Nasistar höfðu náð yfirráðum yfir Þýskalandi árið 1933. Þeir gerðu Ólympíuleikana í Berlín árið 1936 að einni mestu áróðurssýningu allra tíma. Handbolti var leikinn á mótinu og unnu Þjóðverjar gullverðlaunin. Keppt var utanhúss, á fótboltavöllum, eins og Lemúrinn rifjaði upp í vikunni.

 

Á myndinni hér fyrir ofan sjáum við verðlaunahafa í handboltamótinu. Í miðjunni standa Þjóðverjar og sitthvorum megin við þá Austurríkismenn sem unnu silfur og Svisslendingar sem unnu brons.

 

Þjóðverjar voru ógnarsterkir, unnu Ungverja 22-0 og Bandaríkjamenn 29-1 í fyrstu tveimur leikjunum.

 

Í úrslitaleiknum léku Þjóðverjar á móti Austurríkismönnum á Ólympíuleikvanginum í Berlín. Sumar heimildir herma að áhorfendur hafi verið um 100 þúsund talsins á þeim leik.

 

Fimm leikmenn gullliðsins og níu leikmenn silfurliðsins létust á vígvöllum seinni heimsstyrjaldarinnar, sem hófst aðeins þremur árum síðar.

 

Ekki var aftur keppt í handbolta á Ólympíuleikum fyrr en í München 1972.

 

Grasið var blautt þegar Þjóðverjar (hvítir búningar) mættu Austurríkismönnunum á Ólympíuleikvanginum í Berlín í úrslitaleik í handbolta.

 

Þjóðverjar unnu leikinn 10-6.

 

Þýska liðið eftir leikinn.