„Í hundruð ára hafa Stjörnúlfarnir, á öflugum gervigreindar-geimskipum sínum, verndað Lýðveldið gegn fjölmennum en tæknilega lakari herjum Sambandsins. En nú kann að verða breyting á. Foringi Sambandshersins er að undirbúa nýtt leynivopn sem mun útrýma Stjörnuúlfunum í eitt skipti fyrir öll …“

Nokkurn veginn svona er söguþráður vísindaskáldsögunnar Starwolves: Tactical Error, sem kom út árið 1991. Höfundar bókarinnar er titlaður Thorarinn Gunnarsson. Ha, Þórarinn Gunnarsson?

Það virðist hafa farið framhjá mörgum Íslendingum að á áttunda og níunda áratugnum gaf Íslendingur nokkur, búsettur í Bandaríkjunum, út fjölda vísindaskáldsagna og fantasíubóka á ensku! Þórarinn þessi gaf út að minnsta kosti þrettán bækur, allar á árunum 1988 til 1996.

Auk bókanna fjögurra í Starwolves-seríunni gaf hann út þrjár bækur í seríunni Dragonlord Chronicles, um sverðfiman ungan riddara sem berst við yfirgangssama dreka í Dungeons & Dragons-heiminum Mystara; tvær bækur að einhverju leiti byggðar á norrænni goðafræði (Song of the Dwarves og Revenge of the Valkyrie) og loks Dragons-seríuna, fjórar unglingabækur sem af umslögunum að dæma fjalla um dreka og hjólabretti.

Nánari upplýsingar um ævi Þórarins má finna í greininni „Játningar Þórarins Gunnarssonar“ í vefritinu Hardwired frá árinu 1997.

Þórarinn Gunnarsson.

Í greininni kemur fram að faðir hans að nafninu til, Gunnar, hafi verið sjómaður, en móðir hans leikkona. Raunverulegur faðir hans hafi hinsvegar verið norskur kvikmyndaleikstjóri. Þórarinn lék í kvikmyndum og vann sem óperusöngvari í Evrópu áður en hann missti röddina, og flutti þá til Bandaríkjanna þar sem hann fór að skrifa.

Hann var ævintýramaður sem ferðaðist til Suðurskautslandsins og átti systurina Höllu Gunnarsdóttur sem lagði farsælan feril sem læknir upp á bátinn til þess að gerast rokkstjarna.

Ef þetta er farið að hljóma örlítið ósennilega er það vegna þess að þetta er haugalygi. „Thorarinn Gunnarsson“ er í raun rithöfundarnafn innfædds Bandaríkjamanns. Í játningum sínum játar höfundurinn að hafa búið persónuna Þórarin Gunnarsson til þess að verjast þunglyndi og óöryggistilfinningum sem nýr rithöfundur.

Ekki fylgir sögunni hvað raunverulegt nafn Þórarins sé. Né veit Lemúrinn hvað hefur orðið af honum, en hann hefur ekki gefið út bók í sautján ár. Leiðinlegt! En að lokum eru hér nokkrar fleiri kápur af verkum Þórarins: