Hvað ef Adolf Hitler hefði ekki svipt sig lífi í neðanjarðarbyrginu í Berlín, heldur lagt á flótta og farið í felur? Undir lok seinni heimsstyrjaldar höfðu yfirmenn Bandaríkjahers áhyggjur af þessum möguleika.
Því létu þeir teiknara útbúa myndir af Hitler eins og hann gæti litið út í dulargervi: Sköllóttur Hitler án yfirvaraskeggsins fræga, Hitler með gleraugu, Hitler með alskegg, og svo framvegis:
Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem slíkar myndir voru gerðar. Um svipað leyti birti vikublaðið Free Press Prairie Farmer, sem gefið var út á Íslendingaslóðum í Winnipeg í Kanada, svipaðar myndir. Þar var þó ekki bara átt við skegg- og gleraugnatísku Foringjans heldur reynt að breyta honum í dæmigerðan Kanadamann.
Fyrir ofan myndirnar stóð: „Myndirðu þekkja foringjann ef hann settist að í vesturhluta Kanada?“ Hitler gæti verið kokkur, prófessor eða bara karlinn í næsta húsi. Líklega hafa margir íbúar Manitoba-fylkis, til dæmis afkomendur Íslendinga í þorpinu Gimli, starað með grunsemdaraugum í andlit samferðamanna sinna til að sjá hvort þar leyndist fésið á Hitler, eftir að myndirnar birtust.