„Richard afsalaði sér völdum þegar hann komst að því að hann væri óskilgetinn og svo var kosið um framtíð ríkisins, en enn kom illmennið Edmund til skjalanna, framdi valdarán og lét krýna sig prins og þjóðhöfðingja.

 

Hann kvæntist svo Beth Raines og var síðar settur af þegar Richard komst til valda með aðstoð málaliða sem Phillip Spaulding greiddi laun. Edmund slapp, á endanum varð San Cristobal lýðveldi og Richard þjóðkjörinn forseti.

 

Aðrar kosningar fóru fram ári síðar þegar prinsinn Alonzo skaut upp kollinum. Í þetta sinn kaus þjóðin konungsveldi á ný undir stjórn Alonzos sem brást við skjótt, skildi við sína útsmognu eiginkonu, Camille Baptiste, og sendi hana í útlegð.“

 

Helgi Hrafn Guðmundsson skrifar.

Ja hérna, hér. Þessi orð eru tekin úr skemmtilegri samantekt um Leiðarljós á vefsíðu RÚV. Eins og kemur þar fram er komið að endalokum í sápuóperunni bandarísku sem hófst fyrir 57 árum síðan. Margir eiga nú um sárt að binda vegna þessa enda hafa þeir fylgst með henni árum saman í sjónvarpi allra landsmanna.

 

Ætla má að áhorfendur hafi verið mun fleiri en almennt er talið — því það getur verið tabú líkast að fylgjast með sápuóperum. Þetta er dæmigerð hjarðhegðun – athæfi, sem þykir ekki smart, er mun almennara en rætt er opinberlega um og það alfarið skrifað á tiltekinn jaðarhóp í samfélaginu. Er ekki steríótýpíski unnandi Leiðarljóss í íslensku samfélagi vistmaður á elliheimili?

 

Ég verð þó að viðurkenna að ég horfði aldrei á heilan þátt. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að söguþráðurinn væri jafn flókinn og orðin hér fyrir ofan gefa til kynna. Maður kom heim úr skólanum eða vinnunni í kringum fimmleytið og kveikti af ókunnum ástæðum á sjónvarpinu – vitandi að það væri ekkert spennandi á dagskránni.

 

Og öldruð áferð Leiðarljóss birtist á skjánum. Gulbrún eins og fornir gripir í skápum á heimili afa og ömmu. Karakterarnir rifust – annaðhvort um peninga eða ástarmál. En ég man ekki eftir að hafa heyrt minnst á ríkið San Cristobal, tímaflakk og konunga og prinsa.

 

Setningarnar í fyrrnefndum texta á ruv.is eru nánast eins og örljóð eða brandarar. Þær eru hnitmiðaðar og svo yfirhlaðnar af fáránlega ýktum atriðum úr sápunni að lesandinn skellir upp úr á eftir hverjum punkti. Skoðum dæmi:

 

„Beth þróaði með sér annan persónuleika, Lorelei Hills, þegar hún slapp naumlega við að fyrrum eiginmaður hennar, Edmund Winslow, rændi henni þar sem hún var stödd í Mexíkó að sækja um skilnað.“

 

‎„Hrifning Oliviu á Nataliu jókst en Doris Wolfe reyndi að fletta ofan af sambandi þeirra þegar Emma skrifaði ritgerð sem hét „Tvær mömmur“.“

 

„Cassie sá vofu Tammy dóttur sinnar æði oft, ættleiddi sonurinn Will reyndist bera ábyrgð á dauða föður síns, Alonzo prins, og alvarlegu hnjaski á heilsu Edmunds Winslow frænda síns.“

 

„Edmund féll í dá, þökk sé fikti Jeffreys O‘Neill við súrefnisslönguna hans.“

 

„Edmund, fyrrum prins af San Cristobel, vaknaði úr dáinu og árið 2009 fór hann að læðupokast í Springfield á ný.“

 

„Margar af eldri persónum úr þáttunum birtust stuttlega á skjánum síðustu vikurnar. Hápunkturinn var þegar Ed og Holly lögðu af hvatvísi saman upp í óskilgreinda ferð.“

 

„Coop lést í bílslysi er hann var á leið til að hindra Beth í að giftast Alan aftur.“

 

„Tvennt markvert gerðist árið 2007. Josh Lewis og Cassie, hálfsystir Revu, giftu sig og frændsystkinin Jonathan Randall og Tammy Winslow giftu sig.“

 

Þessar dásamlegu setningar minntu mig á brandarann um Bílastæðaverði í Fóstbræðrum, sem er einmitt bráðfyndin skopstæling á sápuóperum. En jafnvel Fóstbræðrum tekst ekki að ganga jafn langt og Leiðarljósi, raunveruleikinn er því mun ýktari en skopstælingin.

 

Vídjó

 

Að lokum skal bent á þátt Kviku frá í sumar, en í honum var farið yfir sögu Leiðarljóss á skemmtilegan hátt.