Jamie Oliver er einn vinsælasti sjónvarpskokkur sögunnar. Hann sló í gegn á 10. áratug síðustu aldar, fyrst í þáttunum The Naked Chef. Bók með sama titli seldist síðan eins og heitar lummur og örlög Oliver voru ákveðin. Í dag á hann veitingahúsa-og viðskiptaveldi sem teygir anga sína allt frá Bretlandi til Austur-Asíu.

 

Vinsældir Oliver eru skiljanlegar. Ungur og myndarlegur, með persónutöfra sem fáir í hans stöðu hafa búið yfir. Síðan hefur hann auðvitað unnið óeigingjarnt og þarft starf við vitundarvakningu um hollt mataræði, þá sérstaklega hollt mataræði barna. Því má segja að Jamie Oliver sé nokkuð nettur gaur, svona á yfirborðinu að minnsta kosti.

 

Eins og áður sagði var það þátturinn The Naked Chef sem kom Oliver á kortið. Síðar átti hann eftir að gera þættina Pukka Tukka, og auðvitað fjölmarga aðra. Þáttaraðirnar skipta tugum. En árið 2002 voru sendir út þættirnir Oliver’s Twist. Þættirnir gengu út á það, að Oliver bauð gestum í mat og eldaði síðan fyrir þá. Gestirnir komu úr hinum og þessum áttum, en það var ekkert grín að finna nógu fjölbreyttan hóp gesta fyrir hvern þátt – enda töldu þættirnir heil 40 stykki áður en yfir lauk.

 

Gagnrýnendur voru fljótir að koma auga á, að gestirnir virtust sumir ekkert þekkja Oliver allt of vel. Var Oliver sakaður um að sviðsetja þessa heimilislegu og „kammó“ stemningu sem réði ríkjum á heimili nakta kokksins, að á heimili hans hafi það oftast verið leikarar sem léku hlutverk vina Olivers. Hér að neðan má til dæmis sjá þáttinn Football Breakfast. Þátturinn byrjar á því að Oliver reynir að láta áhorfendur trúa því, að hann hafi verið á villtu klúbbakvöldi… já, það er meira að segja sýnt frá klúbbakvöldinu! Ætlar Oliver síðan að elda mat handa sér og vinum sínum, mat sem hentar við timburmönnum, já og hentar líka til að maula á meðan fótboltaleikur á sér stað. Hér er talið næsta öruggt að það hafi aldrei verið neinn fótboltaleikur heldur.

 

Oliver játaði aldrei að gestir sínir hafi verið leikarar. En dæmi nú hver fyrir sig.

 

Vídjó