Þegar Woodrow Wilson tókst loks að sannfæra Bandaríkjamenn um að blanda sér í átök fyrri heimsstyrjaldar, undir þeim formerkjum að það yrði stríðið til að binda endi á öll stríð, sáu margir tækifæri til að koma á breytingum heimavið undir þeim formerkjum að það væri í þágu stríðsrekstursins.

 

Í þeim hópi voru sjálfskipaðir siðgæðisverðir sem sáu sér leik á borði til að stemma stigu við kynsjúkdómum. Á yfirborðinu var það heilsa hermannanna sem þessir menn báru fyrir brjósti, en um leið gripu þeir tækifærið og saumuðu að vændiskonum. Rauðum hverfum víða um Bandaríkin var lokað og vændisiðnaðurinn varð að neðanjarðariðnaði í höndum melludólga og annarra glæpamanna.

 

Þessar aðgerðir náðu hámarki sinni með lögum sem kennd er við Chamberlain og Khan sem tóku gildi í júlí 1918. Samkvæmt henni mátti handtaka allar konur sem voru einar á göngu í grennd við herstöðvar, stinga þeim í fangelsi og framkvæma á þeim kvensjúkdómafræðilega læknisskoðun með valdi.

Veggir í þjálfunarbúðum hermanna voru þaktir veggspjöldum þar sem þjóðernisást þeirra sem þjáðust af kynsjúkdómum var dregin í efa.

 


Sem dæmi má nefna slagorð eins og: „How can you look the flag in the face if you were dirty with gonorrhea?“ og „A German Bullet is Cleaner than a Whore“. Þessi veggspjöld höfðu áhrif því tíðni kynsjúkdóma meðal hermanna var ekki jafn alvarleg og menn höfðu óttast. Þó segir sagan að óléttutíðni menntaskólastelpna sem bjuggu í grennd við herstöðvar hafi rokið upp.


Þessar áherslur féllu prestssyninum Woodrow Wilson vel í geð, enda trúaður maður og hjartahreinn. Hugmyndin var að halda uppi sömu hugmyndafræði þegar til Frakklands yrði komið og átti John „Jack Black“ Pershing að sjá um að halda dátunum á mottunni.


Það átti hins vegar eftir að reynast snúnara heldur en að sigra Þjóðverja, enda var hinn franski raunveruleiki nokkuð frábrugðinn hinum bandaríska. Viðhorf Frakka til kynlífs var einfaldlega allt annað en Bandaríkjamanna, en Frakkar litu svo á að her væri ekki starfhæfur nema að hermennirnir gætu reglulega svalað sínum kynferðislegu þörfum.


Allar tilraunir til annars myndu aðeins leiða af sér óánægju, slæman móral og verri heilsu hermanna og jafnvel leiða til uppreisnar. Franski forsætisráðherrann Georges Clemenceau gerði sér fyllilega grein fyrir holdlegum fýsnum hermannanna og skrifaði því Bandaríkjamönnum bréf þar sem hann bauðst til að setja á fót hóruhús til að þjónusta bandaríska hermenn, rétt eins og hann hafði sett á fót fyrir sína eigin hermenn.


Þegar Newton Baker, stríðsmálaráðherra Bandaríkjanna, fékk bréfið í hendur sagði hann:  „Í guðanna bænum ekki sýna forsetanum þetta, því þá mun hann binda endi á stríðið!“

 

Bandaríkjamenn lögðu töluverðan kraft í baráttuna gegn kynsjúkdómum, lauslæti og jafnvel sjálfsfróun. Reyndu þeir jöfnum höndum að höfða til samvisku manna og beittu hræðsluáróðri. Þeir hermenn sem nældu sér í kynsjúkdóma gátu jafnvel átt það á hættu að verða dregnir fyrir herrétt: