Fyrir nokkru birti Lemúrinn myndir pólska ljósmyndarans Menachem Kipnis af Gyðingum í Póllandi á millistríðsárunum.  Kipnis var, sem betur fer, ekki eini ljósmyndarinn sem festi þetta samfélag á filmu. Ljósmyndarinn og skáldið Alter Kacyzne (1885-1941) rak ljósmyndastúdíó í Varsjá en ferðaðist jafnframt um pólsk þorp og tók myndir af trúbræðrum sínum. Líkt og myndir Kipnisar voru myndirnar hér að neðan birtar í bandaríska dagblaðinu Forverts á árunum 1925-1928.

 

Menachem Kipnis var söngvari og á myndum hans eru tónlistarmenn og aðrir listamenn áberandi. Myndir Kacyzne sýna öðru fremur alþýðufólk — verkamenn, fátæklinga og eldri borgara.

 

Stúdíó Kacyzne og nær allt hans myndasafn — nema þær myndir sem birtust í fjölmiðlum vestanhafs — var eyðilagt þegar Þjóðverjar lögðu undir sig Varsjá. Ljósmyndarinn sjálfur lagði á flótta frá borginni en var drepinn í fjöldamorði á Gyðingum í úkraínsku borginni Ternopil árið 1941.

 

Trésmiður með barnabarni sínu. Czortków (nú í Úkraínu), 1925.

 

Otwock, suðaustur af Varsjá, 1927. Næsta kynslóð lærir á vatnsdæluna.

 

Varsjá. Konan sem selur hnetur við í vagnaportinu.

 

Zambrów. Lásasmiðurinn Elías hefur verið blindur á öðru auga í tólf ár en neitaði að fara í aðgerð fyrr en hann varð blindur á hinu líka.

 

Kozienice, 1927. Útsaumur er fjölmenn starfsgrein í þessum bæ.

 

Verkakona í Wyszków, 1927.

 

Sara, kona bakarans í Wilejka.

 

Karczew. Kona Meyers Garfunkels og barnabarn. Faðir stúlkunnar býr í Washington og móðir hennar er dáin.

 

Varsjá, 1925. Khana Kolsky er 106 ára gömul. Á hverju kvöldi játar hún syndir sínar og borðar smákökur. Áttræður sonur hennar í Ameríku trúir ekki að hún sé enn á lífi.

 

Lublin. Ræsið markar yfirráðasvæði drengjanna.

 

Varsjá. Fátækt heimili á Gęsia-stræti.

 

Ryki. Litli drengurinn vill vita hvers vegna stóra systir hans brosir — hún tók eftir ljósmyndaranum og hann ekki.

 

Nowy Dwór, 1927. Þrjár stúlkur sitja og sauma.

 

Łomża, 1927. Khone Shlayfer er 85 ára. Hann er slípari, og jafnframt vélamaður, regnhlífasmiður og töfralæknir.

 

Kutno, 1927. Aron Nokhem við saumavélina sína.

 

Parysów, 1927. Esther við vinnu sína. Maðurinn hennar fór frá henni fyrir sjö árum og skildi hana eftir með fimm börn. Hún vinnur fyrir sér sem saumakona.

 

Białystok, 1926. Atvinnulausa saumakonan.

 

Varsjá, 1928. Fyrir hverju var hann að berjast? Feyvl Tabakmen var pólitískur fangi og getur því ekki fengið neina vinnu sem vélamaður. Þess vegna brýnir hann hnífa úti á götu.

 

Varsjá. Heimili á Krochmalna-stræti.

 

Laskarzew. Hebreskuskóli fyrir stúlkur.

 

Lublin, 1924. Kennarinn hjálpar nemendum sínum.

 

Parysów, 1926. Þorpsskraddarinn, 93 ára, getur þrætt nálina án þess að setja á sig gleraugu.

 

Ostróg, 1925. Gamli kastalinn og sýnagógan eru tengd með neðanjarðargöngum.

 

Biała Podlaska, 1926. Á föstudagskvöldum bankar Azrielke á gluggahlera til þess að láta vita að hvíldardagurinn sé að ganga í garð.

 

Biała Podlaska, 1926. Grafarinn Wolf Nachowicz kennir sonarsyni sínum að lesa — faðir hans er í Ameríku.

 

Börn í parís.

 

Otwock, 1927.

 

Ostróg, 1925. Konan er með baunir í pottinum.

 

Góra Kalwaria, 1925. Hvíldardagsmáltíð fátæklinganna er tilbúin. Eydl Karbman við borðstofuborðið sitt.

 

Eretz Israel fyrir utan Varsjá, 1927. Ungir frumkvöðlar sá í akra og undirbúa sig fyrir flutninginn til Palestínu.

 

1927. Nýjasta slúðrið.

 

Varsjá. Heimili fyrir óskilabörn.

 

Elliheimilið í Równe, 1925.

 

Wyszków, 1927. Itke, kona glerskerans, er áttræð.

 

Łuków, 1926. Rifrildi.

 

Brześć nad Bugiem. Fimm fjölskyldur búa í þessu herbergi.

 

Międzyrzec, 1924. Verkamaður snæðir kvöldverð.

 

Biała Podlaska, 1926. Faðir og sonur. Járnsmiðurinn Leyzer Bawół óttast hið illa auga og vill ekki segja til aldurs, en hann hlýtur að vera eldri en eitt hundrað ára. Nú sér sonur hans um járnsmíðina en gamli maðurinn er orðinn læknir — hann setur saman beinbrot.

 

Czortków, 1925. Gyðingarnir í Czortków taka sér frídag á sunnudögum, þegar verslanir eru lokaðar samkvæmt lögum. Á veggnum er plakat sem auglýsir fyrirlestur ljósmyndarans, "Bókmenntir - þjóðargersemi".

 

Wołomin. Kona söðlasmiðsins.