Árið 1896 var kvartað yfir því að íslenskir karlmenn væru of innilegir. „[Þeir] kyss­ast hverjum remb­ings­koss­inum á fætur öðrum, þó þeir sje aðeins málkunn­ugir.“ Hvað ætli hafi breyst síðan þá? Það er ekki algengt í nútímanum að sjá íslenska karlmenn kyssast. 

 

Bloggið The Art of Manliness birti nýlega merkar ljósmyndir frá nítjándu öld sem sýna vini af karlkyni stilla sér upp fyrir ljósmyndarann. Karlarnir virðast afar nánir, faðmast og snertast.

 

Og nútímamenn spyrja því: Eru þetta ekki elskendur, hommar?

 

En nei, málið er ekki svo einfalt.  Gefum Brett og Kate McKay, höfundum greinarinnar á Art of Manliness, orðið:

 

Í augum nútímamannsins eru stellingarnar, andlitssvipirnir og líkamstjáning mannanna [á myndunum] hommaleg. En það er nauðsynlegt að skilja að það er ekki hægt að horfa á þessar ljósmyndir frá sjónarhóli nútímamenningar okkar og ríkjandi skilnings á samkynhneigð.

 

Hugtakið „homosexuality“ var ekki fundið upp fyrr en árið 1869, og fyrir þann tíma var hin stranga tvígreining á milli þessi að vera „samkynhneigður“ og „gagnkynhneigður“ ekki til. Hrifning á öðrum körlum og kynferðislegar athafnir með þeim var eitthvað sem þú gerðir, en ekki eitthvað sem þú varst.

 

Það var hegðun – sem sumstaðar var viðurkennd en var álitin syndsamleg annars staðar.

 

Karlar dansa. „Á öllum stöðum þar sem voru bara karlar, eins og í námum og skipum úti á sjó, var algengt að þeir héldu dansleiki þar sem hálfur mannskapurinn lék konur.“

 

En höfundarnir segja að þessi hugmynd hafi um aldamótin 1900 breyst mikið. Samkynhneigð var skyndilega álitin sjúkdómur af geðlæknum og trúarleiðtogar fóru að tala um siðleysi og spillingu homma.

 

Þegar þessi nýja hugmynd um samkynhneigð varð að smánarbletti í bandarísku þjóðfélagi, fóru menn að vera varkárir um að senda engin skilaboð til annarra karla og til kvenna, um að þeir væru samkynhneigðir. Og þetta er ástæðan fyrir, samkvæmt kenningum, að karlmönnum fór á tuttugustu öld að þykja óþægilegt að sýna hrifningu hver fyrir öðrum.

 

Í nóvember árið 1896 birtist grein í Dagskrá þar sem kvartað var undan of miklu kossaflensi á milli karlmanna á Íslandi. „[H]jer sjást karlmenn opt og tíðum kyssast hverjum rembingskossinum á fætur öðrum, þó þeir sje aðeins málkunnugir,“ er skrifað í greinina sem birtist í dálknum „Hættir og siðir“. Við vitum ekki hver hélt á penna því höfundurinn skildi einungis eftir skammstöfunina „Fs.“ Einar Benediktsson skáld var ritstjóri blaðsins og það er ekki útilokað að hann hafi skrifað greinina.

 

Getur verið að íslenskir karlmenn hafi verið mun innilegra við vini sína á nítjándu öld heldur en þeir eru núna? Það er ekki beint algengt að karlar kyssist á Íslandi. Hvað finnst lesendum? Gætu kenningar sem rætt var um á blogginu Art of Manliness átt við hér?

 

Hættir og siðir

Eptir Fs.

Meðal þeirra hátta sem mest ber á í daglegri fjelagsumgengni manna eru kveðjurnar, og eru þær auðvitað mjög breytilegar eptir því sem á stendur þegar menn hittast eða skilja, og eptir því hverrar þjóðar menn eiga í hlut. Hinar almennu kveðjur eru sprottnar af þeirri grein fjelagsmenningarinnar sem kallast kurteisi, en hún er aptur ef svo mætti segja ávöxtur af hinum tveim aðaldyggðum alls fjelagsskapar, mannúð og löghlýðni.

 

Íslenskar kveðjur verða með kossum, handabandi, hneigingum, ofantektum eða ávarpi. En þessum ýmsu kveðjuháttum má beita ýmislega, og verður mörgum útlendingum starsýnt á kveðjur manna hjer, er þeir koma til landsins í fyrsta sinn. Einkum eru það kossarnir sem vekja eptirtekt, og þykir flestum þeir vera hafðir hjer of mjög við dagleg tækifæri.

 

Eptir almennri Norðálfutísku eru það helst konur sem kveðjast með kossi og þó ekki nema eptir langan aðskilnað, milli skyldfólks eða af einhverjum sjerstökum atvikum. En hjer sjást karlmenn opt og tíðum kyssast hverjum rembingskossinum á fætur öðrum, þó þeir sje aðeins málkunnugir, kvennfólk heilsast varla kossalaust, og konur og karlar munu allopt, ástæðulaust að því er virðist, hafa slík kveðjuatlot, sem betur ætti við að geyma öðrum kringumstæðum.

 

Það er ekki laust við að allt þetta mikla kossaflens í Íslendingum sjé ógeðslegt og nokkuð ósamrýmilegt við lundarlag þeirra og ættareinkenni. Auk þess eru kossar milli gesta og gangandi mjög vel fallnir til að breiða út næma sjúkdóma, einkum ýmsa húðsjúkdóma, svo sem holdsveiki, sem því miður er svo hryllilega algeng hjer á landi.

 

Það er því aldrei skemmtilegt að sjá konur láta svo hver að annari, eða að sjá hina og þessa vera að kyssa ung börn sem eru mjög móttækileg fyrir sjúkdómum, en út yfir allt tekur þó að sjá karlmenn faðmast og kyssast eins og unnustufólk. Slíkt er ónátturlegt, viðbjóðslegt og til hneykslunar fyrir alla þá sem ekki hafa sljófgast fyrir því af löngum vana.

 

Handaband er eðlilegasta kveðjan hjer á landi þar sem þannig er háttað víðast að það þykir sæta tíðindum ef gest ber að garði. Í þorpum eða bæjum, þar sem menn hittast daglega er handaband þar á móti of mikið af því góða, og þar sem heilsað er fjölda fólks í einu á mjög illa við að ganga á milli til þess að takast höndum á við hvern sem kominn er.

 

Höfuðbeyging eða hneiging er nægileg þegar svo stendur á, en sú kveðja er sjaldan höfð til sveita hjer á landi, þó hún sje hin lang algengasta af öllum kveðjum meðal útlendinga. Yfirleitt má segja að kveðjur Íslendinga sjeu allt of innilegar. Sönn kurteisi er jafnan samfara persónuleik og sjálfsvirðing, og öll auðmýkt við jafningja manns á því illa við, jafnt í kveðjum sem öðru.

 

Ofantektir Íslendinga eru allt of djúpar og í rauninni er það óíslenskt að taka höfuðfatið ofan þó maður mæti manni. Hjer þekkir hver annan í bæjunum og menn hittast allt of opt til þess að nokkur ástæða sjé til slíkrar yfirkurteisi.

 

Sök sjer er það þó konur sje kvaddar a þann hátt – ef þær þá hneigðu sig fallega í staðinn — en karlmenn ættu einungis að heilsast með ávarpi, þegar þeir mætast á götum og strætum, og eru hættir Breta — sem hafa manna minnst um kveðjuatlot – mikið mennilegri og hentugri fyrir oss í þessu efni, heldur en hinir þýsk-dönsku kveðjusiðir, er nú mega heita orðnir algengir í kauptúnum landsins; en hjá Bretum heilsa konur fyrst og er það mikið kurteisari venja heldur en hin, og væri sú regla sjerstaklega hentug fyrir oss, vegna þess að þá mundi minnka um kveðjurnar.

 

Enskir karlmenn taka aldrei ofan hvorir fyrir öðrum, en yppta að eins í húfuna ef kona heilsar þeim að fyrra bragði.

 

„F.S.“, Dagskrá, 7. nóvember, 1896.

 

 

 

 

 

 

 

Lesið meira um málið og skoðið fleiri ljósmyndir á The Art of Manliness. Margar myndir koma úr bókinni Picturing Men: A Century of Male Relationships in Everyday American Photography eftir John Ibson.