Hér að ofan sést áróðursmyndin „Þjóðernissinnarnir“ frá tíma spænsku borgarastyrjaldarinnar. Myndin var gerð einhvern tímann á árunum 1936-1937 af spænska listmálaranum Juan Antonio Morales, sem var þá 27 eða 28 ára að aldri. Í dag hangir hún í Gallica safninu í Madríd og þykir merkileg fyrir þær sakir að vera ein táknrænasta áróðursmynd repúblíkana úr borgarastríðinu 1936-1939, en hún sýnir eins konar holdgervingu alls þess sem hin fjölskrúðugu og sundurleitu vinstriöfl Spánar sameinuðust um að óttast.

Píus XI páfi var lítt hrifinn af vinstristefnu og náði samkomulagi við nasista, fasista og falangista.

 

Fyrir miðju skipsins situr rauðklæddur kardináli, tákngerving kaþólsku kirkjunnar, en hún reyndist oft sem áður ein sterkasta stoð íhaldsins á Spáni og studdi Falangista rækilega gegn vinstrimönnum í borgarastyrjöldinni. Undir fyrirskipunum frá Róm ljáðu spænsku biskuparnir málstað hægrimanna stuðning sinn, og í aðdraganda kosninganna 1936 fóru kirkjunnar menn á strætin til þess að fræða fjöldann um að atkvæði til Falangista væru atkvæði til Jesú Krists.  Það dugði þó ekki til, því vinstrimenn náðu tæpum meirihluta í kosningunum.

 

 

Frankó og „fasistinn“

Til vinstri stendur herforingi í fullum skrúða, með fallbyssu sér við hönd og bláan borða um öxl, enda átti uppreisn Falangista upptök sín í hernum og lauk með einræði Frankós hershöfðingja. Á bláa borðanum sést latneskt fasces — innbundið knyppi af sprekum — en þaðan er orðið „fasismi“ upprunnið.

 

Fasces-táknið á sér forna sögu sem nær aftur til Rómverja. Á tímum Rómarveldis, og síðarmeir í skjaldarmerkjum ýmissa evrópuríkja, táknaði innbundna knyppið hið veraldlega vald. Um lok 19. aldar kenndu hinar ýmsu ítölsku fascio stjórnmálahreyfingar sig við það, en í byrjun 20. aldar varð merkið að lokum tákn þjóðernishyggjuafla á Ítalíu, og úr varð hinn margrómaði fasistaflokkur Benitós Mussolini.

 

Til hægri stendur stórkapítalistinn, algengt stef í áróðursmyndum vinstrimanna frá þessum tíma: holdugur jakkafataklæddur maður með einglyrni og peningapoka í

Guernica og „nasista-kapítalistinn“

hægri hönd. Þessi tiltekni stórkapítalisti er með hakakross á barmi sér, og vísar það í stuðning nasista Þýskalands við spænsku fasistana, bæði fyrir og eftir valdatöku Frankós.

 

Vorið 1937 varð spænski bærinn Guernica fórnarlamb fyrstu árasar sprengjuflugvéla Þýskalands og Ítalíu á óbreytta borgara, en í henni létust um þúsund manns og voru fornar byggingar miðbæjarins lagðar gjörsamlega í rúst. Guernica árásin varð síðarmeir viðfang samnefnds málverks eftir Pablo Picasso sem einnig er varðveitt á Gallica safninu.

 

 

,,Áfram Spánn“

Efst á myndinni breiðir fugl út vængjum sínum og festir klærnar um gálga. Örninn varð síðar að persónulegu tákni Frankós, en fugl þessi gæti allt eins verið hrægammur bíðandi eftir tækifæri til þess að snæða á líki Spánar, eða prússneski örninn, sem var einkennandi stef í myndmáli nasista.

 

Fyrir neðan fuglinn hangir Íberíuskagi í snörunni.  Portúgal er dekkt út — landið hafði þegar glatast til hægrimanna– og aftakan öll er merkt „Arriba Espana“ — Áfram Spánn.

 

 

 

,,Márar“

 

Undir þilfarinu og aftar í skipinu sjást þeldökkir, vígbúnir hermenn klæddir norður-afrískum fatnaði — Márar!  Á þessum tíma var Marokkó undir stjórn Spánar, og hægriöflin sóttu sér þangað hermenn. Marokkósku hermennirnir höfðu út stríðið sérlegt orðspor fyrir villumennsku, þótt grimmd þeirra miðað við spænska hermenn hafi eflaust verið stórlega ýkt í áróðursskyni.

 

Uppreisn hersins gegn stjórn repúblíkana 1936 átti sér hins vegar upptök í Marokkó, og herslumunurinn í stríðinu kom í krafti stríðshertu spænsku herdeildana hinu megin við Gíbraltarsund, sem unnið höfðu að friðþægingu Marokkós í áraraðir. Óttinn við þeldökku Norður-Afríkumennina á sér þó lengri sögu í hugarlífi Spánar. Átök við Mára hafði í aldanna rás sett varanlegt mark á sögu landsins; Grenada, síðasta vígi Mára á Íberíuskaga, féll ekki í hendur Kastílu og Aragoníu fyrr en 1492, árið sem Kolumbús sigldi vestur frá Evrópu í leit að austurlöndum fjær.

 

Antonio Salazar, rammkaþólskur einræðisherra Portúgals, veitti Falangistum stuðning sinn.

Skipið á áróðursmyndinni er merkt „Junta de Burgos“ — fundurinn í Burgos — en sú er borgin sunnan Madríd sem fasistaöflin höfðu að höfuðstöðvum sínum á tímum borgarastríðsins. Þar fyrir neðan stendur „Lisboa“ — Lissabon — sem er væntanlega vísun til stuðnings kaþólska hagfræðingsins Antoniós Salazars, þáverandi einræðisherra Portúgals, við hægriöflin á Spáni.

 

Neðst er myndin vandlega merkt sem opinber áróðursmynd frá áróðursmálaráðuneyti spænsku ríkisstjórnarinnar — Ministerio de Propaganda — en orðið „propaganda“ hafði enn ekki öðlast þá neikvæðu merkingu sem því fylgir í dag. Áróðursmálaráðuneyti Spánar var stofnað samkvæmt skipan Francisco Cabellero ráðherra þann 4. nóvember 1936, skömmu áður en stjórn repúblíkana fann sig knúna til að færa höfuðstöðvar sínar frá Madríd til Valensíu, og var lagt af 17. maí 1937.  Áróðursmyndin var að öllum líkindum máluð á þessu tímabili.

 

Þjóðernissinnarnir — Áróðursmálaráðuneytið

 

Þess má geta að höfundur verksins, Juan Antonio Morales, ljáði repúblikönum hermóð sinn jafnt sem listgáfu. Hann barðist fyrir þá á vígstöðvunum samhliða vinnu sinni við áróðursmyndir og var í lok borgarastríðsins fangelsaður af Falangistum. Fyrir rest átti hann þó uppgjör sitt við fasistaríki Frankós, lét af vinstrihugsjónum og fór að starfa við að mála efri stéttirnar á tímum einræðis. Hann lifði út ævi sína á Spáni og lést árið 1984, sex árum eftir að landið tók upp lýðræðislega stjórnarhætti.