Það er misjafnt hvernig vestrænar menningarþjóðir fagna fyrir lönguföstu. Á Íslandi varð algengt að borða saltkjöt og baunir, en sú hefð teygir sig aftur til 19. aldar. Þá var loksins flutt inn til landsins nægilega mikið af salti til að slíka hefð mætti mynda, en áður fyrr var borðað hangikjöt á sprengidag.

 

Á stærstum hluta enska málsvæðisins, og þá helst á meðal þeirra þjóða sem eitt sinn tilheyrðu Breska heimsveldinu, er hins vegar ekkert saltkjöt sem prýðir hlaðborðin. Þar er til siðs að borða pönnukökur. Íbúar Bretlands, Írlands, Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjálands sporðrenna pönnukökum eins og enginn sé morgundagurinn. Svo mikinn sess skipa pönnukökurnar, að dagurinn er einfaldlega kallaður „pönnukökudagurinn“ (e. Pancake Day).

 

Opinberlega kallast dagurinn reyndar „Shrove Tuesday,“ en orðið „shrove“ er dregið af sögninni „shrive“ sem þýðir að játa. Kaþólikkar þurftu nefnilega að játa allar syndir og fá frá þeim aflausn, áður en tekið var til við að fasta.

 

Ástæðan fyrir því að pönnukökur urðu svona vinsælar er svo sem ekkert flókin. Pönnukökugerð var einfaldlega tilvalin til að nýta dýr hráefni sem gætu annars farið til spillis á hinu 40 daga tímabili föstu. Egg, og sérstaklega mjólk, eiga nefnilega til að skemmast. Hér má annars finna skemmtilegt lesefni frá Mahlzeit um pönnukökur.

 

Gleðilegan pönnukökudag!