Internet tískubólur eru ekki nýjar af nálinni. En það er með hreinum ólíkindum hvernig lagið Harlem Shake með plötusnúðnum Baauer hefur slegið rækilega í gegn. Lagið hefur ekki aðeins slegið í gegn, heldur hefur það verið innblástur fólks um víða veröld til að gera myndbönd af sér dansandi við lagið. Myndböndunum fjölgar enn, en þegar þetta er skrifað telja þau hátt í 20 þúsund.

Baauer er skyndilega orðinn vinsælasti tónlistarmaður Bandaríkjanna.

 

Þessi bylgja myndbanda, ásamt fjölmiðlaumfjöllun um lagið, varð til þess að lagið komst í efsta sæti Billboard-vinsældalistans bandaríska – og er fyrsta lagið sem kemur nýtt inn á þann lista, beint í fyrsta sæti. Lagið kom reyndar fyrst út í fyrra, þann 22. maí nánar tiltekið, en seldist þá ekki neitt. Baauer var bara venjulegur plötusnúður, sem gaf út frumsamið efni á soundcloud – án þess að margir fleiri en vinir hans á facebook veittu því athygli.

 

Þessar ótrúlegu vinsældir má fyrst og fremst rekja til 19 ára fjölmiðlafræðinema í New York sem kallar sig Filthy Frank. Hann hefur að eigin sögn verið að gera myndbönd síðan hann var 12 ára, en grunaði aldrei að myndbandið sem hann gerði við Harlem Shake myndi valda slíku fjaðrafoki. Bandaríska veftímaritið The Fader tók viðtal við Frank.

 

„Ég var staddur í herbergi með nokkrum öðrum. Vinur minn var að spila lagið í græjunum og ég spurði hvað þetta væri, og kom í ljós að þetta var Harlem Shake. Um leið og takturinn dettur niður í laginu [innsk: „droppar“], þá urðum við bara tryllt. Við hugsuðum með okkur, hei, við getum gert eitthvað gott úr þessu.“

 

Frank á sinn eigin youtube reikning, en þar fylgjast 13 þúsund manns með myndböndunum sem hann hleður upp, svokallaðir „followers.“

 

Filthy Frank er fyndinn gaur.

„Jú, ætli ég sé ekki stoltur af þessu. En það er synd og skömm að þetta er sennilega það myndband sem ég hef gert, sem ég hef lagt hvað minnsta vinnu við að gera. En ég er ánægður með að hafa fengið svona mikla athygli og ég held að ég hafi fengið nægilega viðurkenningu. Fyrst var ég pirraður og hugsaði með mér, hei, hvað er að gerast hérna, það var ég sem gerði þetta. Ég átti mér ákveðinn aðdáendahóp og þeir hugsuðu með sér að ég væri við það að slá í gegn. Þeir voru ekki ánægðir með að þetta hafi farið „viral.“ Ég taldi samt að það væri betra að fá svona mikla kynningu og að ég myndi öðlast ákveðinn „költ-status“ og ég vildi ekki missa þá virðingu sem ég hafði áunnið mér.“

 

En hvað finnst Filthy Frank um Baauer?

 

„Þetta var örugglega fyrsta lagið sem ég heyrði með Baauer. Ég hlusta á mikið af hip-hop tónlist og djassi. Ég fíla í raun ekki svona tónlist eins og Baauer er að gera. Mér fannst þetta lag hins vegar vera kúl.“

 

Hér má sjá upprunalegt myndband Filthy Frank við Harlem Shake:

 

Vídjó

 

Á Íslandi hafa einnig sprottið upp myndbönd, hið besta líklega frá starfsfólkinu – jú, auðvitað – á barnum Harlem við Tryggvagötu:

 

Vídjó