Þessi mynd verður til sölu á safnarauppboði í Bandaríkjunum. Hún ku vera röntgenmynd af Hitler.

 

Bandaríski uppboðshaldarinn Alexander Historical Auctions selur ýmislegt glingur er tengist sögu hernaðar. Þar geta sögufróðir til dæmis keypt eiginhandaráritanir frægra leiðtoga úr sögunni.

 

Í næstu viku verða boðnir upp munir er tengjast sjálfum Adolf Hitler. Einn þeirra er vatnslitamálverk eftir einræðisherrann sem reyndi, eins og kunnugt er, fyrir sér í málaralist áður en hann sneri sér alfarið að stjórnmálum.

 

Í bunkanum eru og ýmis skjöl, til dæmis skýrsla og kvittanir um kaup nasistaflokksins á glæsilegri limósínu.

 

En það sem áhugaverðast þykir eru skýrslur lækna um Hitler. Forstjóri uppboðshaldarans segir, í viðtali við tabloid-blaðið Daily News frá New York, að skýrslur þessar sýni fram á að Hitler hafi verið háður kókaíni og auk þess þjáðst af heiftarlegum vindverkjum.

 

Læknaskýrslur þessar komust í hendur bandarískra heryfirvalda eftir lok seinna stríðs. Lemúrinn veit ekki hversu sterkar sannanir eru fyrir því að dótið, sem áðurnefndur uppboðshaldari er með til sölu, sé ekta. En hauskúpumyndin hér að ofan er ófrýnileg, reyndar eins og allar aðrar röntgenmyndir.

 

 

Meint vatnslitaverk eftir Hitler. Fer á átta til tíu þúsund dollara, segir uppboðshaldarinn Alexander Auctions.

 

Lampi Hitlers verður einnig til sölu.