Í júlí árið 1930 lögðu fjórtán ævintýrafúsir ungir Bretar af stað til Grænlands. För þeirra hafði seinkað um þrjá mánuði af þeirri óvenjulegu ástæðu að ofdekraður lemúr réðst á einn leiðangursmanna sem þá var staddur í matarboði um borð í snekkju.
Þessum atburði og lemúrnum óstýriláta hefur vefritið Lemúrinn áður gert skil í grein: Hefðarlemúrinn sem beit heimskautafara.
En nú skulum við sjá hvernig leiðangursmönnum tókst til þegar loks var lagt úr höfn, og af hverju kalla varð út íslenskan málvísindaprófessor til þess að bjarga Breta sem dvaldi aleinn í tjaldi á Grænlandsjökli.
Markmið leiðangursins, sem kallaður var British Arctic Air Route Expedition (eða Breski íshafsleiðangurinn í íslenskum fjölmiðlum) var bæði að kortleggja austurströnd Grænlands, og gera veðurrannsóknir á Grænlandsjökli til þess að athuga hvort væri hægt væri að fljúga beint yfir jökulinn á ferð milli Kanada og Evrópu.
Forsprakki leiðangrins var Henry „Gino“ Watkins. Hann var aðeins 23 ára gamall en hæfur flugmaður og hafði þegar farið í tvo leiðangra á norðurslóðir, fyrst til Edge-eyjar við Svalbarða og síðan til Labrador. Grænlandsleiðangurinn var hans djarfasti til þessa.
Ferðafélaga sína valdi Watkins aðallega úr röðum skólafélaga sinna úr Cambridge-háskóla. Meðalaldur þeirra var 25 ár og fæstir voru reyndir heimskautafarar.
Leiðangurinn naut stuðnings Konunglega landfræðifélagsins en sá stuðningur var aðallega táknrænn og mestan part kostnaðarins bar eigandi lemúrsins sem minnst er á fyrr í greininni, breski auðkýfingurinn Stephen Courtauld. Hann var jafnframt föðurbróðir eins leiðangursmanna, 26 ára gamals verðbréfasala, Augustine Courtauld.
Bretarnir ungu sigldu af stað til Grænlands 6. júlí um borð í gufuskonnortunni Quest, sem áður hafði tilheyrt landkönnuðinum seinheppna Ernest Shackleton. Shackleton var á leið á Suðurskautið um borð í Quest þegar hann fékk hjartaáfall og dó, þann 5. janúar 1921.
Gat það virkilega boðað gott að hefja leiðangurinn um borð í skipi þar sem frækinn landkönnuður hafði látið lífið?
Eftir átján daga siglingu og stutta viðkomu í Færeyjum kom Quest til hafnar í Ammassalik á Suðaustur-Grænlandi. Síðan tók við tveggja vikna erfiði við að setja saman flugvélar sem leiðangursmenn höfðu meðferðis og byggja yfir þær flugskýli. Það var því komið fram á haust þegar loks var haldið upp á sjálfa jökulbreiðuna.
Uppi á miðjum jökli, rúma 225 kílómetra vestur af ströndinni og í 2500 metra hæð yfir sjávarmáli settu Bretarnir upp veðurathugunarstöð í byrjun september. „Stöðin“ var í raun eitt vesælt tjald hálfgrafið í snjóinn innan um veðurathugunartækin, og þar áttu Bretarnir að dvelja yfir veturinn á mánaðarlöngum vöktum, tveir eða þrír í senn.
Veðrið gerðist þó fljótt mjög kalt og verra en Bretarnir virðust hafa átt von á. Mikil snjókoma gerði það meðal annars að verkum að vegvísar að athugunarstöðinni hurfu í snjódýpið. 26. október lögðu þrír Bretar — þar á meðal var Augustine Courtauld, bróðursonur auðkýfingsins — af stað á hundasleðum frá Ammassalik með vistir til þess að taka við af tveimur félögum þeirra sem höfðu verið í athugunarstöðinni í mánuð.
Á leiðinni yfir jökulinn gerði hinsvegar svo mikið óveður að þeir voru nærri því sex vikur á leiðinni. Illa haldnir af kali komust þeir loks í athugunarstöðina 3. desember. Allmikið var þá gengið á vistirnar þeirra, svo að ákveðið var að allir færu bara aftur til baka — Bretarnir tveir sem verið höfðu í athugunarstöðinni síðan í október, og þeir þrír sem áttu að taka við af þeim.
En svo heimtaði Augustine Courtauld að verða eftir á jöklinum og halda áfram veðurrannsóknunum. Hann væri hvorteðer svo illa kalinn á tánum að hann legði ekki í aðra ferð yfir ísinn.
Hinir fóru aftur til byggða, þar sem þeir dunduðu sér með félögum sínum að kortleggja austurströndina og veiða seli (víst með litlum glæsibrag). Þegar líða tók á veturinn fór hinsvegar að hvarfla að einhverjum að hugsanlega gæti Courtauld verið illa staddur þarna aleinn uppi á jöklinum í tjaldi með takmarkaðar vistir. Væri ekki ráð að fara að ná í hann?
Í apríl fór Watkins, forsprakki leiðangurins, upp á jökulinn en tókst ekki að finna veðurathugunarstöðina aftur — hún var horfin í snjóinn. Hann sendi símskeyti til Lundúna þar sem hann greindi aðstandendum Courtauld frá þessu. Þaðan barst málið í blöðin, og fljótlega varð mikið til fjölmiðlafár vegna Courtaulds, einum og yfirgefnum á jöklinum — meðal annars á Íslandi:
Ættingjar Courtaulds voru vellauðugir vefnaðarkóngar og höfðu skiljanlega áhyggjur af drengnum. Og einhverjir virðast hafa brugðið á það ráð að leita til Íslendinga. Í lok apríl fékk dr. Alexander Jóhannesson, prófessor í málvísindum við Háskóla Íslands, símhringingu frá Bretlandi þar sem hann var beðinn um að útvega flugvél til þess að fljúga upp á jökulinn í leit að Courtauld.
Alexander var, jafnframt fræðistörfum, brautryðjandi á sviði flugmála á Íslandi og einn stofnenda annars Flugfélags Íslands árið 1928. Hann hófst strax handa.
Þann 30. apríl lagði varðskipið Óðinn af stað í átt að Grænlandi. Um borð í skipinu var flugvél Flugfélagsins, Veiðibjallan. Veiðibjallan var ekki talin hafa nægilegt flugþol til þess að fljúga beinustu leið, og því var siglt með flugvélina um borð í Óðni að hafísröndinni milli Íslands og Grænlands. Síðan átti vélin að hefja sig til lofts af ísnum, fljúga til Ammassalik og síðan upp á jökullinn með nauðsynlegar vistir til Courtaulds.
Íslenska þjóðin fylgdist magnþrungin með björgunarleiðangrinum. Nákvæmar fréttir og skeyti frá „Dr. Alexander“ og öðrum leiðangursmönnum birtust daglega á fyrstu síðum íslenskra dagblaða. Líklega voru Íslendingar ekkert óánægðir með þá tilhugsun að Íslendingar, með tveggja ára gamalt flugfélag, gætu unnið þá miklu hetjudáð að bjarga bágstöddum Breta á Grænlandsjökli.
Morgunblaðið skrifaði svo á 1. maí: „Það mun eigi ofmælt, að öll íslenska þjóðin bíði þess með eftirvæntingu hvernig þessum íslenska leiðangri reiðir af, hvernig það tekst fyrir fullhugum þeim sem réðust í för þessa, að verða hinum ensku vísindamönnum að liði.“
Það varð áreiðanlega ekki til þess að minnka hugsanlegan þjóðrembing, að ættingjar aumingja Augustines Courtaulds virtust ekki treysta Íslendingum einum fyrir örlögum hans. Um leið og Alexander var ræstur af stað höfðu þeir haft samband við sænskan flugfrömuð, Albin Ahrenberg, um að bjarga drengnum. Ahrenberg þessi hafði mun betri flugkost, og lagði af stað fljúgandi frá Malmö til Íslands, hafði hér stutta viðdvöl og hélt svo áfram til Grænlands.
Frá för Ahrenbergs var einnig greint nákvæmlega í íslenskum dagblöðum, svolítið sem og um keppni væri að ræða milli Alexanders og Ahrenbergs, eða Íslands og Svíþjóðar. Hver yrði fyrri til að koma Bretanum til bjargar?
Í glugga Morgunblaðshússins í Austurstræti var sett upp kort af norðurhveli Jarðar þar sem merktar voru inn leiðir Ahrenbergs og Alexanders til Grænlands. Sannarlega æsilegt: „Þar voru jafnharðan birtar í glugganum fregnir af leiðangri Óðins. Var oft mannmargt fyrir utan gluggann, því að menn fylgjast af miklum áhuga með þessum merkilega íslenska björgunarleiðangri“ sagði Morgunblaðið sjálft frá 1. maí 1931.
Allur þjóðrembingur var hinsvegar óverðskuldaður, því áform Alexanders og félaga misheppnuðust. Þrátt fyrir nákvæmar útlistanir Alexanders, í skeytum sínum til dagblaðanna, á flugleiðinni frá Ammassalik til bækistöðva Bretanna og þaðan upp á jökulbunguna, komst Veiðibjallan varla í loftið. Líklega hefur ekki verið glaðlegt yfir mannfjöldanum við Morgunblaðsgluggan þegar sú fregn barst að annar hreyfill vélarinnar hefði bilað eftir örfárra mínútna flug.
Næstu daga voru talsverðar deilur í íslenskum blöðum um hvað hafi eiginlega farið úrskeiðis. Alþýðublaðið sló því upp að leiðangurinn hafi í raun farið út um þúfur vegna ósættis leiðangursmanna og kallaði málið „ógurlegt hneyksli“ sem væri íslensku þjóðinni „til minkunar frammi fyrir öllum heimi“. Líklega var það þó frekar, að vitlaust bensín hafði verið sett á vélina.
Þrátt fyrir þessi gríðarlegu vonbrigði íslensku þjóðarinnar allrar héldu fjölmiðlar áfram að fylgjast með Svíanum Ahrenberg — kannski með örlitlum semingi. Hans för varð þó ekki svo glæst heldur, því þegar hann var loks kominn upp á jökul og tókst að koma auga á veðurathugunarstöðina hálfgrafna í snjóinn, var Coultrauld á bak og burt.
Gino Watkins forsprakki Bretanna hafði gert aðra tilraun til þess að komast að athugunarstöðinni, fundið Courtauld og farið með til byggða. Hann var þá nokkuð magur og kalinn, og einmana eftir fimm mánaða einveru á jöklinum, en annars við ágæta heilsu.
Honum hafði tekist að drýgja vistirnar út veturinn, og hafði að auki „nóg af tóbaki, ágætt úrval af klassískum og nýrri bókum og góðan lampa til að lesa við“.
Þegar til byggða var komið sendi Courtauld áhyggjufullu ættingjum sínum símskeyti þar sem hann baðst undan fleiri „hysterískum björgunarleiðangrum.“
Allt fjölmiðlafárið og leiðangrar bæði Íslendinganna og Ahrenbergs virðast því hafa verið óðagát og vitleysa frá byrjun. Courtauld hafi aldrei verið í svo bráðri lífshættu sem talið var. Sigurður Jónsson flugmaður sem var á Óðni sagði í viðtali við Morgunblaðið 1969 að leiðangurinn hafi verið „fljótræði“:
„Þó er það vart við okkur að sakast, heldur hygg ég að ótti og vanhugsaðar aðgerðir aðstandenda Courtaulds hafi dregið okkur út í þetta. […] Það var eins og [Bretunum] væri ekkert um ferð okkar gefið, enda komumst við að þvi seinna, að aðstandendur Courtaulds sendu leiðangur þennan án þess að hafa samráð við Watkin.“
Courtauld snéri aftur til Grænlands fjórum árum síðar og náði þá fyrstur manna tindi hæsta fjalls Grænlands, Gunnbjörnsfjalli. Ljúkum nú þessari furðusögu á myndum úr leiðangri Bretanna ungu. Myndirnar tók Henry Iliffe Cozens og þær eru fegnar frá Scott-heimskautarannsóknarsetrinu við Cambridge-háskóla.