Breski forsætisráðherrann Winston Churchill gekk um gólf. Hann var niðursokkinn í hugsanir sínar. Enda var þetta á einum sögulegasta tímapunkti allra tíma. Því þetta var í lok árs 1941, þegar nasistar höfðu lagt undir sig Evrópu og höfðu yfirhöndina í seinni heimsstyrjöldinni. Churchill var staddur í Ottawa í Kanada og var nýbúinn að flytja þrumuræðu yfir kanadíska þinginu.

 

Japanir höfðu nokkrum vikum fyrr ráðist á bandarísku flotastöðina Pearl Harbor á Hawaii og Norður-Ameríka var öll að dragast inn í stríðið.

 

Skyndilega var bankað á dyrnar.

 

Forsætisráðherrann hafði beðið um að fá að vera í friði, vildi enga truflun. En hann opnaði. Inn gekk mjósleginn ljósmyndari sem ráðinn hafði verið af kanadískum yfirvöldum til að taka nokkrar ljósmyndir af Churchill í tilefni af heimsókn hans.

 

Ljósmyndarinn var Yousef Karsh og tók þetta kvöld eina frægustu ljósmyndina sem til er af Winston Churchill. Myndin sýnir Churchill ákaflega alvarlegan en Karsh beitti brögðum til að fanga þessar tilfinningar á filmur sínar. Hér er sagan af því:

 

Yousuf Karsh.

Yousuf Karsh.

Karsh vissi að hann hafði mjög stuttan tíma til þess að taka myndirnar. En samt byrjaði hann á því að rannsaka Churchill og skrifaði hjá sér minnispunkta um sérkenni hans, hegðun, framkomu og líkamsstöðu. Hann hringsólaði í kringum forsætisráðherrann sem hafði enga þolinmæði fyrir þessum leikjum.

 

Hann bað Churchill að setjast í stól og beindi ljósunum að honum og hélt svo áfram að skrifa eitt og annað hjá sér og mændi þess á milli á gamla manninn. Churchill var fúll því enginn hafði sagt honum að til stæði að ljósmynda hann.

 

Hann fékk nóg og hreytti út sér: „Þú hefur tvær mínútur. Og ekki söguna meir, tvær mínútur.“ Hann horfði þvermóðskulegur á ljósmyndarann og dró síðan upp gríðarstóran vindil úr kassanum sínum og byrjaði að púa hann með miklum tilþrifum.

 

En Karsh hafði ekki ætlað að mynda Churchill reykjandi vindil. Hann taldi sig þurfa öðru vísi lýsingu fyrir það og fannst það almennt ekki passa. Hann bað því forsætisráðherrann kurteislega að slökkva í vindlinum. En Churchill harðneitaði því.

 

Því næst gekk Karsh ofurhægt upp að Winston og þóttist vera að stilla ljósin. En skyndilega, leiftursnöggt, greip hann utan um vindilinn og togaði hann ofurvarlega úr túlanum á Churchill og gekk því næst upp að myndavélinni og smellti af.

 

Ljósmyndin sýnir grafalvarlegan mann sem mörgum fannst tákna ákveðni og árræði forsætisráðherrans breska en í raun var Churchill einfaldlega trylltur af bræði vegna þessa ófyrirleitlega og dónalega bragðs ljósmyndarans.

 

Karsh rifjaði þetta upp síðar: „Ég gekk upp að honum og togaði vindillinn út úr honum, hugsunarlaust en samt með virðingu og sagði: „Afsakið mig herra minn“. Þegar ég var kominn aftur til myndavélarinnar var hann svo herskár á svipinn að ég hélt að hann myndi ganga frá mér.

 

Og það var á því augnabliki sem ég smellti af.

 

Þögnin var óbærileg.

 

En þá fór Churchill að brosa og sagði: „Þú mátt taka aðra mynd.“ Hann gekk upp að mér, tók í höndina á mér og sagði: „Flott hjá þér. Þú gætir jafnvel látið öskrandi ljón standa kyrrt fyrir myndatöku.““

 

Myndin fræga, sem ljósmyndarinn kallaði „The Roaring Lion“, öskrandi ljón í tilefni af þessum orðum Churchills.

 

Churchill komst í gott skap og hrósaði ljósmyndaranum Karsh. En þessi mynd er engan veginn eins þekkt. Mynd: Yousef Karsh. 

 

Via Iconic Photos.