Í fræðigreinum gekk hún undir nafninu „Mademoiselle X”. Hún varð á vegi franska læknisins Jules Cotard árið 1880, og við hann er síðan kenndur einn sá furðulegasti sjúkdómur sem læknisfræðin kann frá að greina.

 

Mademoiselle X var 43 ára gömul, og virtist hin venjulegasta í alla staði. En sjálf var hún á öðru máli. Hún hélt því statt og stöðugt fram að í hana vantaði öll innyfli. Hún hefði hvorki heila, hjarta, lungu né nokkuð annað. Hún neitaði að borða—það væri óþarfi, enda væri hún ekki með meltingarfæri.

 

Að eigin sögn var hún bókstaflega bara skinn og bein.

 

Í frekari viðtölum við Fröken X komst Dr. Cotard að því að hún var einnig heltekin furðulegum og þversagnakenndum hugmyndum um Guð og djöfulinn. Hún þvertók fyrir tilvist þeirra beggja en en taldi eigi að síður að hún væri fordæmd að eilífu, og gæti ekki dáið á eðlilegan hátt.

 

Sem varð raunin. Hvorki Cotard né öðrum tókst að fá Fröken X af órunum og að lokum veslaðist hún upp og dó úr hungri.

 

Jules Cotard.

Cotard kallaði ástand Fröken X „andstæðuóra“ en síðar var það nefnt eftir Cotard sjálfum, Cotard-órar eða Cotard-heilkenni. Helsta einkenni þess er að fólk heldur að það sé dáið — steindautt!

 

Samkvæmt franska heimspekingum Descartes er manninum ómögulegt að véfengja eigin tilvist, en það er þó einmitt það sem fólk haldið Cotard-heilkenni gerir. Það heldur því fram að það hafi dáið í slysi eða veikindum, aðrir segjast hafa framið sjálsmorð.

 

Önnur (og vægari) einkenni Cotard-heilkennis eru meðal annars að fólk telur sig hafa tapað innyflum eða líkamspörtum, eins og í tilviki Fröken X. Öðrum sjúklingum finnst líkami sinn vera farinn að rotna með tilheyrandi ólykt og segjast jafnvel finna fyrir ormum og lirfum skríðandi innan í fúlnandi kroppnum.

 

Cotard-heilkennið er vissulega afar sjaldgæft. Finna má það bil hundrað dæmi um Cotard-heilkenni í læknisfræðiritum. Það dúkkar oftast upp í fólki sem þjáist af geðhvarfasýki, geðklofa eða öðrum alvarlegum geðsjúkdómum, svo og fólki sem hefur orðið fyrir heilaskaða.

 

Ungur Skoti lenti í alvarlegu mótorhjólaslysi. Hann hlaut nokkurn heilaskaða af en virtist ná sér að fullu. Fyrir utan það lítilræði að hann var viss um að hann væri dauður. Læknar og fjölskylda mannsins reyndu hvað þau gátu til að sannfæra Skotann um að hann væri ekki aðeins sprelllifandi, heldur beinlínis við hestaheilsu, en allt kom fyrir ekki; hann hélt áfram að syrgja dauða sinn.

 

Þessar tilraunir aðstandenda mannsins voru reyndar dauðadæmdar frá byrjun. Engum hefur svo vitað sé tekist að fá Cotard-sjúkling ofan af hugmyndum sínum með rökhyggju. Einn geðlæknir skrifaði um tilraunir sínar til að fá Cotard-sjúkling ofan af því að hann væri liðið lík. Sjúklingurinn var í fyrstu sammála lækninum að það blæddi ekki úr dauðu fólki. Þá stakk læknirinn sjúklinginn með nál svo blæddi úr.

 

 

En í staðinn fyrir að sannfærast um að hann væri ekki dauður, eins og læknirinn vonaðist til, dró sjúklingurinn þá ályktun að fyrri fullyrðingin þeirra hefði verið röng. Augljóslega blæddi úr dauðu fólki. Móðir unga mannsins í Skotlandi brá á það ráð að fara með hann í ferðalag til að reyna að hressa hann við. Hún valdi Suður-Afríku og hélt að heitt loftslagið myndi gera honum gott. En svo reyndist ekki. Vegna hitans sannfærðist hann hins vegar um að hann væri kominn til helvítis.

 

Orsakir Cotards-heilkennis eru ekki á hreinu. Nýlega hafa komið fram kenningar um að það sé tengt öðrum frægum en sjaldgæfum geðsjúkdómi, sem kennt er við landa Cotards, geðlækninn Jospeph Capgras. Sjúklingar með Capgras-heilkenni halda að ættingjar þeirra og vinir séu í raun ókunnugt fólk í dulargervi sem er að þykjast vera ástvinir þeirra.

 

Kenningin segir að báðir sjúkdómarnir séu tilkomnir vegna skemmda í þeim hluta heilans sem sér um að tengja andlitin sem við þekkjum við tilfinningar og að sjúkdómarnir tveir séu viðbrögð mismunandi persónuleika við slíkum skemmdum.

 

Þetta þýðir að þegar einn einstaklingur vaknar upp og getur ekki lengur fundið nokkra tilfinningalega tengingu við fólkið í kringum sig dregur hann þá ályktun að þetta séu svikarar í dulargervum. En önnur manneskja gæti dregið þá ályktun að hinn skyndilegi skortur á tilfinningatengslum þýði að hún hafi dáið.