Vinalegt, og svolítið töff kameldýr reykir sígarettur. Krúttlegur hundur drekkur bjór í sólinni umkringdur fallegum konum. Er eitthvað athugavert við það? Já, eftir ýmis málaferli undir lok aldarinnar hættu bandarískir tóbaks- og áfengisframleiðendur að nota slíkar skepnur í auglýsingum.

 

Joe Camel birtist í ýmsum líkjum í auglýsingum á tíunda áratugnum þar sem hann sást ýmist sem eitilharður töffari með Ray Ban-sólgleraugu á blæjubíl, flugmaður orrustuþotu í Top Gun-stíl eða stórkostlega leikinn rafmagnsgítarleikari. Tóbaksfyrirtækið R.J. Reynolds auglýsti gríðarlega mikið í sjónvarpi, dagblöðum og á auglýsingaskiltum. Svo mikið að hann varð frægari en Mikki mús.

 

Árið 1991 birti bandarískt læknablað niðurstöður rannsóknar sem sýndi að fleiri fimm og sex ára börn þekktu andlit Joe Camel en Mikka mús og Fred Flintstone. R.J. Reynolds var í kjölfarið sakað um að beina auglýsingum sínum til barna.

 


Í ljós kom að þriðjungur sígarettupakka sem seldir voru kaupendum undir aldri í Bandaríkjunum voru af gerðinni Camel. Í kjölfarið var R.J. Reynolds stefnt þar sem bent var á að unglingar hefðu keypt Camel-sígarettur fyrir um 500 milljónir dollara árið 1992. Hefði sami aldurshópur keypt Camel fyrir aðeins sex milljónir dollara árið 1988, áður en Joe Camel kom á sjónarsviðið. Eftir löng réttarhöld og mikinn þrýsting frá læknum, hætti R.J. Reynolds að nota Joe Camel í auglýsingum.

 

Hundurinn Spuds MacKenzie var af holdi og blóði, ólíkt Joe Camel. Hann var af tegund enskra vígahunda (e. Bull Terrier) og birtist ávallt í auglýsingum með bros á vör, krúttlegur að sjá, í fyndnum fötum. Hann var notaður í bjórauglýsingum Budweiser frá 1986 til 1992. Stuttu eftir að hann varð frægur kom í ljós kom að Spuds var ekki karlkyns, eins og gefið hafði verið út. Hann, eða öllu heldur hundurinn sem lék hann, var tík og hét réttu nafni Honey Tree Evil Eye.

Gúrú góðra stunda!

Sagt er að Spuds hafi vakið mikla athygli á tegund sinni og í kjölfarið hafi fjöldi hunda af tegundinni margfaldast vestanhafs. Þegar Spud McKenzie var á hátindi ferilsins var hægt að kaupa ótrúlegt úrval minjagripa, stuttermaboli og glingur merkt hundinum í bak og fyrir.

 

En Spuds var líkt og Joe afar umdeildur. Árið 1992 sökuðu ýmis heilsuverndarsamtök, þar á meðal Samtök mæðra gegn ölvunarakstri, Budweiser um að beina bjórauglýsingum sínum til barna með hvuttanum. Ákvað stórfyrirtækið að hætta að nota hundinn í auglýsingaherferðum sínum, en viðurkenndi þó ekki að hafa haft börn í huga í markaðssetningunni. Tíkin Honey Tree Evil Eye lést árið eftir, í faðmi eigenda sinna í Illinois-fylki.

 

 

Vídjó

 

 

Vídjó

 

 

Frétt í Helgarpóstinum árið 1995.