Citicorp-turninn (nú Citigroup-turninn) er með hærri byggingum á Manhattan, 279 metra há og er sem stendur tíunda hæsta bygging New York-borgar. Ef ekki hefði verið fyrir símtal sem annar hönnuða hennar, William LeMessurier, fékk ári eftir að turninn var tekinn í notkun hefði byggingin getað orðið vettvangur mannskæðasta slyss í sögu Bandaríkjanna.

 

Hafist var handa við byggingu turnsins árið 1974 og var hann tekinn í notkun árið 1977. Eigendur hans voru Citibank, og aðalhönnuðir þeir Hugh Stubbins, arkítekt, og fyrrnefndur William LeMessurier, byggingarverkfræðingur. Báðir voru þeir mjög reyndir og virtir á sínu sviði.

 

Ólíkt flestum skýjakljúfum voru burðarsúlur Citicorp ekki hafðar í hornum hans, heldur voru þær staðsettar undir miðjum hliðum turnsins. Ástæðan fyrir því að sú leið var farin var ekki duttlungar hönnuðanna heldur vildi svo til að á reitnum sem byggingunni hafði verið valinn staður stóð gömul kirkja, St. Péturskirkjan. Ef burðarsúlurnar hefðu verið settar í horn byggingarinnar eins og venjan er hefði þurft að rífa kirkjuna.

 

Staðsetning burðarsúlna Citicorp-turnsins. St. Péturskirkjan sést vinstra megin á myndinni

LeMessurier taldi þetta ekki vera vandamál og hannaði óvenjulegt stífingarkerfi fyrir stálgrind hússins sem flutt gat kraftana vegna eigin- og vindálags frá hornunum niður í burðarsúlurnar á miðju hverrar hliðar.

 

Burðarkerfi Citicorp-turnsins. 45° stífur flytja krafta frá hornum og inn að miðju hverrar hliðar.

Byggingin var eins og áður sagði tekin í notkun árið 1977 án sýnilegra vandkvæða. LeMessurier og Stubbins sneru sér að öðrum verkum, ánægðir með vel unnin störf. Það var síðan um ári síðar, í júní árið 1978 sem LeMessurier fékk símhringingu frá nemanda í byggingarverkfræði við Princeton-háskóla. Nemandanum hafði verið falið að gera verkefni um hina nýju byggingu þeirra LeMessurier og Stubbins, og bað verkfræðinginn um útskýringar á hinu óvenjulega stífingarkerfi sem LeMessurier hafði hannað. LeMessurier tók erindi nemandans vel, og fór í kjölfarið að rifja upp útreikninga sína og skoða teikningar af byggingunni. Það var þá sem honum varð ljóst að hann hafði gert alvarleg mistök.

 

Þegar turninn var hannaður höfðu þau vindálagstilvik sem byggingarreglugerð New York borgar gerði kröfur um verið athuguð. Af áratugalangri reynslu sinni af hönnun slíkra bygginga taldi LeMessurier einungis þörf á að reikna út áhrifin frá vindi sem stæði þvert á hverja hlið turnsins, en sleppti því að athuga áhrif vinds sem stæði undir 45° horni á hana sem hann taldi vera óveruleg miðað við hin álagstilvikin. Með hefðbundnum stífingarkerfum hefði þetta verið rétt athugað hjá LeMessurier, en stífingarkerfi Citicorp-turnsins var ekki hefðbundið.

 

Nú þegar LeMessurier fór að yfirfara hönnun sína til að aðstoða hinn fróðleiksfúsa nemanda sem hafði haft samband við hann sá hann sér til skelfingar að einmitt það álagstilvik sem hann hafði ekki skoðað, vindur undir 45° horni á bygginguna, var það sem var ráðandi um öryggi hennar vegna þess hvernig burðarvirkið var uppbyggt.

 

Þegar verkfræðingurinn hafði reiknað vindálagið á bygginguna í upphafi hafði hann talið hana nógu örugga til að standast storm með endurkomutíma upp á mörg hundruð ár.

 

Nú þegar hann skoðaði álagstilvikið sem hann hafði áður talið óverulegt, taldi hann að öryggið væri ekki meira en svo að hún myndi falla við storm með endurkomutíma upp á aðeins 16 ár!

 

Með öðrum orðum, það voru verulegar líkur á að þessi 279 metra háa bygging myndi hreinlega detta eins og tré sem sagað er niður á miðri Manhattan eyju í næsta fárviðri. Slíkt stórslys hefði án efa kostað tugþúsundir mannslífa.

 

LeMessurier hefur lýst því að hann hafi fyrst íhugað sjálfsmorð þegar hann sá hvílíka villu hann hafði gerst sekur um. Sem betur fer ákvað hann þó frekar að viðurkenna mistök sín, og hanna endurbætur á stífingarkerfi byggingarinnar í samráði við eigendur hennar, því mörg mannslíf voru í húfi. Það þurfti að bregðast skjótt við, því fellibyljatímabilið var að skella á.

 

Í samráði við borgaryfirvöld var í snarheitum gerð áætlun um neyðaraðgerðir ef allt færi á versta veg, m.a. hvernig hátta skyldi brottflutningi þeirra sem væru staðsettir í byggingunni, sem og í næsta nágrenni við hana, enda var talið líklegt að Citicorp myndi falla til hliðar en ekki beint niður ef vindálagið yrði of hátt og stæði 45° á turninn.

 

Veðurfræðingar fylgdust sérstaklega vel með fellibyljum úti fyrir New York, og til að aðstoða LeMessurier og félaga við endurbætur á stálvirki turnsins voru fengnir færustu sérfræðingar í hönnun hárra bygginga, t.d. Les Robertson, byggingarverkfræðingur og aðalhönnuður burðarvirkis Tvíburaturnanna, World Trade Center. Allt þurfti þetta þó að gerast með mikilli leynd, þar sem ákveðið var að upplýsa almenning ekki um þá hættu sem vofði yfir.

 

William LeMessurier

LeMessurier og félagar töldu veikleika Citicorp helst felast í boltuðum tengingum í stífingarkerfinu og var ákveðið að styrkja þær tengingar með soðnum stálplötum. Var vinnulagi háttað þannig að hópar suðumanna unnu við endurbæturnar frá því að hefðbundnum skrifstofutíma lauk í turninum, yfir alla nóttina og fram til næsta morguns. Tók þetta nokkrar vikur, og að því loknu var byggingin talin nógu örugg til að þola mörg hundruð ára fellibyl, eins og upphaflega hafði verið haldið að hún myndi þola. Stórslysi hafði verið afstýrt.

 

Það óhugnanlegasta við þetta allt saman er að svo alvarlegur veikleiki Citicorp hafi einungis uppgötvast fyrir tilviljun. Sem veldur því að upp vakna spurningar um hvort önnur háhýsi víða um veröld eigi sér svipaða veikleika sem ekki hafa enn komið í ljós, og koma kannski ekki í ljós fyrr en allt er orðið um seinan. LeMessurier talar sjálfur á þeim nótum í heimildamyndinni How Manhattan escaped tragedy um þá sögu sem hér var sögð, og er rétt að enda á þeim miður jákvæðu orðum:

 

„… there might well be buildings that were built in the old days that have never yet been subjected to the wind that would knock them down. And they might …go.“

 

Vídjó

 

Höfundur er verkfræðingur.