„Fljót fyrir ofan Eyjafjörð“ er það eina sem ljósmyndarinn skrifaði um þessa glæsilegu mynd sem tekin var fyrir meira en öld síðan.

 

Myndina tók breski ljós­mynd­ar­inn Frederick W.W. Howell, sem ferð­að­ist til Íslands og Færeyja um alda­mótin 1900. (Cornell University Library.)

 

Howell var mikið á Íslandi á síðasta áratug nítjándu aldar og starfaði meðal annars sem leiðsögumaður fyrir erlenda ferðalanga. Hann gekk á Hvannadalshnúk árið 1891, hugsanlega fyrstur manna, og fór yfir Langjökul þveran 1899. En Howell drukknaði í Héraðsvötnum sumarið 1901 og var jarðaður að Miklabæ. Lemúrinn mælir með bókinni Ísland Howells – Howell’s Iceland (1890-1901), eftir listsagnfræðinginn Frank Ponzi, en hún kom út árið 2004.

 

„Howell tók þessar myndir á þeim tíma sem nútímamenning var vart farin að ryðja sér til rúms á Íslandi, og því hafa þær mikið heimildagildi,“ sagði Ponzi í viðtali við Morgunblaðið árið 2004.