrugu landslagi.“

 

„Dalurinn fyrir neðan þetta þverhnípi er sendin eyðimörk — mjúkur sandurinn ýfist upp í vindinum alveg eins og í Sahara, en sandurinn er grár — og kaldur.“