Hér fyrir ofan sjáum við ljósmynd sem Magnús Ólafsson tók um 1910. Mennirnir á sundskýlunum eru Sigurjón Pétursson á Álafossi og Benedikt Waage. Myndirnar sem birtast hér eru allar eftir Magnús og sýna fólk í Reykjavík á árunum 1910-1920.
Stórmerkilegur myndabanki Magnúsar Ólafssonar er geymdur hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Safnið er eitt fjölmargra stofnana í heiminum sem hlaðið hefur inn merkilegum gömlum ljósmyndum hjá Commons-verkefninu hjá vefsíðunni Flickr.
Það er mikilvægt að söfn miðli gersemunum sem þau geyma og Lemúrinn fagnar í hvert skipti sem Ljósmyndasafn Reykjavíkur hleður inn myndum á netið fyrir almenning. Við minnum einnig á annað bráðskemmtilegt verkefni sama safns á netinu, Ljósmynd vikunnar.
Við hvetjum öll söfn og stofnanir landsins sem geyma ljósmyndir sem hafa sögulegt og menningarlegt gildi að gera þær aðgengilegar á stafrænu formi. Landmælingar Íslands er dæmi um opinbera stofnun sem nýlega fór þá leið.

Enginn heima. 1910-1930, setustofa á heimili Sigurjóns snikkara og Elínar konu hans að Vonarstræti 8.

„Veturinn 1913-1914, leikfimi drengja í íþróttasal barnaskólans í Reykjavík. Ýmis áhöld til íþróttaiðkunar, hestur, kista, þverslá, rimlar, kaðlar og hringir í loftinu. Upp við vegginn er ofn til upphitunar og á veggnum eru teikningar sem sýna leikfimisæfingar, gætu verið svokallaðar Mullers-æfingar.“

„1914, fimleikastúlkur og þjálfari þeirra Björn Jakobsson, sennilega á Melavelli. Kveníþróttafélagið Iðunn.“