Þann 31. maí 1809 lést í Vínarborg tónskáldið afkastamikla Joseph Haydn, 77 ára að aldri. Vínarborg var í greipum Napóleónsstríðanna, og því var hann grafinn með lítilli viðhöfn í kirkjugarði í útjaðri borgarinnar.

 

Átta dögum eftir jarðarförina birtust tveir menn í kirkjugarðinum að næturlagi. Þetta voru Joseph Carl Rosenbaum, ritari í þjónustu aðalsættarinnar Esterhazy, sem Haydn hafði unnið fyrir, og félagi hans Johann Nepomuk Peter, fangelsisstjóri. Báðir voru þeir miklir áðdáendur tónskáldsins. Þeir voru einnig áhugamenn um kenningar þýska læknisins Franz Joseph Gall, frumkvöðuls hinna svokölluðu höfuðlagsfræða (e. phrenology). Höfuðlagsfræði ganga út á að hægt sé að álykta um gáfur og hæfileika einstaklings með því að rannsaka og mæla höfuðkúpu hans.

 

Haydn með hausinn á.

Mennirnir tveir grófu upp lík tónskáldsins og þrátt fyrir megna ólykt — það var farið að rotna — tókst mönnunum að skilja höfuðið frá líkama hans og fara með það heim. Þar ‘hreinsuðu’ þeir hauskúpuna vandlega af rotnandi líkamsleifunum og rannsökuðu síðan.

 

Samkvæmt kenningum höfuðlagsfræða eiga tónlistarhæfileikar heima einhverstaðar við gagnaugun og komust Rosenbaum og Peter að því að jú, Haydn hefði sannarlega verið með einhverskonar ‘bungu’ á gagnauga sem benti til sérstakrar tónlistargáfu.

 

Hafandi komist að þessari merkilegu niðurstöðu tók Peter höfuðkúpu tónskáldsins til handargagns og hafði hana framvegis til sýnis á heimili sínu, stillt upp á púða í sérsmíðaðri gleröskju.

 

Restin af Haydn hvíldi hinsvegar höfuðlaus í kirkjugarðinum í Gumpendorf í ellefu ár. Árið 1820, þegar Napóleónsstríðunum var löngu lokið og lífið í Vínarborg gekk aftur sinn vana gang, rifjaðist það upp fyrir Nikulás Esterhazy II prins, sem verið hafði helsti velgjörðarmaður Haydns, að hann hafði alltaf ætlað að láta færa líkið til borgarinnar Eisenstadt, þar sem kastali ættarinnar stendur og mörg helstu verk Haydns voru frumflutt.

 

Prinsinn var skiljanlega reiður þegar Haydn kom upp úr gröfinni höfuðlaus — þó var hárkolla tónskáldsins á sínum stað.

 

Böndin bárust fljótt að áhugahöfuðlagsfræðingunum Rosenbaum og Peter, en á þessum ellefu árum voru þeir báðir orðnir svo hændir að hauskúpu Haydns að þeir vildu ómögulega láta hana af hendi. Þeir földu hauskúpuna inni í dýnu eiginkonu Rosenbaums, sem lagðist og þóttist vera á blæðingum, svo að menn prinsins þyrðu ekki að koma nálægt dýnunni.

 

Hauskúpan til sýnis í skjalasafninu í Vín.

En prinsinn gafst ekki upp og að lokum gripu Rosenbaum og Peter til þess ráðs að láta hann hafa aðra hauskúpu, sem þeir fullvissuðu hann um að tilheyrði Haydn.

 

Lík og hárkolla Haydns voru því grafin með viðhöfn í Fjallkirkjunni í Eisenstadt ásamt höfuðkúpu einhvers óþekkts gamals karls.

 

Eftir dauða félaganna Rosenbaums og Peters fór hauskúpan á flakk og gekk manna á milli í Vínarborg í marga áratugi. Loks árið 1895 endaði hún í skjalasafni Tónlistarvinafélagsins í Vínarborg þar sem aðdáendur Haydns gátu fengið að berja hana augum langt fram á tuttugustu öld.

 

Það var ekki fyrr en árið 1954, 145 árum eftir dauða og fyrstu jarðarför Haydns, sem að líkamsleifar hans voru loksins sameinaðar á ný. Hauskúpan var þá flutt með mikilli viðhöfn frá Vínarborg til Eisenstadt og henni komið fyrir í marmarakistu Haydns í Fjallkirkjunni.

 

Höfuðkúpa gamla mannsins fékk að liggja þar áfram.

 

 

Júní 1954. Biskup í Vín blessar höfuðkúpu Haydns fyrir ferðalagið til Eisenstadt.

 

Kúpunni komið fyrir í líkbíl. Nærri hundrað bifreiða líkfylgd fór með kúpunni sextíu kílómetra frá Vín til Eisenstadt.

 

Mannfjöldi við kastala Esterhazy-ættarinnar í Eisenstadt.

 

Kúpunni komið fyrir í kistunni.