Vídjó

Tetris hefur verið sagður einn besti tölvuleikur allra tíma. Útgáfur af honum eru til fyrir nær öll stýrikerfi, leikjatölvur og snjallsíma, og flestir hafa á einhverju stigi ævinnar reynt fyrir sér í þessum merka leik. Auk þess að vera gríðarlega ávanabindandi á leikurinn sér stórmerkilega sögu.

 

Nikolaj Belakoff, sovéski kerfiskarlinn sem samdi við stórfyrirtækin.

Tetris var fundinn upp árið 1984 af rússneska tölvunarfræðingnum Alexei Pajitnoff, sem þróaði fyrstu útgáfuna á meðan hann starfaði við rannsóknir í Dorodnítsin tölvuverinu í Moskvu. Heitið dró hann af tetra, gríska orðinu yfir töluna fjórir, enda eru allar blokkirnar í leiknum myndaðar úr fjórum kössum.

 

Leikurinn var ekki lengi að fanga athygli fyrirtækjanna Nintendo og Atari, sem vildu ólm komast yfir réttinn til þess að þróa útgáfur fyrir leikjatölvur sínar. Á tímum Sovétríkjanna gekk höfundaréttur á verkum sovéskra borgara hins vegar sjálfkrafa til ríkisins. Fyrir vikið var sendur grjótharður sovéskur kerfiskarl til þess að ná samningum við þessi kapítalísku stórfyrirtæki.

 

Heimildarmyndin Tetris: From Russia With Love frá árinu 2004 segir þessa stórmerkilegu sögu og greinir frá örlögum skapara leiksins, Pajitnoff, sem sá aldrei krónu af þeim auðæfum sem hann átti skilið.

 

Upphaflegi Tetris.

 

Alexei Pajitnoff, maðurinn sem fann upp leikinn Tetris.