Vídjó

Indíánaþjóðin Tarahumara býr í kringum Kopargljúfur í Sierra Madre fjallgarðinum í Mexíkó. Karlmenn þessarar þjóðar kallast raramuri, en orðið merkir „fótfráir hlauparar“ á máli hennar.

 

Eftir komu Spánverja til Mexíkó dreifðust byggðir indíánanna mjög víða um fjöll og hásléttur. Flóttinn til fjallanna leiddi til þess að fólkið þurfti að ferðast langar leiðir á milli þorpa. Og með tímanum þróuðu Tarahumarar með sér hefð fyrir langhlaupum. Margir þeirra hlaupa allt að 300 kílómetra í tveggja til þriggja daga ferðum á milli mismunandi byggða og veiðisvæða.

 

Tarahumarar. Myndina tók norski landkönnuðurinn Carl Sofus Lumholtz árið 1892.

Hér er stutt heimildarmynd þar sem þessi undur eru rakin.

 

Ýmis vandamál í mexíkósku þjóðfélagi hafa reynst þessari fámennu indíánaþjóð illa. Tarahumara-fólkið hefur þurft að lifa við eiturlyfjastríð og umhverfisspjöll.

 

Bandaríski ultra-maraþonhlauparinn Micah True, sem kallaður var „El Caballo Blanco“ (Hvíta hrossið), kom til fjallanna til að kynna sér ótrúlegan þrótt indíánanna og barðist svo fyrir málstað þeirra með ýmsum leiðum. Hann skipulagði The Copper Canyon Ultra Marathon, sem er með erfiðustu hlaupum veraldar. Hlaupið er 75 km í fjallaskörðum og ám og lækjum.

 

Útlendingar, „gringóar“ frá Bandaríkjunum þar á meðal, mæta til leiks og njóta þess að hlaupa með indíánunum.

 

Micah True lést af slysförum í mars á þessu ári þegar hann tók þátt í hlaupi í skógum Nýju-Mexíkó.

 

Vonast er til þess að ofurmaraþonið í Kopargljúfri falli ekki niður eftir fráfall hans. Það fer næst fram í mars.

 

 Hér er áhugaverð grein sem birtist í New York Times um Micah True.