Lemúrinn hefur áður skoðað málverk síðasta kalífans og teikningar Viktoríu drottningar. Sá sem teiknaði þessar litlu teikningar hér að ofan lét einnig til sín taka á alþjóðavettvangi — hann sigraði Konstantínópel og lagði undir sig Býsansríki: Mehmet II Tyrkjasoldán.

 

Mehmet II var aðeins tuttugu og eins árs þegar Konstantínópel féll árið 1453, en þessar teikningar eru úr skissubók sem hann hefur líklega átt á nokkrum árum áður, á unglingsaldri. Auk þess að teikna andlit, dýr og plöntur hefur hann æft sig í skrift og gert fangamark sitt.