Sú var tíðin að popptónlistarmenn létu sig varða um vandamál heimsins. Á árunum 1983-1985 herjuðu miklir þurrkar á Eþíópíu og Erítreu á austurströnd Afríku og í kjölfarið fylgdi skelfileg hungursneyð. Margir muna sjálfsagt eftir söfnunarbaukum sem gengu hér á Íslandi frá Hjálparstofnun kirkjunnar en það eru örugglega ennþá fleiri sem muna eftir heimsfrægum poppurum, sem tóku höndum saman til að safna fé handa þeim sem áttu um sárt að binda í Afríku.

 

Á Íslandi muna sennilega allir eftir framlagi þeirra Midge Ure og Bob Geldof, en þeir sömdu lagið Let Them Know It’s Christmas og var það flutt af vinsælustu tónlistarmönnum Bretlandseyja undir nafninu Band Aid. Lagið fær enn talsverða spilun, en kannski ekki síst vegna þess að það er einmitt jólalag – og er því fastur liður á FM 98.9 á ári hverju þegar fer að nálgast nóvember.

 

Engum leynist að lag Band Aid er vissulega frábært, og vegna þeirrar smáskífu urðu til margar skemmtilegar bransasögur. Vitið þið til dæmis hvaða hlutverki hljómsveitin Status Quo gegndi við upptökurnar?

 

Hér verður þó fjallað um bandaríska framlagið gegn hungursneyðinni, sem ef til vill færri muna eftir, lag þeirra Lionel Richie og Michael Jackson; We Are The World. Það muna auðvitað allir eftir laginu þegar þeir heyra það, en á sama tíma þá eru alveg hreinar línur – að það heyrist ekki nærri því nógu oft. Það var upphaflega skemmtikrafturinn, mannréttindafrömuðurinn og eilífðartöffarinn Harry Belafonte sem átti hugmyndina að því að bandarískir listamenn ættu að leggja sitt af mörkum. Richie og Jackson svöruðu kallinu og það var síðan Quincy Jones sem sá um að halda um upptökustjórn.

 

Það var sannkallað stjörnufans á Beverly Boulevard í Los Angeles, þann 22. janúar 1985.

 

Allar helstu stjörnur skemmtanaiðnaðarins komu saman þarna í janúar 1985. Og þvílíkar stjörnur! Stevie Wonder, Paul Simon, Kenny Rogers, Tina Turner, Diana Ross, Dionne Warwick, Huey Lewis… listinn heldur áfram. En það sem gerir lagið hins vegar svo unaðslega frábært, og án n0kkurs vafa að besta „söfnunarlagi“ allra tíma, eru listamennirnir sem fáir hefðu ef til vill búist við að sjá á sama plötuumslagi og Michael Jackson.

 

Hápunktarnir eru:

 

– Þegar Bruce Springsteen, stjórinn sjálfur, tekur sönginn í sínar hendur (2.13), og gjörsamlega pakkar laginu saman. Þvílíkur kraftur! Þvílík innlifun!

 

-Það kemur kannski ekki á óvart að Cyndi Lauper hafi verið á svæðinu. En krafturinn í henni er alveg til fyrirmyndar (2.51). Sérstaklega þegar hún er búin að stíga frá hljóðnemanum og Kim Carnes og Huey Lewis þenja raddböndin – þá kemur hún aftur inn með yndislegan trylling sem er algert gæsahúðarmeðal.

 

-Bíddu nú við. Hver kemur þarna á 3.45? Jú, nema hvað… Bob Dylan! Þarf að segja meira?

 

Að lokum má geta þess að smáskífan We Are The World seldist í 20 milljónum eintaka, og er þar með sjötta söluhæsta smáskífa allra tíma. Lagið var gefið út í mars árið 1985 og einu ári síðar höfðu safnast um 45 milljónir dollara til að styrkja hjálparstarf í Eþíópíu og Erítreu. Sannarlega til fyrirmyndar. Ef heimurinn væri einungis skipaður poppstjörnum þá… já, þá… Allt í lagi, en Harry Belafonte er allavega ótrúlega nettur gaur.

 

We Are The World, besta lag allra tíma? Það má kannski liggja milli hluta, en á meðan: Gæsahúð í boði stjórans og Cyndi!

 

Vídjó